Stórtónleikar á aðalsviði og flugeldasýning hápunktur dagsins

Kjötsúpa Skólamatar sameinaðist Götupartýi í ár og þótti breytingin heppnast vel. Í anda platlausra…
Kjötsúpa Skólamatar sameinaðist Götupartýi í ár og þótti breytingin heppnast vel. Í anda platlausrar Ljósanætur var súpan borin fram í pappaskálum og borðuð með maísskeiðum. Skammtarnir voru um 5000 í ár og gafst gestum einnig kostur á að velja vegan súpu. Ljósmynd Víkurfréttir

Enn einn vel heppnaður viðburðadagur Ljósanæturhátíðar er að baki. Fólki þusti úr öllum skúmaskotum niður í bæ í gær til að taka þátt í hinum ýmsu viðburðum og gæða sér á kjötsúpu Skólamatar.

Að þessu sinni sameinaðist kjötsúpuboðið götupartýi við Hafnargötu og var almenn ánægja með þá nýbreytni. Heimatónleikarnir voru að venju vel sóttir og mátt heyra óm um miðbæinn frá þeim átta húsum sem buðu upp á lifandi tónlistarflutning fyrir bæjarbúa að njóta. Lögreglan á Suðurnesjum var með öfluga vakt og kom þeim sem voru í vanda fljótt og örugglega til síns heima. Nóttin var tíðindalítil þó gleði hafi verið við völd langt frameftir.

Laugardagurinn er jafnan aðaldagur ljósanætur. Klukkan 13:30 hefst Árgangaganga niður Hafnargötuna að hátíðarsviði. Nú á 20 ára afmæli Ljósanætur þarf að færa árgangana niður um 20 húsnúmer, því bæjarbúar eldast og liðka þarf til fyrir yngri íbúum. Árgangur 1969 skipar sérstakan sess í göngunni í ár enda fagna þeir bæjarbúar 50 ára afmæli í ár. Þeir sameinast nú við Hafnargötu 49.

Að lokinni Árgangagöngu tekur við fjölbreytt dagskrá á útisviði á hátíðarsvæði. Þar verður m.a. sett Íslandsmet í töframbrögðum og er unga fólkið hvatt til að taka þátt í þeim viðburði. Sýningarsalir og söfn eru opin í allan dag, götupartýið heldur áfram við Hafnargötu 30, Skessan ætlar að bjóða í lummur milli kl 14 og 17 og syngjandi sveifla verður í Duus Safnahúsum milli kl. 14:30 og 17:30.

Stórtónleikar hefjast á aðalsviði kl. 20:30 en þá hafa margir bæjarbúar haldið súpuveislur og opnað hús sín fyrir aðkomufólki sem vill upplifa hátíðina. Í framhaldi taka við stórtónleikar með kanónum á borð við Emmsjé Gauta og Aron Can, Jóhönnu Guðrúnu og Sölku Sól, Sverri Bergmann og Jóni Jósep, við undirleik Stuðlabandsins. Herra Hnetusmjör tekur svo við tónleikahaldinu að lokinni flugeldasýningu og lýsingu Bergsins um 22:30. Sem fyrr verður lofað stórkostlegri sýningu sem lýsir um himininn og hafið kringum Bergið.

Á morgun verða tvær sýningar á sýningu Blik í auga hópsins „Manstu eftir Eydísi?“ í Hljómahöll, Menningarfélagið í Höfnum búður til hátíðar, þar sem opnuð verður sögusýning um Jamestown strandið, Kvartettinn Spúttnikk mun koma fram í gamla skólanum og tónlistarmennirnir Elíza Newman og Jónas Sig í Kirkjuvogskirkju. Bubbi Morthens verður í kvöldmessu í Keflavíkurkirkju og ásamt Blik í auga hópnum mun hann slá botninn í Ljósanæturhátíðina.

Við höldum áfram að njóta Ljósanætur og bendum á að dagskrána í heild má nálgast á www.ljosanott.is

Frá heimatónleikum Dimmu í gamla bænum. Ljósmynd Víkurfréttir