1267. fundur

30.04.2020 08:00

1267. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 30. apríl 2020, kl. 08:00

Viðstaddir:Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Ný fráveituhreinsistöð (2020021108)

Á fundinn mættu Reynir Sævarsson, verkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu og Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og kynntu mögulegan marksamning vegna hönnunar nýrrar hreinsistöðvar.

2. Nýtt hjúkrunarheimili (2019050812)

Á fundinn mættu Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Sjómannadagsráðs og Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs og kynntu svokallaða Sléttuvegsleið við uppbyggingu hjúkrunarheimilis.

3. Viðbrögð við efnahagslegum áhrifum/auknu atvinnuleysi vegna Covid 19 (2020040083)

Á fundinn mættu Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar, Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri viðskiptaþróunar og Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs og gerðu grein fyrir stöðu mála í viðleitni sveitarfélagsins til að skapa ný og fleiri störf.

Margrét Þórarinsdóttir (M) lagði fram eftirfarandi þrjár bókanir:

„Nauðsynlegt er að greina strax yfirvofandi atvinnuleysi námsmanna 18 ára og eldri í bæjarfélaginu, sem sýnilega eiga enga möguleika á sumarstarfi vegna Covid 19 veirufaraldursins. Upplýsa ber Félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun um stöðuna og sækja fjármagn til ríkisins samkvæmt úrræði ríkisstjórnarinnar eins og kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga. sbr. hér að neðan:
Í frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 26/2020, aðgerð 30.10 um vinnumál og atvinnuleysi kemur fram að lagt er til að fjárheimild málaflokksins hækki um samtals 4.200 m.kr. og skýrist það af tveimur tilefnum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 2.200 m.kr. til sérstaks átaks til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn 18 ára og eldri á komandi sumri sem eiga engan eða takmarkaðan rétt til atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun og félagsmálaráðuneytið munu stýra átakinu sem efnt er til í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hefur samþykkt að veita styrki úr sjóðnum sem nema að hámarki grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta fyrir hvern einstakling auk 11% iðgjalds í lífeyrissjóð. Fyrir hvern einstakling greiðir Vinnumálastofnun til sveitarfélags eða opinberrar stofnunar rúmar 316 þús.kr. fyrir hvern mánuð. Stofnun eða sveitarfélag verður að tryggja að öllum starfsmönnum verði greidd laun samkvæmt kjarasamningum. Félagsmálaráðuneytið og Vinnumálastofnun munu hvetja stofnanir ríkisins og sveitarfélög til að hefja undirbúning þessa átaks og móta störf og verkefni sem fallið geta að því. Vonir standa til að með átakinu verði til 3.000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn hjá opinberum stofnunum og sveitarfélögum. Búast má við að fjölbreytt sumarstörf bjóðist við umönnun, rannsóknir og frágangsverkefni af ýmsu tagi en jafnframt að stór hluti starfanna verði á sviði umhverfisverndar“.

„Reykjanesbær geri greiningu á aðgengismálum fatlaðra í bæjarfélaginu og skal sviðsstjóri koma með tillögur um endurbætur, sem hægt er að ráðast í hið fyrsta. Sviðsstjóri skili skýrslu fyrir næsta bæjarráðsfund. Sótt verði um styrk til fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs til verkefnanna“.

„Reykjanesbær stendur frammi fyrir miklum samdrætti í tekjum vegna Covid 19 veirufaraldursins og að sama skapi munu útgjöld aukast. Nauðsynlegt er að ráðast í hagræðingu vegna þessa. Kostnaður stjórnsýslu bæjarins hefur vaxið mikið á skömmum tíma. Nauðsynlegt er að lækka laun æðstu embættismanna“.

Margrét Þórarinsdóttir (M)

4. Mælaborð bæjarráðs (2020040368)

Á fundinn mættu Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri og Helga María Finnbjörnsdóttir og kynntu hugmynd að mælaborði bæjarráðs sem lagt yrði fyrir bæjarráð á síðasta fundi í hverjum mánuði.

5. Viðbrögð Reykjanesbæjar vegna COVID-19 (2020030360)

Lagt fram yfirlit yfir umsóknir um frestun fasteignagjalda.

6. Rammasamningar Ríkiskaupa (2020040330)

Lagt fram minnisblað sem felur í sér tillögu um að Reykjanesbær falli frá „iðnaðarmannahluta“ samstarfsins við Ríkiskaup. 

Bæjarráð samþykkir tillöguna tímabundið.

7. Beiðni fræðslusviðs um færslur fjárheimilda 2020 á milli deilda (2019070112)

Fræðslusvið óskar eftir færslu fjárheimilda af lyklum 04-010 yfir á lykla grunnskóla. Um er að ræða fjármagn vegna námsgagna annars vegar og tækjakaupa hins vegar.

Bæjarráð samþykkir erindið.

8. Suðurnesjalína 2 (2019050744)

Á fundinn mætti Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi og fór yfir úrskurð Skipulagsstofnunar vegna Suðurnesjalínu 2.

Bæjarstjóra falið að vinna áfram í málinu, Margrét Sanders situr hjá.

Fylgigögn:

Álit um mat á umhverfisáhrifum

9. Ársskýrslur (2020040070)

Lagðar fram ársskýrslur bæjarstjóra, fjármálaskrifstofu, Reykjaneshafnar, skrifstofu stjórnsýslu, Súlunnar, fræðslusviðs, umhverfissviðs og velferðarsviðs.

Bæjarráð þakkar framkomnar ársskýrslur og hrósar starfsmönnum fyrir greinargóðar upplýsingar.

Fylgigögn:

Ársskýrsla bæjarstjóra
Ársskýrsla Reykjaneshafnar
Ársskýrsla Fjármálaskrifstofu
Ársskýrsla Skrifstofu stjórnsýslu
Ársskýrsla Súlunnar
Ársskýrsla Fræðslusviðs
Ársskýrsla Umhverfissviðs
Ársskýrsla Velferðarsviðs

10. Tilnefning í Stjórn Félags landeigenda Ytri- Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi (2020040369)

Bæjarráð samþykkir að tilnefna Unnar Stein Bjarndal bæjarlögmann sem fulltrúa Reykjanesbæjar í stjórn Félags landeigenda Ytri – Njarðvíkurhverfis með Vatnsnesi.

11. Fundargerðir neyðarstjórnar (2020030192)

Fundargerðir neyðarstjórnar eru aðgengilegar á vef Reykjanesbæjar.

Með því að smella á þennan tengil opnast fundargerðir neyðarstjórnar   

12. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 24. apríl 2020 (2020021082)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 881. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

13. Umsagnarmál frá nefndasviði Alþingis (2020010375)

Frumvarp til laga um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025, 643. mál.

Með því að smella á þennan tengil opnast frumvarpið   


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. maí 2020.