Ungmennaráð fundaði með bæjarstjórn Reykjanesbæjar

Mynd af fundi ungmennaráðs og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
Mynd af fundi ungmennaráðs og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar

Þriðjudaginn 17. nóvember fór fram 19. fundur ungmennaráðs og bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Guðbrandur Einarsson forseti bæjarstjórnar setti fundinn og var fundurinn haldinn í gegnum fjarfundabúnaðinn Microsoft Teams.

Á fundinum héldu 9 ungmenni stutt erindi um málefni sem þau varða. Ungmennin sem héldu erindi voru þau Betsý Ásta Stefánsdóttir formaður Ungmennaráðs, Elmar Sveinn Einarsson, Leó Máni Nguyen, Helga Vigdís Thordersen, Esther Júlía Gustavsdóttir, Rúna Björg Sverrisdóttir, Filoreta Osmani, Kári Snær Halldórsson og Klaudia Kuleszewicz.

Erindin voru eins fjölbreytt og þau voru mörg en greinilegt var að mikill samhljómur var meðal ungmennanna. Erindin snerust aðallega um þrjár megináherslur en þau eru umhverfismál, öryggismál og bætt þjónusta.

Ungmennaráðið lagði til í umhverfismálum að bætt yrði verulega í fjölda ruslatunna í bænum og að sorpflokkun og endurvinnsla verði skoðuð betur og sett ofarlega í umhverfisstefnu bæjarins.

Ungmennaráðið talaði einnig um hvað öryggismál bæjarins væru þeim ofarlega í huga og vildu fá fleiri öryggismyndavélar og bætta lýsingu á skólalóðir, göngustíga og leikvelli bæjarins.

Hver einasti meðlimur byrjaði á því að hrósa bæjarstjórn fyrir sinn þátt í bættri þjónustu bæjarins við íbúa og nefndu þau til dæmis þá fjölmörgu göngustíga sem lagðir voru í vor og sumar.

Ungmennaráðið vildi einnig hrósa Félagsmiðstöðinni Fjörheimum fyrir sitt starf í þjónustu við ungmenni bæjarins og að geta boðið upp á fjölbreytt rafrænt starf á þessum krefjandi tímum. Að auki fékk Bókasafnið mikið og gott hrós fyrir þeirra framlag.

Bæjarstjórnin tók svo til máls eftir að hafa heyrt erindi ungmennaráðs og byrjaði fyrst á því að hrósa þeim fyrir mikla prúðmennsku og flott erindi.

Bæjarfulltrúar sögðu það ánægjulegt að samstarf milli ungmennaráðs og bæjarstjórnar væri svona gott og að það skipti gríðarlega miklu máli fyrir stjórnsýslu Reykjanesbæjar. Bæjarfulltrúar voru sammála um það að öll málin væru afar mikilvæg og að þau yrðu tekin lengra og skoðuð nánar.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri lauk fundinum á því að þakka Ungmennaráðinu kærlega fyrir góð erindi og mikla prúðmennsku. Hann vildi líka koma því á framfæri að mörg málanna væru komin langt á veg og Ungmennaráðið er ein af lykilstoðum stjórnsýslu bæjarins þegar kemur að því að bæta þjónustuna við bæjarbúa og þá sérstaklega við þau börn og ungmenni sem búa í Reykjanesbæ.