Tvöfalt fleiri gestir á safnahelgi nú en í fyrra

Frá safnahelgi 2017. Ungur safngestur horfir ofan í Duusbrunn í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsa. Það er …
Frá safnahelgi 2017. Ungur safngestur horfir ofan í Duusbrunn í Bryggjuhúsi Duus Safnahúsa. Það er alltaf vinsælt að skora á sjálfan sig að labba yfir glerið sem hylur djúpan brunninn.

Safnahelgi á Suðurnesjum var haldin í níunda sinn um liðna helgi og þótti takast með eindæmum vel. Fjöldi fólks lagði leið sína um söfn og sýningar í öllum bæjarfélögunum fimm og gestatölur benda til að fjöldinn hafi tvöfaldast frá í fyrra þegar rúmlega fjögur þúsund manns nýttu sér boðið.Gestir sem heimsóttu söfnin í Reykjanesbæ voru 4086 talsins og þá eru ótaldir gestir í Garði, Grindavík, Sandgerði og Vogum.

Veðrið var með besta móti þannig að gestir nutu ekki einungis sögu, menningar og lista heldur fengu í kaupbæti náttúrufegurð svæðisins. Íbúar sjálfir nýttu sér tilboðin sem í gangi voru en einnig var áberandi hve margir gestir komu af höfuðborgarsvæðinu. Fjöldi sjálfboðaliða tók þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum sveitarfélaganna sem vinna við menningar- og safnamál. 

Safnahelgin er sameiginlegt verkefni sveitarfélaganna fimm á Suðurnesjum og er liður í menningarferðaþjónustu svæðisins. Markhópurinn hefur til þessa fyrst og fremst verið heimafólk og íbúar höfuðborgarsvæðisins en spurning hvort kominn sé tími til að útvíkka þetta með tilliti til þeirra vinsælda sem verkefnið nýtur.

Framkvæmdastjórn safnahelgarinnar sendir bestu kveðjur til allra sem komu að verkefninu, hvort heldur sem gestir eða starfsmenn og hlakkar til að vinna með ykkur aftur að ári.