Viltu láta gott af þér leiða? Viltu vera liðveitandi?

Inga Dóra og Vilborg ráðgjafar hjá Velferðarsviði vekja hér athygli á liðveislu og hversu mikil ávi…
Inga Dóra og Vilborg ráðgjafar hjá Velferðarsviði vekja hér athygli á liðveislu og hversu mikil ávinngur hún er bæði fyrir veitanda og þiggjanda.

Liðveisla er úrræði sem sveitarfélögin veita fólki á öllum aldri sem þarf persónulegan stuðning vegna ýmissa ástæðna.  Markmið liðveislu er að rjúfa félaglega einangrun einstaklings og efla sjálfstæði í félagslegum samskiptum. Liðveisla getur haft mikil áhrif í lífi þess sem þiggur hana. Bíóferð og ísrúntur er t.d. eitthvað sem mörgum þykir sjálfsagt. Í lífi einstaklings sem er félagslega einangraður getur þessi ísrúntur hins vegar skipt sköpum í andlegri líðan.

Að vera liðveitandi gefur mikið af sér fyrir utan útborguð laun. Liðveitendur fá reynslu í samskiptum við fólk með fatlanir, með geðvanda og félagslega einangrun. Sú reynsla nýtist í námi og í lífinu sjálfu. Nemar í FS geta fengið einingar fyrir starf í liðveislu. Mörg dæmi eru um fagfólk, félagsráðgjafa, sálfræðinga o.f.l sem byrjuðu sem liðveitendur og tala margir um hvað sú reynsla nýtist enn í starfi.

Hjá okkur í Reykjanesbæ eru margir einstaklingar á biðlista vegna skorts á liðveitendum. Það er trú okkar að þarna úti sé fólk sem vill láta gott af sér leiða. Því finnst okkur mikilvægt að fólk viti að liðveisla er skemmtilegt, áhugavert, gefandi og fjölbreytt starf. Vinnutíminn er sveigjanlegur og er um 8 klst á mánuði, þess vegna er auðvelt að sinna þessu starfi bæði með öðru starfi og skóla.

Ef þetta er eitthvað sem þig langar til að gera hvetjum við þig til að taka skrefið og sækja um starf liðveitanda á reykjanesbaer.is. Sjálfsagt er að hafa samband við okkur ef spurningar vakna upp í síma 421-6700.

Hlökkum til að sjá þig.

Inga Dóra Jónsdóttir félagsráðgjafi
Vilborg Pétursdóttir ráðgjafi
Velferðarsvið Reykjanesbæjar