Þátttökuverðlaun og könnun um BAUN

Gauja Eldon, Alexander Óðinn, Sigrún Kara, Katla og Maria taka á móti verðlaununum í Húsasmiðjunni.…
Gauja Eldon, Alexander Óðinn, Sigrún Kara, Katla og Maria taka á móti verðlaununum í Húsasmiðjunni. Með þeim á myndinni eru Halla Karen, verkefnastjóri BAUNar og Gísli Hlynur rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar á Fitjum. Á myndina vantar Rakel Lilju.

Það voru glaðir og kátir krakkar sem tóku við þátttökuverðlaunum fyrir þátttöku í BAUN, barna- og ungmennahátíð í vikunni en þau duttu svo sannarlega í lukkupottinn þegar nöfn þeirra voru dregin úr stórum potti BAUNabréfa sem skilað hafði verið inn.

Verðlaunaafhendingin fór fram í Húsasmiðjunni í Reykjanesbæ sem studdi dyggilega við verkefnið og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir sitt framlag.

Trampólín frá Húsasmiðjunni hlutu þau  Sigrún Kara Arnarsdóttir og Alexander Óðinn. Þær Gauja Eldon, Katla Emilsdóttir, Maria og Rakel Lilja fengu í sinn hlut gjafabréf á Huppu fyrir fjóra.

Þátttaka í BAUN sem fram fór dagana 27. apríl – 7. maí var einstaklega góð og bærinn iðaði af lífi þar sem börn og fjölskyldur fóru um að leysa ýmsar þrautir, taka þátt í smiðjum og viðburðum og safna um leið stimplum og svörum í BAUNabréfið sitt. Sem dæmi um þátttökuna má nefna að 4.700 manns lögðu leið sína í Duus Safnahús á meðan á hátíðinni stóð. Fjölmargir dagskrárliðir voru á dagskrá og voru börn, ungmenni og fjölskyldur hvött til að taka þátt í eins mörgum dagskrárliðum og þau höfðu getu eða löngun til og skila svo inn BAUNabréfinu og komast í lukkupottinn.

BAUNabréfið var í upphafi búið til sem viðbrögð við samkomutakmörkunum og hugmyndin sú að fjölskyldan gæti farið á kreik og átt góðar stundir við ýmislegt sem bærinn okkar býður upp á. Viðbrögðin voru hins vegar svo góð að full ástæða þótti til að halda áfram að vinna með og þróa hugmyndina. Í ár var BAUNabréfið gefið út í þriðja sinn og fór þátttaka fram úr björtustu vonum og virkilega gaman að sjá hve áhugasamir krakkarnir okkar eru en sú nýbreytni átti sér stað að börnum og ungmennum gafst kostur á að koma með hugmyndir að dagskrárliðum á hátíðinni.  Hugmyndir frá börnum sem voru framkvæmdar á hátíðinni voru meðal annars Gróðursetning á óskaBAUN, jóga, origami, smiðjur og Sirkusskógur svo eitthvað sé nefnt. 

Niðurstöður könnunar

Að hátíðinni lokinni var stutt könnun sett í loftið til að gefa foreldrum og aðstandendum kost á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi hátíðina og fyrirkomulag hennar. Rúmlega tvö hundruð svör bárust sem munu nýtast mjög vel við undirbúning næstu BAUNar.

Hér má sjá nokkrar niðurstöður:

Spurt var um hversu mörgum dagskrárliðum barnið hafði tekið þátt í (Staðir heimsóttir, þrautir leystar, smiðjur, viðburðir).

 

Hér má sjá að þátttaka í dagskránni má teljast mjög góð þar sem 85% þeirra barna sem svarað var fyrir tóku þátt í fjórum eða fleiri viðburðum.

Spurt var um ánægju barnanna með þátttöku í hátíðinni og voru 96% mjög eða frekar ánægð sem er auðvitað mjög ánægjulegt.

Þá var einnig spurt hversu ánægt fullorðna fólkið sem svaraði könnuninni hefði verið með hátíðina og voru tæplega 96% mjög eða frekar ánægðir.

Það má því segja að þessar niðurstöður staðfesti þá tilfinningu sem verkefnastjórn hátíðarinnar hafði að almenn ánægja væri með fyrirkomulag hennar. Að lokum var svarendum gefinn kostur á að koma á framfæri hugmyndum eða athugasemdum vegna hátíðarinnar og bárust fjölmargar athugasemdir sem munu nýtast virkilega vel við áframhaldandi þróun hennar. Það er mjög mikils virði að fá endurgjöf frá þeim markhópi sem hátíðin beinist að og eru öllum þeim sem gáfu sér nokkrar mínútur til að svara könnuninni færðar sérstakar þakkir.

Sjáumst á næstu BAUN 2024!