Umhverfisviðurkenningar veittar

Umhverfisviðurkenningar Reykjanesbæjar verða veittar í Ráðhúsinu í dag kl. 14:30. Margar góðar tilnefningar bárust eftir að óskað var eftir ábendingum um fallega garða, fallega endurbyggingu á gömlum húsum og lóðum hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Garðamenning á sér ekki langa sögu og stutt er síðan garðar voru flestir einungis grasbali og kannski fáein tré.  Nokkur hugarfarsbreyting varð hjá fólki fyrir nokkrum árum síðan og garðeigendur sýndu dirfsku, að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur garðyrkjufræðings hjá Reykjanesbæ. „Bjartsýnir menn og konur fóru að planta trjám og móta garðana sína þegar kom í ljós að margar plöntur uxu bara vel. Samfara myndaðist skjól í heimilisgörðum og við uppgötvuðum að hægt er að vera úti í garði sér til yndisauka, borða saman og hafa það huggulegt." 

Berglind segir að þar með hafi garðamenning orðið til og hjá mörgum sé þetta hreinlega lífsstíll,  útilífsstíll.  „Nú má sjá fallega skjólgóða garða, palla og svalir víðsvegar, útistofur með húsgögnum, grillum, trjám, blómum og skrautmunum.  Hér í bæ eru margir fallegir garðar sem við ætlum m.a. að verðlauna í Ráðhúsinu föstudaginn 4. september kl. 14:30. Allir eru að sjálfsögðu velkomnir."