Nemendur Holtaskóla ásamt Helgu Maríu Finnbjörnsdóttur, fulltrúa í stýrihópi verkefnisins, Maríu Gu…
Nemendur Holtaskóla ásamt Helgu Maríu Finnbjörnsdóttur, fulltrúa í stýrihópi verkefnisins, Maríu Gunnarsdóttur, forstöðumanni barnaverndar, Hirti Magna Sigurðssyni, verkefnastjóra barnvæns sveitarfélags og Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra.

Í nóvember síðastliðnum, fyrir hönd stýrihópsins, hafði verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags í Reykjanesbæ samband við stjórnendur grunnskólanna og bað þá um að hvetja umsjónarkennara á yngsta stigi til að fræða nemendur sína um Barnasáttmálann og vinna verkefni um sáttmálann. Lagt var upp með að börnin myndu vinna verkefni um réttindatré, en í því fólst að kynna réttindin í Barnasáttmálanum fyrir þeim og kanna hvaða réttindi skipta yngstu börnin í bænum máli. Markmiðið með verkefninu var og er að öll börn læri að þekkja réttindi sín.

Nemendur í tveimur skólum hafa lokið við að vinna verkefnið, annars vegar nemendur í 1. bekk í Akurskóla og hins vegar nemendur í 3. bekk í Holtaskóla. Á dögunum fóru nokkrir meðlimir stýrihópsins, ásamt Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra, og heimsóttu nemendur og kennara sem komu að verkefnunum. Sjá má afrakstur verkefnanna á myndum sem fylgja fréttinni.

Stýrihópur barnvæns sveitarfélags leggur áherslu á að öll börn fái fræðslu um Barnasáttmálann, en samkvæmt 42. gr. sáttmálans eiga allir að þekkja réttindi barna og gildir það ekki síður um börnin sjálf sem eiga rétt á því að fræðast um réttindi sín. Í 29. gr. sáttmálans er kveðið á um markmið menntunar en samkvæmt greininni á menntun meðal annars að hjálpa börnum að læra að rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni. Hún á að kenna þeim að þekkja réttindin sín og virða réttindi annarra, menningu þeirra og fjölbreytileika.

Stýrihópurinn vill nota tækifærið og þakka starfsfólki og nemendum skólanna kærlega fyrir hlýjar móttökur og fyrir að hafa tekið þátt í þessu skemmtilega verkefni. Vakin er athygli á vef barnasáttmálans en þar má nálgast mikið af fræðslu- og kennsluefni fyrir börn á öllum aldri. Einnig er þar að finna fræðsluefni fyrir fullorðna og aðra áhugasama sem vilja fræðast um Barnasáttmálann, sögu hans og gildi.

Leggjumst öll á eitt og gerum börnin okkar að sérfræðingum í réttindum sínum.

Hópmynd í Akurskóla

Hópmynd við réttindatréð í Akurskóla

Réttindatré í Akurskóla

Réttindatré við Akurskóla

Virðing fyrir skoðunum annarra

Virðing fyrir skoðunum annarra

Réttindatré sem nemendur í Holtaskóla gerðu

Réttindatré sem nemendur í Holtaskóla gerðu

Réttindatré

Réttindatré sem nemendur í Holtaskóla bjuggu til