Vel heppnuð barnahátíð

Áhugasamir gestir Barnahátíðar skoða furðufiska hjá Tómasi Knútssyni í Bláa hernum.
Áhugasamir gestir Barnahátíðar skoða furðufiska hjá Tómasi Knútssyni í Bláa hernum.

Barnahátíð í Reykjanesbæ lauk í gær og fór hún að mati skipuleggjenda vel fram.

Talið er að um 2.000 gestir hafi heimsótt Víkingaheima þar sem opnuð var húsdýrasýning sem hægt verður að heimsækja í allt sumar en að auki var boðið upp á víkingaleiki, skemmtun fyrir yngri börn og grillaðar pylsur. Alls tóku 200 börn þátt í sjóræningjaleik í Vatnaveröld en gestir þar á laugardeginum voru alls 500 og vakti sjóræninginn sem leikinn var af Björgvini Franz Gíslasyni mikla lukku. Það sama má segja um Svabba sjóara sem fór á kostum í Duushúsum og sjávardýrin hjá Tómasi Knútssyni í bláa hernum vöktu undrun og furðu ungra gesta.

Segja má að listahátíð barna hafi slegið í gegn í ár og er ennþá hægt að sjá sýninguna í Listasafni Reykjanesbæjar fram að helgi. það ætti enginn að láta hana fram hjá sér fara.

Allir viðburðir voru annars vel sóttir og má þar nefna dorgveiði, flugdrekagerð, listasmiðjur, ratleiki, ljósmyndasýningu barna, púttkeppni og hlaupakeppni svo eitthvað sé nefnt. Skessan í hellinum var í hátíðarskapi og bauð gestum og gangandi í lummuveislu en þar komu fram barnakórar auk þess sem sjá mátti vinkonu hennar Fjólu sem á orðið hug og hjarta barna í Reykjanesbæ líkt og skessan. Fjóla var víða á ferðinni m.a. á karnivali á Ásbrú og tók hún á móti gestum sem komu á barnaleikrit Leikfélags Keflavíkur í Frumleikhúsinu.

Allir sem tóku þátt í skipulögðum viðburðum fengu að launum þátttökupening og fyrirtæki og veitingahús buðu tilboð um allan bæ í tilefni af barnahátíð.

Söfn í Reykjanebæ sem og leik- og grunnskólar tóku virkan þátt í hátíðinni og það sama á segja um íþrótta, tómstunda- og menningarfélög og allir lögðu sitt af mörkunum svo barnahátíð í Reykjanesbæ gæti orðið að veruleika. Reykjanesbær þakkar öllum þeim sem tóku þátt og vonar að hátíðin hafi náð að skapa foreldrum og börnum fjölbreytt tækifæri til frjórrar og gefandi samveru og stuðlað þannig að fjölskylduvænum Reykjanesbæ.

Sjá má myndir frá barnahátíðinni á barnahatid.is en þar geta gestir jafnframt hlaðið inn sínum myndum.