Takk fyrir sumarið

Frá vinnuskólanum.
Frá vinnuskólanum.

Sumarið er tíminn til góðra verka og er vinnuskóli Reykjanesbæjar svo heppin að fá til sín rúmlega 500 duglega starfsmenn, sem að stærstum hluta samanstendur af grunnskólabörnum sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skref í vinnu.  Þeim stjórna á vettvangi flokkstjórar sem oft eru í fyrsta sinn að stjórna hópi af ungmennum og einnig þeir sem koma aftur ár eftir ár og miðla af reynslu sinni. 

Yfirflokkstjórar í sumar voru þær Ingveldur Eyjólfsdóttir og Björg Ásta Þórðardóttir og sáu þær um daglegan rekstur Vinnuskólans, en þær hafa báðar unnið í mörg ár hjá Vinnuskólanum og standa sig með stakri prýði.

Áhersla er lögð á fegrun umhverfis okkar en það sem af er þessi sumri hefur vinnuskólinn fjarlægt um 70 tonn af garðaúrgangi og rusli úr beðum og hverfum bæjarins.  Þau sinna slætti fyrir eldri borgara og öryrkja, hverfahreinsun, beðahreinsun sem, almennri hreinsun á rusli og margt fleira.  Þetta eru ekki vinsæl verkefni, og má jafnvel tala um vanþakklátt starf sem þau fá lítið hrós frá almenningi en frekar eru þau litin hornauga ef þau taka sér stund til að brosa framan í sólina og njóta samvista hvert við annað.  Samskipti við aðra starfsmenn er einnig hluti af námi vinnuskólans.  Það kemur þó fyrir að þau fá hrós frá bæjarbúum og það hlýtur að gleðja þau og er það von okkar að þessi duglegi hópur fái að njóta sannmælis meðal íbúa Reykjanesbæjar.

Auðvitað koma upp mál þar sem einstaklingar standa sig ekki eins vel og vonast var eftir, en það má ekki dæma allan hópinn út frá þessum fáu sem þurfa meiri leiðsögn til að ná tökum á því að vera í launaðri vinnu.  Flestir ná þó tökum á þessu og standa sig vel.

Tvö tímabil voru í boði þetta sumarið frá 6. júní til 28. júlí og skiptust nemendur nokkuð jafnt niður yfir sumarið.  Röðum við krökkunum niður í hverfi eftir skólum og hefur það reynst vel þar sem krakkarnir geta þá í langflestum tilvikum gengið á vinnustað.  Enduðum við svo hvert tímabil á íþróttadegi og pulsu grilli en það var mikið fjör enda kraftmikill hópur af unglingum samankomin til að gera sér glaðan dag.

Að lokum vil ég þakka ykkur öllum sem komuð að starfsemi Vinnuskólans fyrir frábært sumar og vona að ég sjái flest ykkar aftur að ár.

Berglind Ásgeirsdóttir 
Yfirmaður Vinnuskóla Reykjanesbæjar