Styrktartónleikar í Hljómahöll fyrir ungan bæjarbúa

Fjölmargir flottir listamenn munu koma fram á styrktartónleikum Guðmundar Atla og krabbameinssjúkra barna í Hljómahöll laugardaginn 6. febrúar kl. 16:00 undir yfirskriftinni Hlýja, von og kærleikur. Páll Óskar, Valdimar Guðmundsson, María Ólafs, Blaz Roca, Herra Hnetusmjör, Shades of Reykjavík, Sígull og Sesselja Ósk jólastjarna ásamt bekkjarsystkinum Guðmundar Atla.

Guðmundur Atli 7 ára nemandi í Myllubakkaskóla greindist með bráðahvítblæði undir lok nýliðins árs. Jólum og áramótum eyddi Guðmundur Atli á Barnaspítalanum og hefur þrátt fyrir allt haldið í gleðina og brosið sem hefur alltaf einkennt hann. Kristín Ósk Wium, móðir einnar bekkjarsystur Guðmundar Atla, fannst sárt að heyra af raunum Guðmundar Atla og hóf undirbúning styrktartónleika til að létta honum og fjölskyldunni róðurinn á erfiðum tímum. Hún hefur fengið frábæra listamenn til liðs við sig, sem allir voru fúsir að taka þátt í verkefninu og gefa vinnu sína á tónleikunum í Hljómahöll.

Að sögn Kristínar Óskar mun ágóðinn af tónleikunum bæði rennar til Guðmundar Atla og fjölskyldu hans og Styrktarfélags Krabbameinssjúkra barna. Miðasala er hafin á tix.is og er verðið 1500 krónur. Miðaverð við innganginn verður 2000 krónur. 

Styrktaraðilar tónleikanna eru Kaffitár, Ölgerðin og Vífilfell og fer öll sala veitinga einnig til þessara aðila.