Þemavika tónlistarskólans

 Dagana 21. til 26. febrúar verður haldin hin árlega Þemavika í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Skapast hefur um það hefð í skólanum að febrúarmánuður sé þemamánuður sem lýkur með uppskeru í síðustu viku mánaðarins og hápunkti á Degi tónlistarskólanna, en sá hátíðisdagur er á landsvísu og alltaf síðasti laugardagur í febrúar.

Hjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er uppskeran og dagskráin á Degi tónlistarskólanna mismunandi hverju sinni eftir því hvert þemað er, en að þessu sinni er það „Tónlist hinna ýmsu landa".

Í þessu þema hafa hljóðfæraflokkar valið sér land eða jafnvel heimsálfur til að vinna með. Þeir kynna sér tónlist þess lands sem valið hefur verið, helstu tónskáld, menninguna og söguna.

Mikill fjöldi tónleika verða haldnir í þemavikunni þar sem fram koma nemendur í einleik og samleik og gefst áheyrendum kostur á að heyra afrakstur þemavinnunnar. 

Aðrir tónleikar þemavikunnar verða samspils- og hljómsveitartónleikar Rythmadeildar þriðjudaginn 22. febrúar kl. 20.00 í Frumleikhúsinu. Þar koma fram ýmis jass- og rokksamspil og hljómsveitir, m.a. Léttsveitin og Rafgítarkór, og flytja tónlist frá Bandaríkjunum og Brasilíu.

Siðan verða lúðrasveitartónleikar miðvikudaginn 23. febrúar kl.19.30 í Stapa. Þar koma fram allar þrjár lúðrasveitir skólans og flytja tónlist frá Rússlandi.

Þemamánuðinum og þemavikunni lýkur síðan á Degi tónlistarskólanna laugardaginn 26. febrúar með tónleikum í Stapa kl. 14.00. Það verða blandaðir tónleikar með völdum atriðum frá tónleikum þemavikunnar. Nánari upplýsingar um alla tónleika þemavikunnar er að finna á vefsíðu Tónlistarskólans.

Aðgangur að öllum tónleikunum er ókeypis og allir velkomnir.