Yfir 100 sýnendur og viðburðir á Ljósanótt

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ kast…
Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ kasta á milli sín bolta líkt og gert verður á setningarathöfn Ljósanætur í ár.

Fulltrúar þriggja stærstu stuðningsaðila Ljósanætur og bæjarstjóri Reykjanesbæjar undirrituðu samninga í skrúðgarðinum í Keflavík í morgun, en skrúðgarðurinn mun spila stærra hlutverk í setningu Ljósanætur í ár sem og undirstaðan sem notuð var við undirskriftina, risabolti.

Ljósanótt er ein af stærri bæjarhátíðum landsins og fer nú fram í 17. sinn dagana 1.-4. september n.k.  Í sumar var sent út bréf til fjölda fyrirtækja á svæðinu og leitað eftir fjárhagslegum stuðningi við framkvæmd hátíðarinnar og í morgun skrifaði bæjarstjórinn Kjartan Már Kjartansson undir samninga við fjóra stærstu styrktaraðilana en þeir eru Landsbankinn sem er helsti styrktaraðili Ljósanætur, Nettó sem styrkir dagskrá föstudagskvöldsins og barnadagskrána, Skólamatur sem gefur kjötsúpuna á föstudagskvöldinu og HS Orka sem lýsir upp Ljósanótt með því að fjármagna flugeldasýninguna. 

Samninginn undirrituðu Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Jóhann Snorri Sigurbergsson forstöðumaður viðskiptaþróunar HS Orku, Falur Harðarson starfsmannastjóri Samkaupa og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans í Reykjanesbæ. Fulltrúi frá Skólamat var vant við látinn.

Bæjarstjóri þakkaði fulltrúum þessara fyrirtækja sitt framlag og jafnframt hvatti hann þau fyrirtæki sem enn hafa ekki svarað bréfinu, að senda nú inn sem fyrst,  jákvæð svör og taka þannig þátt í að halda Ljósanótt sem einni bestu menningar- og fjölskylduhátíð landsins. Í máli Valgerðar Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Ljósanætur kom fram að nú þegar eru hafa rúmlega 100 viðburðir verið skráðir á vef Ljósanætur, http://ljosanott.is. Af þeim eru um 50 list- og handverkssýningar með yfir 100 sýnendum og rúmlega 60 aðrir viðburðir.

Undirbúningur hátíðarinnar er nú í fullum gangi og eru það starfmenn Reykjanesbæjar sem stýra framkvæmd hennar en við hlið þeirra starfar fjöldi öflugra samstarfsaðila og voru nokkrir þeirra mættir við þetta tilefni m.a. fulltrúar eftirfarandi hópa; Með blik í  auga, Menningarfélag Keflavíkur, Menningarfélagið í Höfnum, Karfan, Björgunarsveitin Suðurnes, Slysavarnardeildin Dagbjörg, Lögreglan og Brunavarnir Suðurnesja. 

Dagskrá Ljósanætur í heild má finna á vef Ljósanætur.