304. fundur

22.01.2026 16:00

Fundargerð 304. fundar atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar haldinn á skrifstofu Reykjaneshafnar að Víkurbraut 11 22. janúar 2026 kl. 16:00

Viðstaddir: Hjörtur Magnús Guðbjartsson formaður, Alexander Ragnarsson, Kristján Jóhannsson, Sigurður Guðjónsson og Jón Már Sverrisson.

Að auki sat fundinn Halldór Karl Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs.

1. Ársreikningur Reykjaneshafnar 2025 (2026010368)

Farið var yfir stöðu endurskoðunar á ársreikningi Reykjaneshafnar vegna ársins 2025.

2. Starfsáætlun atvinnu- og hafnarsviðs 2026 (2025120113)

Farið var yfir drög að starfsáætlun atvinnu- og hafnarsviðs fyrir árið 2026.

Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrirliggjandi starfsáætlun.

Fylgigögn:

Starfsáætlun atvinnu- og hafnarsviðs 2026

3. Njarðvíkurhöfn – brimvarnargarður (2023080391)

Undirritaður verksamningur milli Reykjaneshafnar og Íslenskra aðalverktaka hf. um verkið „Njarðvíkurhöfn Suðursvæði, Brimvarnargarður 2025“ lagður fram.

4. Njarðvíkurhöfn - skipulag (2025110300)

Tölvupóstur dags. 9. janúar 2025 frá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar þar sem fram kemur að ráðið heimilar Reykjaneshöfn að gera breytingar á skipulagi við Njarðvíkurhöfn.

5. Helguvíkurhöfn - Suðurbakki (2024040273)

Tölvupóstur dags. 9. janúar 2025 frá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar þar sem fram kemur að ráðið heimilar Reykjaneshöfn að gera breytingar á skipulagi við Helguvíkurhöfn.

6. Starfsmannamál Reykjaneshafnar (2025050171)

Skýrslan „Reykjaneshöfn, útfærsla á nýju vaktakerfi“ sem PwC fyrirtækjaráðgjöf vann fyrir Reykjaneshöfn lögð fram. Einnig var farið yfir stöðuna í starfsmannamálum Reykjaneshafnar, en einn starfsmanna hafnarinnar hefur verið frá vegna veikinda.

Atvinnu- og hafnarráð samþykkir að auglýst verði eftir starfsmanni tímabundið til starfa hjá Reykjaneshöfn frá 1. mars nk. til sex mánaða með möguleika á áframhaldandi ráðningu að því loknu og felur Halldóri K. Hermannssyni, sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs, að vinna málið áfram.

7. Samstarfsnefnd atvinnu- og hafnarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs (2025010264)

Fundargerð 24. fundar samráðsnefndar um þróun hafnarsvæða frá 16. desember 2025 lögð fram.

8. Atvinnuverkefni (2025120109)

Farið var yfir þau atvinnuverkefni sem komið hafa á borð atvinnu- og hafnarráðs frá því að það tók til starfa 1. janúar 2023 við breytta stjórnskipan hjá Reykjanesbæ.

Atvinnuverkefni á borði atvinnu- og hafnarráðs hafa verið af ýmsum toga og reynst misjafnlega raunsæ. Sum þessara verkefna eru komin á fullt í uppbyggingu meðan önnur eru skemur á veg komin. Atvinnu- og hafnarráð bendir á að þegar um stærri verkefni er að ræða tekur uppbyggingin nokkur ár, en dæmi um slík verkefni eru fiskeldi úti á Reykjanesi og jarðefnavinnsla í Helguvík. Viðkomandi verkefni skapa t.d. um á annað hundrað bein og óbein störf í fullum rekstri og mun fleiri á uppbyggingartíma. Önnur verkefni sem eru í vinnslu margfalda þennan starfafjölda á næstu 3-5 árum ef þau verða að veruleika. Grunnurinn að þessari uppbyggingu eru þeir innviðir sem eru á svæðinu, s.s. vinnuafl, félagslegar aðstæður og framboð atvinnulóða, auk þess að landfræðileg staðsetning henti mjög vel. Atvinnu- og hafnarráð telur að eitt af lykilatriðum í atvinnuuppbyggingu framtíðarinnar liggi í slíkum þáttum og því þurfi að huga vel að þeim.

9. Reykjaneshöfn – framtíðarsýn 2026-2035 (2025080301)

Farið yfir drög að framtíðarsýn Reykjaneshafnar til 2035.

10. Samgönguáætlun 2026-2040 (2025120114)

Bókun atvinnu- og hafnarráðs á 303. fundi ráðsins þann 11. desember sl. um þingsályktun til samgönguáætlunar fyrir árin 2026-2040 var send þingmönnum Suðurkjördæmis og nefndarmönnum í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis með ósk um að viðkomandi tækju tillit til þess sem þar kom fram. Viðbrögð bárust frá fimm þingmönnum Suðurlands af tíu og fjórum nefndarmönnum af níu í umhverfis- og samgöngunefnd. Viðkomandi þingmenn voru fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka af sex sem eru á Alþingi.

11. K64 - hringrásariðngarður (2026010369)

Tölvupóstur dags. 5. janúar 2026 frá KADECO þar sem óskað er eftir samstarfi við Reykjaneshöfn á grundvelli fyrirliggjandi erindisbréfs um uppbyggingu í hringrásariðngarði við Helguvíkurhöfn.

Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrir hönd Reykjaneshafnar að taka þátt í samstarfinu á grundvelli erindisbréfsins og felur Halldóri K. Hermannssyni, sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs, að undirrita það. Jafnframt tilnefnir atvinnu- og hafnarráð sem fulltrúa Reykjaneshafnar í samstarfinu formann og sviðsstjóra atvinnu- og hafnarráðs.

12. Aalborg Portland Ísland ehf. – samkomulag (2026010370)

Lögð fram drög að samkomulagi milli Reykjaneshafnar og Aalborg Portland Ísland ehf. varðandi fyrirkomulag á greiðslu vörugjalda á innfluttu sementi um Helguvíkurhöfn árið 2026.

Atvinnu- og hafnarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að samkomulagi og felur Halldóri K. Hermannssyni, sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs, að undirrita það.

13. Cruise Iceland (2025040125)

Yfirlit frá Cruise Iceland um skipakomur og hafnartekjur skemmtiferðaskipa árið 2025 ásamt upplýsingum um bókunarstöðu slíkra skipa 2024-2028 lögð fram.

Fylgigögn:

Bókunarstaða skemmtiferðaskipa á Íslandi 2024-2028

Skipakomur og hafnartekjur 2025

14. Hafnasamband Íslands – fundargerðir stjórnar (2025020388)

Fundargerðir 476., 477. og 478. funda stjórnar Hafnasambands Íslands frá 22. október, 18. nóvember og 3. desember 2025 lagðar fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 476. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands 22 október 2025

Fundargerð 477. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands 18. nóvember 2025

Fundargerð 478. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands 3. desember 2025

15. Hafnasamband Íslands – Framtíðin og íslenskar hafnir (2026010372)

Skýrslan „Framtíðin og íslenskar hafnir“ sem unnin var fyrir Hafnasamband Íslands af Íslenska sjávarklasanum lögð fram.

Fylgigögn:

Framtíðin og íslenskar hafnir

16. Atvinnustefna fyrir Suðurnes – drög til umsagnar (2026010374)

Tölvupóstur dags. 19. janúar 2026 frá bæjarstjóra Reykjanesbæjar f.h. bæjarráðs þar sem óskað er umsagnar um drög að atvinnustefnu fyrir Suðurnes sem unnin var af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Atvinnu- og hafnarráð lagði fram atvinnustefnu fyrir Reykjanesbæ sem samþykkt var á 701. fundi bæjarstjórnar þann 19. ágúst 2025. Sú stefna mótar nú þá umgjörð sem unnið er eftir innan sveitarfélagsins er varðar atvinnumál og uppbyggingu þeirra.

Atvinnu- og hafnarráð telur því ekki rétt að veita umsögn um drög að atvinnustefnu fyrir Suðurnes þar sem ráðið sér ekki að hún muni hafa sérstakt gildi fyrir Reykjanesbæ enda er Atvinnustefna Reykjanesbæjar 2025-2035 þegar til staðar.

Atvinnu- og hafnarráð felur Halldóri K. Hermannssyni sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs að koma ofangreindu á framfæri við bæjarráð.

17. Upplýsingagjöf sviðsstjóra (2026010379)

Halldór K. Hermannsson, sviðsstjóri atvinnu- og hafnarsviðs, fór yfir stöðu ýmissa mála er varða starfsemi sviðsins.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:45. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 3. febrúar 2026.