Til hamingju með 20 ára afmælið Reykjanesbær!

Reykjanesbær er 20 ára.
Reykjanesbær er 20 ára.

Í dag, 11. júní 2014, fagnar Reykjanesbær 20 ára afmæli. Af því tilefni samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 7. febrúar 2012, að gefa út afmælisrit, þar sem stiklað yrði á stóru um þá þróun og breytingar sem orðið hafa síðan sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir sameinuðust undir nafni Reykjanesbæjar.

Böðvar Jónsson, forseti bæjarstjórnar, ritar inngang afmælisritsins og segir m.a. fá sveitarfélög hafa vaxið með sama hraða og Reykjanesbær á þessu tímabili en fjölgun íbúa frá 1994 hafi verið um 40%. Til að mæta þeirri fjölgun hafi þurft að ráðast í miklar framkvæmdir  m.a. skóla- og leikskólabyggingar, byggingu íþróttamannvirkja og nýrra íbúðahverfa. Við brotthvarf varnarliðsins árið 2006 hafi svo enn nýtt hverfi bæst við, Ásbrú, með tilheyrandi umsvifum í rekstri og þjónustu.

Síðari helming af stuttri ævisögu sveitarfélagsins, segir Böðvar, hafa einkennst af gríðarlegum breytingum og áföllum í atvinnu- og efnahagslegu tilliti. Hin síðustu ár hafi smám saman dregið úr atvinnuleysi og ný atvinnuverkefni skotið upp kollinum víðs vegar innan sveitarfélagsins, einkum á Ásbrú. Þá séu stór atvinnuverkefni tengd iðnaði í Helguvík og á Reykjanesi sem sum hafi þegar hafið starfsemi en önnur séu í undirbúningi.

Með afmælisritinu fylgja bestu afmæliskveðjur til bæjarbúa, starfsfólks og samstarfsaðila frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar með þökk fyrir fyrstu 20 árin.

Hér má sjá vefútgáfu afmælisritsins