Vatnsnesvegur 8 til langtímaleigu!

Vatnsnes
Vatnsnes

Um er að ræða staðsteypt hús byggt árið 1934, einangrað að innan og pússað að utan. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands er húsið skráð 268,5 fermetrar.

Bjarnfríður Sigurðardóttir, ekkja Jóhanns Guðnasonar, gaf Keflavíkurbæ húsið árið 1969 með sérstöku gjafabréfi með þeirri kvöð að húsið yrði nýtt fyrir minjasafn Keflavíkur og til varðveislu gamalla minja.  Bjarnfríður lést árið 1974 og tók Keflavíkurbær þá við húsinu, sjá umfjöllun hér neðar á síðunni. 

Áform eru uppi um endurskoðun skipulags á Vatnsnesi en þó þannig að þetta hús standi og lóðin verði óbreytt. Húsið þarfnast verulegra og kostnaðarsamra endurbóta, bæði að utan og innan. Gert er ráð fyrir að leigutaki, í samráði við Reykjanesbæ, sjái um að framkvæma endurbætur á húsinu sem uppfylla ströngustu kröfur og greiði þannig leiguna, að hluta eða öllu leyti.

Áhugasamir leigjendur eru hvattir til að kynna sér ástand hússins vel hér. Senda má fyrirspurnir á netfangið; Vatnsnesvegur8@reykjanesbaer.is. Hægt er að bóka skoðun með því að senda tölvupóst á sama netfang eða hafa samband við starfsmenn eignaumsýslu á Umhverfissviði Reykjanesbæjar. 

Húsið er leigt með þeirri kvöð að umráðaaðili tryggi varðveislu gamalla minja í húsinu, svo sem húsbúnaðar og mynda og ábyrgist að sett verði upp upplýsingaskilti þar sem fjallað er um sögu hússins og umhverfisins. Þá skal nafnið Vatnsnes tengt þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu. Loks skal umráðaaðili tryggja að húsið verði opið almenningi ef þess er óskað t.d. í tengslum við safnadaga, menningarhátíðir og þess háttar.

Tillögur að nýtingu hússins skulu sendar bæjarstjóra Reykjanesbæjar með rafrænum hætti á ofangreint netfang eigi síðar en 1. september 2020. Áskilinn er réttur til að hefja viðræður við einn eða fleiri aðila eða hafna öllum tillögum.

Vatnsnes - sagan

Um aldamótin 1900 bjuggu á Stóra-Vatnsnesi hjónin Guðni Jónsson (1852-1922) og Helga Vigfúsdóttir (1845-1929). Þau kynntust þegar þau voru bæði vinnufólk í Hrúðunesi í Leiru og giftust árið 1878. Þau fluttu á Stóra-Vatnsnes árið 1891 og bjuggu þar til dauðadags. Þau voru fædd í kringum miðja 19. öld, hún í Skagafirði en hann austur í Mýrdal. Saga þeirra er dæmigerð saga marga hér á landi sem freistuðu þess að lifa af því sem hafið gaf. Þar gat brugðið til beggja vona. Á þessum fyrstu búskaparárum hafa þau hjón treyst á sjávarafla sér til viðurværis og skipti þar miklu hversu fengsæll og farsæll Guðni var við fiskveiðarnar.

Guðni og Helga áttu aðeins eitt barn sem upp komst, Sigfús Jóhann, (1884-1946) en yfirleitt notaði hann bara seinna nafn sitt. Jóhann erfði dugnað og útsjónasemi foreldra sinna með ríkum hætti. Hann skaut mörgum stoðum undir heimili sitt á Vatnsnesi, stóð m.a. í jarðarbótum, setti á stofn og rak timburverslun og vélbátaútgerð. En Guðni, faðir hans, tók þátt í að kaupa fyrsta mótorbátinn til Keflavíkur í upphafi aldarinnar. Með tilkomu mótor-bátanna varð bylting í íslenskum sjávarútvegi sem kalla má í raun iðnbyltingu Íslands. Þéttbýlið dafnaði við strandlengjuna og lagði grunn að Íslandi nútímans. Keflavíkurhöfn er í landi Vatnsness og er hún fyrsta hafskipahöfn Suðurnesja. Þegar Óskar Halldórsson leitaði samþykkis fyrir þessa framkvæmd hjá bóndanum á Vatnsnesi þá kom hann ekki að tómum kofanum. Jóhann ásamt fleiri mönnum hafði byggt upp bryggju og aðstöðu til löndunar í Básnum sem er fyrir neðan íbúðarhúsið og Básvegur er kenndur við. Í básnum upp af bryggjunni voru byggðir beitningaskúrar og fiskverkunarhús.

Framsýni, dugnaður og vilji til verka einkenndi alla umsýslu þeirra feðga. En Guðni vissi að ekki var nóg að hafa ríkan vilja til verka það verður líka að vera fjárhagslega mögulegt. Þar var stofnun Sparisjóðs Keflavíkur afar mikilvæg en Guðni var einn af stofnendum hans.

Fólkið sem bjó í húsinu

Jóhann (1884-1946) giftist árið 1914 Bjarnfríði Sigurðardóttur (1889-1974), heimili þeirra var alla tíð á Vatnsnesi. Foreldrar Jóhanns bjuggu með þeim allt þar til þau létust á árunum 1922 og 1929. Skömmu eftir að þau létust var þetta glæsilega íbúðarhús byggt á árunum 1934-1936.

Jóhann lést í bílslysi árið 1946, Bjarnfríður giftist ekki aftur en hún lést árið 1974. Þeim varð ekki barna auðið en áttu tvær kjördætur, þær Kristínu Guðmundsdóttur (f. 1926) og Sigríði Jónsdóttur. (f. 1924) Sigríður var bróðurdóttir Bjarnfríðar en margir þekktu hana sem Siggu á Vatnsnesi. Fósturbörn voru Guðný Helga Þorsteinsdóttir (f. 1911) Falur Siggeir Guðmundsson (1910-1962) og Annilíus Björgvin Jónsson (1902- 1982). Á heimilinu var oft mannmargt.

Bjarnfríður ákvað að gefa Keflavíkurbæ íbúðarhúsið og lóðina í kringum það til að reka þar safn eftir hennar dag. Þessi höfðinglega gjöf varð upphafið að rekstri Byggðasafnsins sem stofnað var af sveitarfélögunum Keflavík og Njarðvík árið 1978. Safnið var svo opnað almenningi í húsinu árið 1979. Lengst af var Vatnsnes aðalstöðvar safnsins, þar voru skrifstofur þess, geymsla muna, ljósmynda og skjala auk þess sem sýningar voru á mið- og rishæð. Á þeim rúmu 30 árum sem safnið hefur starfað hefur það vaxið mjög og eru aðalstöðvar safnsins nú í Rammanum í Innri-Njarðvík. Í framtíðinni er ráðgert að búa húsið heimilishlutum frá miðri síðustu öld til að minnast þessa heimilis og heimilisfólksins en fjöldi fólks á minningar tengdar í húsinu.

Nú hafa nokkrir einstaklingar fengið inni í húsinu fyrir vinnustofur til að sinna listiðkun og handverki. Vinnustofurnar eru opnar almenningi t.d. á Ljósanótt og oftar sem er þá auglýst sérstaklega.