Takk fyrir frábæra Ljósanótt!

Við skipulagningu á fjölskyldu og menningarhátíð fyrir rúmlega 20 þúsund manna bæjarfélag og nokkur þúsund gesti til viðbótar er í mörg horn að líta svo allt gangi upp. Margir mánuðir fara í undirbúning Ljósanætur ekki bara hjá starfsfólki Reykjanesbæjar heldur einnig fjölda annarra þátttakenda sem gæða hátíðina lífi.

Það voru því margir sem héldu niður í sér andanum í síðustu viku þegar þeir skoðuðu veðurspánna á klukkutíma fresti og ljóst varð að veðurguðirnir yrðu ekki með okkur í liði. Þrátt fyrir hressilegt rok og stöku rigninga dembur er aðdáunarvert hvernig allir fóru inn í helgina með jákvæðni að leiðarljósi og staðráðnir í að láta veðrið ekki skemma fyrir að bæjarhátíðin okkar yrði að veruleika. Plan A, B og í sumum tilfellum C gekk vonum framar og undantekningarlaust hefur fólk komið að máli við mig og rætt hversu vel hefur tekist til.

Fjöldi fólks kemur að því að láta Ljósanótt verða að veruleika og eiga margir þakkir skildar fyrir þeirra framlag og útsjónarsemi við að leika á veðurguðina. Fyrir hönd Reykjanesbæjar vil ég þakka starfsfólki sveitarfélagsins, viðbragðsaðilum, rekstraraðilum, félagasamtökum, listafólki, viðburðahöldurum og öllum styrktaraðilum kærlega fyrir þeirra framlag. Síðast en ekki síst vil ég þakka ykkur íbúum og gestum sem fjölmenntuð á ótal viðburði alla helgina með bros á vör. Án ykkar væri engin Ljósanótt.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.