Undirritað um uppbyggingu í Njarðvíkurhöfn

Í dag, föstudaginn 16. janúar, skrifuðu Reykjaneshöfn og Íslenskir aðalverktakar hf. formlega undir verksamning um uppbyggingu í Njarðvíkurhöfn.

Verkið felst í að byggja 470 metra langan brimvarnargarð á suðursvæði Njarðvíkurhafnar til að mynda skjól fyrir núverandi hafnarmannvirki. Framkvæmdin er annar áfangi af tveimur í endurbótum á hafaraðstöðu Njarðvíkurhafnar, en fyrri áfanginn fólst í dýpkun innsiglingar hafnarinnar og innan hafnarsvæðis. Þeim áfanga lauk á haustmánuðum 2025 og stóð hann yfir í um 16 mánuði með hléum.

Áætlaður framkvæmdatími núverandi áfanga er um 18 mánuðir, en mögulegt er að verkinu ljúki fyrr. Að framkvæmdum loknum mun Njarðvíkurhöfn verða ein af skjólbetri höfnum landsins, með öruggri innsiglingu í hvaða veðrum sem er.

Bættar hafnaraðstæður í Njarðvíkurhöfn skapa aukin tækifæri til uppbyggingar hafntengdrar starfsemi í framtíðinni. Þar hefur meðal annars verið nefnd uppbygging í tengslum við Skipasmíðastöð Njarðvíkur og möguleg aðstaða fyrir skipastól Landhelgisgæslu Íslands.

Uppbygging og endurbætur á Njarðvíkurhöfn eru í samræmi við framtíðarsýn Reykjaneshafnar, þar sem stefnt er að því að Njarðvíkurhöfn verði aðal fiskiskipa- og þjónustuhöfn hafnarinnar í framtíðinni.