Veðurguðir í stuði á Ljósanótt

Veðurguðir í stuði á Ljósanótt - Það sama er að segja um gesti Ljósanætur að sögn Guðlaugar Maríu Lewis, verkefnastjóra hátíðarinnar, en mikill fjöldi fólks skemmti sér konunglega á þremur stórum viðburðum sem fluttir voru í skjól þegar ljóst var að stefndi í þennan hressilegan hausthvell.

Kjötsúpusviðið sem átti að vera staðsett við Ráðhús Reykjanesbæjar var fært inn í íþróttahús þar sem allir gátu notið bæði kraftmikillar íslenskrar kjötsúpu frá Skólamat og flottra tónleika þar sem m.a. Páll Óskar og Sigga og Grétar sáu um að halda gestum í stuði. Bakgarðstónleikarnir í Holtunum heima fluttu sína dagskrá í Stapa og þar voru hundruð saman komin sem skemmtu sér konunglega að sögn Guðlaugar með hljómsveitinni Hjálmum, Birni Jörundi og fleirum. Þá var Heimatónleikum, sem m.a. áttu að vera í húsagörðum einnig komið í skjól og var boðið upp á akstur á milli tónleikastaða og segir Guðlaug augljóst af miðlun á samfélagsmiðlum að gestir þar hafi ekki látið veður aftra sér í að hlusta á Mugison í Rokkheimum Rúna Júl eða Lay Low og KK í hlýjum og notalegum stofum á ýmsum heimilum í gamla bænum.

Á meðan á þessari dagskrá stóð skvettu veðurguðirnir hressilega úr klaufunum og segir Guðlaug að líklegast hafi þeir verið sármóðgaðir yfir því að hafa ekki verið boðið með inn og þess vegna reynt að láta til sín taka á hátíðarsvæðinu með því m.a. að hrista aðeins til tívolítæki sem þar var búið að koma fyrir en tjón hafi reynst óverulegt.

Hefðbundinn Ljósanæturlaugardagur

„Nú þegar þessi hvellur er fokinn hjá fer allt á fullt við að setja hátíðarsvæðið upp á nýjan leik og stefnt er að hefðbundinni laugardagsdagskrá með Árgangagöngu kl. 13:30, alls kyns sýningum, tónleikum, leiktækjum, matarvögnum og barnadagskrá.“ Í kvöld sé síðan boðið upp á stórtónleika á aðalsviði með glæsilegri dagskrá og flugeldasýningu. Guðlaug segist treysta á að veðurguðirnir hafi jafnað sig að mestu og verði samvinnuþýðari í dag og hvetur gesti til að klæða sig eftir veðri og fara af stað og njóta alls þess sem dagskráin býður upp á. Hún hvetur gesti þó jafnframt til að fylgjast með tilkynningum á vef Ljósanætur og Reykjanesbæjar ef einhverjar ófyrirséðar breytingar verði á þeim áformum.