Ungmennaþing 2021

Ungmennaþing haldið vegna innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fulltrúar Ungmennaráðs Reykjanesbæjar og starfsmenn 88 hússins og Fjörheima stóðu fyrir vel heppnuðu ungmennaþingi þann 7. október sl. undir formerkjum verkefnisins Barnvænt sveitarfélag. Þingið var haldið í 88 húsinu og sóttu nemendur í 8. til 10. bekk frá öllum grunnskólum Reykjanesbæjar þingið og sköpuðust líflegar umræður.

Á þinginu var kallað eftir skoðunum ungmennanna á ýmsum málum er varða hag þeirra og annarra barna og ungmenna í sveitarfélaginu. Ungmennin voru m.a. spurð að því hvort allir fái jöfn tækifæri í skólanum, íþróttum og tómstundum, hvað þeim langar mest að læra í skólanum og hvort kennarar hvetji þau til að koma skoðunum sínum á framfæri. Þá voru þau spurð að því hvort það sé næg afþreying fyrir börn og ungmenni í bænum, hvað þeim finnst um umhverfið, samgöngumál og forvarnir svo eitthvað sé nefnt. Unnið hefur verið úr niðurstöðum þingsins og verða þær rýndar enn frekar af stýrihópi Barnvæns sveitarfélags og fulltrúum Ungmennaráðs út frá því hvað er vel gert, hvað má gera betur og hvaða breytingar börnin myndu vilja sjá. Niðurstöðurnar verða síðan notaðar til að móta aðgerðaráætlun fyrir sveitarfélagið. Einnig var efnt til hugmyndasöfnunar fyrir börn og ungmenni og aldrinum 11 til 18 ára áður en þingið var haldið þar sem þeim gafst kostur á að koma sínum hugmyndum og ábendingum á framfæri. Um 100 börn tóku þátt og voru niðurstöðurnar til frekari umræðu á þinginu.

Kíkið á þetta skemmtilega vídeo frá Ungmennaþingi í Reykjanesbæ 2021

Ungmennaþing 2021