Víkingaheimar sækja enn í sig veðrið

Frá Vikingaheimum.
Frá Vikingaheimum.

Víkingaheimar í Reykjanesbæ skipa sífellt stærra hlutverk í ferðaþjónustu á Suðurnesjum. Frá því að þeir voru opnaðir árið 2009 hefur gestum fjölgað jafnt og þétt og frá árinu 2011 hefur þeim fjölgað um 145% og voru komnir upp í tæplega 21.000 í fyrra. Af þeim hópi voru erlendir gestir fjölmennastir eða tæplega 14.000.  Árið 2011 voru allar sýningar yfirfarnar og þeim fjölgað og síðan þá hefur orðið sprenging í aðsóknartölum.

Fyrirtækið Rannsókn og ráðgjöf í ferðaþjónustu hefur gert kannanir á meðal gesta um ýmsa þætti er varða heimsókn í Víkingaheima m.a. um ástæður heimsóknar, hvaðan upplýsingar um staðinn voru fengnar og upplifun. Að sögn Valgerðar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Víkingaheima, kemur í ljós að flestir koma í heimsókn vegna áhuga á sögu Víkinganna, víkingaskipinu Íslendingi eða almenns söguáhuga. Valgerður segir því einkar ánægjulegt að komast að því að þessir sömu gestir gefa skipinu Íslendingi topp einkunn í mati sínu, að meðaltali einkunnina 9,6  -9,7 af 10 mögulegum. Þar að auki eru þeir mjög hrifnir af byggingu Víkingaheima, andrúmslofti og öðrum sýningunum í húsinu en þær eru 5 talsins og tengjast víkingaöld með einum eða öðrum hætti m.a. í gegnum norræna goðafræði og fornminjar af Suðurnesjum frá tíð víkinga.

það er fróðlegt að ríflega 70% þátttakenda í könnuninni voru búnir að afla sér upplýsinga um Víkingaheima fyrir heimsóknina þangað úr ferðahandbókum, af internetinu eða úr bæklingum. Valgerður segir árið 2014 gefa góð fyrirheit um frekari aukningu gesta og bindur vonir við að ný vefsíða, vikingaheimar.is, og jákvæð umfjöllun víða m.a. í ferðahandbók Lonely Planet verði á meðal þess sem styðji við áframhaldandi sókn Víkingaheima.