Unga fólkið vill aukna fræðslu

Frá fundi ungmennaráðs með bæjarstjórn.
Frá fundi ungmennaráðs með bæjarstjórn.

Aukin fræðsla í skólum er það sem unga fólkið í ungmennaráð Reykjanesbæjar lagði áherslu á á fundi með bæjarstjórn í gær. Forseti bæjarstjórnar tók sérstaklega fram hversu kraftmiklar ræður unga fólksins voru en þetta er í annað sinn sem ungmennaráðið fundar með bæjarstjórn á þessu ári.

Það er margt sem brennur á ungu fólki í dag og það vill hafa áhrif í sínu samfélagi. Þegar ungmennaráð Reykjanesbæjar, Ungir, var stofnað með samþykkt í bæjarstjórn 1. nóvember 2011 var hugmyndin bæði að þjálfa ungmenni í lýðræðislegum vinnubrögðum en ekki síður að vera bæjarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í bæjarfélaginu. Rúmlega 20 ungmenni, 18 ára og yngri skipa ráðið, allt fulltrúar skóla og félagsmiðstöðva í bænum.

Alls sex ungmenni tóku til máls á fundi ungmennaráðs með bæjarstjórn í gær og var aukin fræðsla í skólum meðal helstu áhersluþátta, fjölbreytt fræðsla t.d. er varðar fjármál ungs fólks. Þá bar sjálfstyrking á góma og þjálfun framkomu, sér í lagi hjá stúlkum.

Unga fólkið vildi líka hrósa fyrir það sem vel hefur verið gert og var bylting í húsnæðismálum og aðstöðu Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sérstaklega nefnd.

Samgöngur innan Reykjanesbæjar er alltaf klassískt umræðuefni og aðstæður í skólum í Reykjanesbæ, bæði námsaðstaða og húsbúnaður. Matarsóun og endurvinnsla var einnig rætt og auknar reykingar ungmenna, sem þykir áhyggjuefni.