Þriggja ára áætlun gerir ráð fyrir lækkun skulda

 

Reykjanesbær áætlar að svonefnt skuldahlutfall bæjarsjóðs verði komið niður í 195% árið 2014, samkvæmt þriggja ára áætlun sem lögð var fram í bæjarstjórn í gærkvöldi. Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur og peningalegar eignir verði nýttar til að greiða niður skuldir á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall samstæðu verði komið í 211% árið 2014. Skuldahlutfall mælir heildarskuldir á móti rekstrartekjum eins árs.

Samkvæmt ársreikningi ársins 2010 var EBITDA bæjarsjóðs jákvæð um 351 milljón kr. og samstæðu jákvæð um 2,1 milljarð kr. Í áætlun ársins 2011 er gert ráð fyrir 466 milljón kr. jákvæðri Ebitdu og 2,7 milljörðum hjá samstæðu.  Í þriggja ára áætlun 2012-2014  er gert ráð fyrir áframhaldandi jákvæðri rekstrarniðurstöðu þótt gætt sé varfærnissjónarmiða um tekjuaukningu. Í áætluninni er t.d. vart getið áhrifa af aukinni atvinnusköpun, s.s. kísilveri og álveri í Helguvík, gagnaveri og heilsuferðamennsku á Ásbrú og jarðauðlindagarði á Reykjanesi.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að skuldabréf og aðrar peningalegar eignir sem ekki tilheyra lögbundnum rekstri sveitarfélagsins, verði nýttar til að lækka skuldir Reykjanesbæjar. Nú þegar hafa 2,5 milljarðar af skuldabréfi sem gefið var út árið 2008, á gjalddaga 2018, verið greiddir. Lán frá norræna fjárfestingarbankanum var greitt upp í fyrra og stefnt er að uppgreiðslu á láni írska bankans Depfa innan tveggja ára.