Undirbúningur að heilsu- og forvarnarviku hafinn

Dans er heilsubætandi. Danskennsla er hluti af íþróttakennslu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hér er …
Dans er heilsubætandi. Danskennsla er hluti af íþróttakennslu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hér er skyggnst inn í tíma hjá Kristjönu Hildi Gunnarsdóttur íþróttakennara.

Heilsu- og forvarnarvika verður nú í fyrsta sinn haldin sameiginlega á Suðurnesjum og fer hún fram 2. – 8. október nk. Markmiðið með heilsu og forvarnarviku er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra bæjarbúa.

Reykjanesbær hefur fram að þessu einblínt á íbúa bæjarfélagsins þó öllum hafi að sjálfsögðu verið frjálst að taka þátt. Nú ætla nágrannasveitarfélögin að vinna saman að heilsueflingu íbúa á Suðurnesjum.

Fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélögunum á svæðinu eru hvött til að bjóða íbúum upp á fjölbreytta heilsu- og forvarnardagskrá. Nú þegar er Foreldrafélag grunnskólanna í Reykjanesbæ, FFGÍR, búið að bóka Rannsókn og greiningu til að vera með kynningu fyrir foreldra 3. október.

Skila þarf inn upplýsingum varðandi þátttöku fyrir 22. september á tengiliði sveitarfélaganna. Þeir eru Hafþór Barði Birgisson, hafthor.birgisson@reykjanesbaer.is, Guðbrandur Stefánsson, gudbrandurjs@svgardur.is, Björg Erlingsdóttir, bjorg@grindavik.is, Stefán Arinbjarnarson, stefan@vogar.is, Rut Sigurðardóttir, rut@sandgerdi.is