Sundmiðstöðin 25 ára

Í dag, 3. mars eru 25 ár síðan Sundmiðstöðin við Sunnubraut var tekin í notkun. Gamla Sundhöllin þjónaði fyrir þann  tíma bæði almenningi og kennslu grunnskólabarna, auk æfinga hjá sunddeildinni. 

Það voru mikil viðbrigði að fá glæsilega 25 metra útilaug, heita potta, gufubað og síðast en ekki síst stóra rennibraut sem yngri kynslóðin fagnaði mjög. Þá var í húsinu  líkamsræktarstöð sem Perlan rak fyrst og síðan Lífsstíll. 

Árið 2006 opnaði  glæsileg 50 metra innilaug og vatnsleikjagarður fyrir yngstu börnin. Miklar endurbætur voru gerðar á öllu lagnakerfi útilaugarinnar og pottanna í haust og tókust þær framkvæmdir vel.  

Frá árinu 1990 hafa um 2,7 milljónir gesta komið í laugina. Í Sundmiðstöðinni starfa 14 manns.