Þrautabraut opnuð við Kamb

Þrautabraut við Kamb var hugmynd sem kom frá íbúa Reykjanesbæjar og var hún kosin í lýðræðisverkefninu Betri Reykjanesbær 2021.

Verkfræðistofan EFLA hannaði svæðið og settu starfsmenn Grjótgarða upp leiksvæðið. Starfsmenn Umhverfismiðstöðvar bættu við leiksvæðið og settu upp aparólu ásamt leiksvæði fyrir yngri börn.

Þrautabrautin var opnuð formlega föstudaginn 5. maí á BAUN, Barna- og ungmennahátíð í Reykjanesbæ. Formaður Umhverfis- og skipulagsráðs, Róbert Jóhann Guðmundsson, hélt ræðu og voru nemendur í Akurskóla og Stapaskóla sem aðstoðuðu hann við að klippa á borðann.