Tilraunaakstur með rafknúinn almenningsvagn í Reykjanesbæ

Sævar Baldursson, framkvæmdastjóri Bus4U og Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs v…
Sævar Baldursson, framkvæmdastjóri Bus4U og Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs við rafmagnsvagninn

Bus4u Iceland, sem annast rekstur almenningssamgangna í Reykjanesbæ, er þessa dagana í tilraunaakstri með almenningsvagn sem er knúinn 100% með rafmagni og mun hann verða nýttur á nokkrum akstursleiðum næstu dagana.

“Þetta er klárlega framtíðin og verður horft til umhverfisvænni vagna hvort sem það verður rafmagn, vetni eða aðrir vistvænir orkugjafar á næstu árum,” segir Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar.

Bíllinn sem er af Mercedes Citaro gerð er fluttur inn fyrir tilstilli Öskju, sem er umboðsaðili Mercedes Bens á Íslandi, og tekur um 30 farþega í sæti. Drægni ökutækisins er um 185 km á hleðslu og kemur mjög vel út þar sem ökutækið er nánast hljóðlaust og hentar því vel fyrir akstur í íbúðahverfum.

Sævar Baldursson, framkvæmdastjóri Bus4u, segir að tíminn verði að leiða í ljós hvort farið verði í að fjárfesta í svona farartæki á næstunni en þessir bílar eru töluvert dýrari en farartæki sem eru knúin hefðbundnum orkugjöfum.