Tölum við og lesum fyrir börnin

Foreldrar hvattir til að tala við börn og lesa fyrir börn

Haustið 2011 var farið af stað með nýjar og markvissar áherslur í læsi og stærðfræði í leikskólum Reykjanesbæjar, Garði og Sandgerði. Leikskólarnir hafa unnið ötullega að þessum markmiðum eftir fjölbreyttum leiðum.

Foreldrar eru ákaflega mikilvægir þegar kemur að því að efla færni barna og hjálpa þeim að stíga fyrstu skrefin í átt að læsi. Í leikskólunum hefur verið lögð rík áhersla á mikilvægi þeirra. Að sögn Ingibjargar Bryndísar leikskólafulltrúa á Fræðsluskrifstofunni var það rætt meðal leikskólakennara hvernig hægt væri að styrkja foreldra til að undirbúa barnið sitt sem best fyrir nám í lestri.

Í framhaldi af því kom upp sú hugmynd að útbúa segla sem foreldrar geta fest á ísskápinn þannig að góðu ráðin séu ávallt innan seilingar. Er það von okkar að góð ráð aðstoði foreldra við að styðja börn sín í átt til læsis.

Vikan 18.-22. nóvember verður tileinkuð bókum og lestri í leikskólunum. Í tilefni af því býður Penninn-Eymundsson í Reykjanesbæ 20 % afslátt af barnabókum dagana 21. -23. nóvember. Á Bókasafni Reykjanesbæjar býðst börnum ávallt frítt bókasafnskort.