Þrjár nýjar sýningar opna í Listasafni Reykjanesbæjar á laugardag kl. 14.

Eitt af verkum Gunnlaugs Scheving á sýningunni.
Eitt af verkum Gunnlaugs Scheving á sýningunni.

Gunnlaugur Scheving: Til sjávar og sveita 

Laugardaginn 24. janúar opnar í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum sýningin til Sjávar og sveita. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Íslands, Menningarmiðstöðvar Hornafjarðar og Listasafns Árnesinga. Markmið samstarfsins og þriggja sýninga sem söfnin unnu saman, er að kynna ákveðin tímabil og stefnur í íslenskri myndlist. Á þessari sýningu eru tekin fyrir verk Gunnlaugs sem er meðal helstu listamanna þjóðarinnar og endurspegla verkin á sýningunni vel þá breytingu sem varð í íslenskri myndlist á millistríðsárunum. Gunnlaugur tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem komu fram í lok fjórða áratugarins. Þjóðernisátök og efnahagskreppa beindu listamönnum inn á nýjar brautir þar sem landslagið var ekki lengur aðalviðfangsefnið heldur nánasta umhverfi og daglegt líf.

Í Listasafni Íslands er varðveitt mikið safn verka Gunnlaugs Scheving og verkin á sýningunni koma öll úr safneign safnsins. Á sýningunni eru nokkur af risastórum verkum Gunnlaugs en einnig minni verk, frumdrög og skissur sem gefa gestum tækifæri á að kynnast myndhugsun listamannsins og vinnuferli. Gunnlaugur skoðar í þaula hvernig menn bera sig að vinnu, hvort sem um ræðir sjómenn eða bændur, hann skoðar afmarkaða hluti en einnig hvernig myndbyggingin vinnur með og miðlar hreyfingu og átökum við vinnu, samspili manns og náttúru.

Verkin á sýningunni sýna þróun hugmynda, vangaveltur og þrotlausa vinnu listamannsins þar sem samlífi manns og náttúru er umfjöllunarefnið og rauði þráðurinn í verkum Gunnlaugs. Gestum er gefinn kostur á leik og fræðslu með verkefnum til þess að glíma við og hafa gaman af um leið og töfrar Gunnlaugs Scheving birtast okkur í myndum hans, stórum og smáum. Sýningin stendur til 8. mars. Safnið er opið virka daga kl. 12.00 – 17.00, helgar kl. 13.00 – 17.00. Ókeypis aðgangur. Sýningarstjóri er Björg Erlingsdóttir.

Við sama tækifæri verða opnaðar tvær aðrar sýningar í Duushúsum á vegum Listasafns Reykjanesbæjar og munu þær einnig standa til 8. mars

Sjálfsagðir hlutir

Sýningin Sjálfsagðir hlutir kemur frá Hönnunarsafni Íslands og fjallar um þekkta hluti úr hönnunarsögunni. Tilgangur sýningarinnar er að kynna efni og sögu þekktra og oft klassískra hluta í hönnunarsögunni. Nær allt sem við snertum hefur verið hannað á einhvern hátt. Á sýningunni  eru sýndir nokkrir af þeim hlutum sem við lítum á sem sjálfsagða í daglegu lífi og efnisvali þeirra gerð skil. Augnlinsur, tannstönglar, klósett og bréfaklemmur eru dæmi um hluti sem gegna allir á sinn hátt mikilvægu hlutverki og hafa jafnvel sannað gildi sitt sem „klassískir“ á þann hátt að endurnýjun eða endurhönnun virðist óþörf þegar við virðum þá fyrir okkur í dag.  Sýningarstjóri er Þóra Sigurbjörnsdóttir.


15/15 – Konur og myndlist

Sýning á verkum fimmtán íslenskra kvenna úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar í tilefni þess að árið 2015 eru liðin 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt.  Á sýningunni má m.a. sjá olíuverk, tússteikningar og  vatnslitamyndir og hafa verkin komist í eigu safnsins á síðustu fimmtán  árum. Sýningarstjóri er Valgerður Guðmundsdóttir.