- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Viðstaddir: Bjarni Páll Tryggvason, Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét A. Sanders og Margrét Þórarinsdóttir.
Að auki sátu fundinn Valgerður Björk Pálsdóttir áheyrnarfulltrúi og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs mætti á fundinn og kynnti breytingar sem varða rekstur þjónustureknu leikskólanna Akur og Völl í Reykjanesbæ sem Hjallastefnan ehf. hefur séð um rekstur á og hefur nú sagt upp samningi varðandi rekstur þeirra.
Bæjarráð þakkar Hjallastefnunni fyrir gott samstarf og fagnar að búið sé að tryggja áframhaldandi rekstur leikskólanna.
Lagt fram bréf frá kærunefnd útboðsmála í máli nr. 17/2025.
Lögð fram drög að erindisbréfi Almannavarnarnefndar Suðurnesja utan Grindavíkur.
Bæjarráð samþykkir framlögð drög 5-0.
Lagt fram erindi frá Félagi atvinnurekenda þar sem hvatt er til að lækka álagningarprósentu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.
Bæjarráð þakkar fyrir hvatninguna.
Lögð fram bókun minnihluta bæjarráðs:
„Erindi Félags atvinnurekenda varpar ljósi á alvarlega þróun í fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði, sem hefur þegar leitt til verulegrar aukningar á skattbyrði fyrirtækja. Þessi þróun, þar sem skattlagning byggir fyrst og fremst á síhækkandi fasteignamati en ekki raunverulegri afkomu fyrirtækja, er bæði ósanngjörn, skaðleg og ekki síst fyrir minni og meðalstór fyrirtæki. Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót taka undir áhyggjur þeirra og telur að sama eigi við um íbúðarhúsnæði þar sem fasteignamat hefur hækkað mikið og fasteignaskattar því stóraukist.
Í Reykjanesbæ eru fjölmörg slík fyrirtæki burðarás atvinnulífsins og mikilvægar stoðir samfélagsins. Án aðgengilegs atvinnuhúsnæðis og hóflegra rekstrarskilyrða eru tækifæri til uppbyggingar, nýsköpunar og atvinnusköpunar í hættu. Það er því algjörlega óásættanlegt að sveitarfélagið horfi aðgerðalaust upp á þessa þróun.
Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn lýsi yfir þungum áhyggjum af þeirri stefnu að halda fasteignasköttum óbreyttum eða hækkuðum þrátt fyrir sífellt hækkandi mat og krefst þess að meirihlutinn, Samfylkingin, Framsókn og Bein leið endurskoði álagningarhlutföll fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði með það að markmiði að létta byrðar og efla atvinnulíf.
Jafnframt leggur Umbót og Sjálfstæðisflokkurinn til að Reykjanesbær sýni frumkvæði og leiti samstarfs við önnur sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga um nauðsynlegar kerfisbreytingar sem feli í sér meiri stöðugleika, fyrirsjáanleika og réttlæti í skattlagningu fasteigna. Við verðum að bregðast við af ábyrgð gagnvart íbúum, rekstraraðilum og framtíð bæjarins.“
Margrét Þórarinsdóttir Umbót og Margrét A. Sanders Sjálfstæðisflokki.
Lögð fram bókun meirihluta bæjarráðs:
„Meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar vill árétta það að skoðun á hækkun á fasteignamati ársins er í vinnslu. Verið er að skoða hvort og þá hvernig Reykjanesbær getur lækkað álagningu fasteignaskatts. Hækkun á fasteignamati undanfarin ár eru aðallega tilkomin vegna mikillar hækkunar á virði fasteigna. Reykjanesbær líkt og önnur sveitarfélög hafa enga aðkomu að árlegri hækkun álagningarinnar.
Það er einnig verðugt að taka fram að við lækkun á álagningu þá lækkar að sama skapi viðmið okkar gagnvart Jöfnunarsjóði sem er einn af þremur tekjustofnum sveitarfélagsins. Við lækkun á fasteignamati verður einnig minna af tekjum í verðug verkefni eins og innviðauppbyggingu innan sveitarfélagsins.
Meirihlutinn tekur þó undir áhyggjur íbúa á hækkun matsins milli ára en þessi rýning með mögulegum sviðsmyndum verður tekin inn í vinnu okkar við fjárhagsáætlun síðar í haust.“
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason Framsóknarflokki og Guðný Birna Guðmundsdóttir Samfylkingu.
Lagt fram til kynningar samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um ábyrgð á rekstri og kostnaði vegna búsetu barna með fjölþættan vanda sem vistuð eru utan heimilis.
Bæjarráð fagnar þessum breytingum.
Fylgigögn:
Bréf til sveitarfélaga -Samkomulag Fjölþættur vandi
Samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga vegna barna með fjölþættan vanda
Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um rekstur gististaðar í flokki II-B. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagna.
Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um rekstur gististaðar í flokki II-B. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti miðað við gestafjölda 18 manns eins og kemur fram í umsögn Brunavarna Suðurnesja.
Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um leyfi til að reka veitingastað í flokki II-C. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagna.
Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um leyfi til að reka veitingastað í flokki A. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagna.
Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um leyfi til að reka veitingastað í flokki A og C. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagna.
Erindi Sýslumannsins á Suðurnesjum vegna umsóknar um leyfi til að reka veitingastað í flokki A og C. Lagðar fram umsagnir byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, Brunavarna Suðurnesja og Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Bæjarráð samþykkir umsóknina fyrir sitt leyti með vísan til fyrirliggjandi umsagna.
Fundargerð lýðheilsuráðs lögð fram til samþykktar.
Fundargerðin samþykkt 5-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 59. fundar lýðheilsuráðs 16. júní 2025
Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs lögð fram til samþykktar.
Lögð fram bókun meirihluta bæjarráðs vegna máls fimm, Ályktun 29. ársþings Íþróttabandalags Reykjanesbæjar 2025 (2025060167) og sjötta máls, Fjárhagsáætlun íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsumála (2025060203) frá fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 19. júní 2025:
„Á nýliðnum fundi íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar tók ráðið fram mikilvægi þess að hækka þjálfarastyrki til íþróttafélaganna vegna verulegrar fjölgunar iðkenda ásamt því að mikilvægt væri að styðja við fagmennsku og rekstrarlegan stöðugleika innan íþróttahreyfingarinnar.
Að sama skapi lagði ráðið ríka áherslu á að fjárhagsrammi málaflokksins verði aukinn. Fjárhagsrammi íþrótta- og tómstundamála er á árinu alls 2,2 milljarðar.
Meirihluti bæjarráðs þakkar fyrir áherslur íþrótta- og tómstundaráðs og mun taka þessar áskoranir, ásamt öðrum í vinnslu í haust fyrir fjárhagsáætlun næsta árs. Markmið okkar sveitarfélags snúa að því að setja börnin okkar í fyrsta sæti en íþróttir eru ómetanlegur þáttur í uppeldi barna og ungmenna í sveitarfélaginu.“
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason Framsóknarflokki og Guðný Birna Guðmundsdóttir Samfylkingu.
Lögð fram bókun minnihluta bæjarráðs vegna máls sex, Fjárhagsáætlun íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsumála (2025060203) frá fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 19. júní 2025:
„Sjálfstæðisflokkur og Umbót taka undir bókun íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsumála 2026 þar sem lögð er rík áhersla á að fjárhagsrammi málaflokksins verði aukinn og hvatt til að leitast verði við að nálgast meðaltal þess fjármagns sem sambærileg sveitarfélög verja til íþrótta- og tómstundamála. Þetta er í samræmi við baráttu Sjálfstæðisflokksins og Umbótar í síðustu kosningum.“
Margrét Sanders Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót.
Fundargerðin samþykkt 5-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 195. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 19. júní 2025
Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs til samþykktar. Eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 20. júní tekin fyrir til sérstakrar samþykktar.
Fjórða mál fundargerðarinnar, Svæðisskipulag Suðurnesja 2024-2040 - umsögn (2019070283) samþykkt 5-0 án umræðu.
Fimmta mál fundargerðarinnar, Deiliskipulagstillaga - Vatnsnes - Hrannargata 2-4 (2019100209) samþykkt 5-0 án umræðu.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 5-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 366. fundar umhverfis- og skipulagsráðs 20. júní 2025
Lögð fram til kynningar fundargerð svæðisskipulagsnefndar Suðurnesja.
Fylgigögn:
54. fundur Svæðisskipulags Suðurnesja 12. júní 2025
Lagðar fram til kynningar fundargerðir stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fylgigögn:
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 981
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 982
Regína F. Guðmundsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og Þorgeir Sæmundsson deildarstjóri reikningshalds mættu á fundinn
Lögð fram samþykkt um fjárhagsáætlunarferli Reykjanesbæjar.
Samþykkt 5-0.
Regína F. Guðmundsdóttir sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs og Þorgeir Sæmundsson deildarstjóri reikningshalds mættu á fundinn.
„Bæjarráð og starfandi bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með á fundi þann 26. júní 2025 að óska eftir skammtímafjármögnun að höfuðstól allt að kr. 500.000.000,-, með lokagjalddaga þann 31. desember 2025.
Lántakan er ætluð til að brúa tímabil á meðan langtímafjármögnun sveitarfélagsins stendur yfir sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi nr. 696 sem haldinn var 15. apríl, 2025.
Jafnframt er Regínu Fannýju Guðmundsdóttur, kt. (ekki birt), fjármálastjóra og prókúruhafa, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. sveitarfélagsins að undirrita lánaskjöl sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.“
Bjarni Páll Tryggvason (B), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S) Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Margrét A. Sanders (D) og Margrét Þórarinsdóttir (U).
Bókun meirihluta bæjarráðs:
„Undanfarna daga hefur Reykjanesbær verið áberandi í umfjöllun eins fjölmiðils þar sem fjallað hefur verið einhliða um stöðu verkefna, stöðu fjárhags og meirihluta bæjarstjórnar.
Skoðanaskipti eru sjálfsögð enda tjáningarfrelsi í landinu okkar. Þó verðum við að bregðast við þegar umfjöllun frá einum fjölmiðli snýr að því að dæla út neikvæðum fréttum um bæinn okkar á hverjum degi, þá er ekkert annað í stöðunni en að árétta um stöðuna, eins og hún raunverulega er.
Reykjanesbær er ekki í fjárhagserfiðleikum. Vegna mikilla framkvæmda undanfarin ár og fjölda verkefna sem við erum að klára á sama árinu, erum við að taka lán fyrir framkvæmdum, líkt og fjöldinn allur af sveitarfélögum gerir á ári hverju. Reykjanesbær mun klára þessi stóru mikilvægu verkefni sem hafa beðið vegna slæmrar fjárhagsstöðu bæjarins á árum áður. Við skulum ekki gleyma því að það er flókið mál að endurreisa stórt sveitarfélag eftir nær gjaldþrot. Það tekur tíma.
Við höfum verið mjög ábyrg í rekstri undanfarin ár og náð að safna í sjóði og lifað á eigin fé í allnokkur ár. Allir hljóta þó að sjá þegar að sveitarfélag er í gríðarlegum vexti árlega, þá kallar það á uppbyggingu innviða. Við því erum við að bregðast. Við erum nýlega búin að opna körfuboltahöll fyrir Njarðvík og nýja sundlaug í því hverfi. Við munum í sumar opna Hljómahöll sem menningarmiðstöð bókasafns, tónlistarhúss og Rokksafns. Við erum að opna tvo nýja leikskóla á þessu ári og bættum við einni 25 barna deild við þann þriðja. Við erum enn að stækka og endurbyggja tvo grunnskóla auk allra annarra verkefna sem eru brýn og aðkallandi. Það myndast eðlilega þrýstingur í kerfinu eftir uppbyggingu og viðhaldi þegar erfiðleikar hafa verið í rekstri bæjarins á árum áður. Auk þess seldi Reykjanesbær á árum áður frá sér allar stóru eignir bæjarins til fjárfestingarfélags sem sá um þær og þeirra viðhald í áratug.
Fyrir það fyrsta vill meirihlutinn árétta að við erum að reka hér stórt þjónustufyrirtæki sem heitir Reykjanesbær. Við höfum hér skyldur til reksturs og við erum með fullt af fólki í vinnu fyrir okkur í allskyns verkefnum, bæði okkar eigið starfsfólk og verktaka.
Reykjanesbær sem sveitarfélag sem gætir að fjármunum skattgreiðenda sinna greiðir ekki dráttarvexti. Það gerir íslenska ríkið ekki heldur og fæst sveitarfélög. Við notumst við ákveðna greiðsluaðferð en það gerist endrum og eins að verktakar senda greiðsluseðla og stundum með mjög fáum dögum milli gjalddaga og eindaga. Þessu eigum við erfitt með að bregðast við á svo skömmum tíma en við erum að búa til verklagsreglur um greiðsluferli sveitarfélagsins þar sem verður mjög skýrt hvernig við ætlum að haga okkar greiðsluferli í takt við önnur sveitarfélög og ríki. Það er óeðlilegt að senda inn reikninga til sveitarfélags og ætlast til að fá þá greidda innan viku en þetta mun verða mjög skýrt hér eftir.
Til að fullvissa íbúa Reykjanesbæjar sem lesa ítrekað dómsdagsspár um tímabundna skammtímaskuldastöðu bæjarins skal það sagt að staðan þann 25. júní var sú að Reykjanesbær hefur greitt alla útistandandi reikninga við verktaka sem áttu reikninga á bæinn vegna framkvæmda fyrir maí og júní nema einn. Aðeins einn reikningur er ógreiddur en hann er vegna hjúkrunarheimilisins en við erum í viðræðum um það verkefni við ríkisstjórnina og stefnum að því að leysa úr því á allra næstu vikum.
Að auki skal það sagt að Reykjanesbær mun sækja um síðustu 500 milljónirnar sem samþykkt var af bæjarstjórn í apríl þegar samþykkt var að taka 2,5 milljarða langtímalán til Lánasjóðs sveitarfélaga. Verið er að vinna að þeirri fjármögnun en þegar hefur verið sótt um 2 milljarða í skammtímalán og því hefur lánaheimildin ekki verið fullnýtt. Til að setja hlutina í samhengi þá voru tvö af stærstu sveitarfélögum á Íslandi að sækja um fjármögnun árið 2024. Annað sótti um 13 milljarða og hitt um 15 milljarða. Við erum að sækja um 2,5 milljarða. Lán eru ekki óeðlilegur hluti sveitarfélaga, sérstaklega í miklum framkvæmdum.
Meirihluti Reykjanesbæjar er auk þess í vinnu við endurskoðun á fjárútlátum bæjarins þar sem við horfum til þátta eins og launaþróunar, fjárfestinga og annarra fjárútláta.
Í þeirri vinnu hefur þegar verið samþykkt, í takt við ráðleggingar frá stjórn Eignasjóðs, að einblína á þrjú verkefni til ársloka í fjárfestingum en þau eru Myllubakkaskóli, Holtaskóli og leikskólinn við Drekadal. Skólarnir eru verkefni sem hafa verið hvað lengst í vinnslu hjá okkur og mikilvægt að við einbeitum okkur að þeim verkefnum. Leikskólinn er okkur mikilvægur sem grunnþáttur í okkar samfélagi fyrir barnafólkið okkar og setjum við því alla okkar áherslu til áramóta í þau verkefni og höfum þá fjárfest á árinu fyrir 1.750 milljónir.
Auk þess höfum við verið að yfirfara laun sveitarfélagsins. Við höfum tekið þá ákvörðun, til hagræðingar, að lækka laun sviðsstjóra og bæjarstjóra um 10%. Í framhaldi af því verður framtíðarfyrirkomulagi þeirra launa breytt sem tengist þá við hækkun kjarasamninga þeirra fagstétta í stað þess að vera vísitölutengd.
Hvað varðar laun bæjarfulltrúa og kjörinna fulltrúa í nefndum og ráðum þá munum við ekki taka inn hækkun launa í ár samkvæmt hækkun á þingfararkaupi, sem hefði hækkað laun kjörinna fulltrúa um 5,6%. Það er mikilvægt að árétta það hér að bæjarfulltrúar og aðrir kjörnir fulltrúar tóku heldur ekki inn launahækkun fyrir árið 2024 og eru því að fá greidd laun í samræmi við árið 2023. Það er leitt en ábyrgt á þessu stigi að bæjarfulltrúar taki þátt í hagræðingaraðgerðum bæjarins.
Hagræðingaraðgerðir eru ekki gerðar vegna tímabundinnar lausafjárstöðu Reykjanesbæjar. Aðgerðirnar eru gerðar vegna breyttra aðstæðna í ár í rekstri sem við þurfum að bregðast við, líkt og önnur sveitarfélög. Ástæður fyrir því eru eftirfarandi:
- Vegna nýsamþykktra kjarasamninga myndast gat í rekstrinum fyrir þeim launum upp á tæplega 600 milljónir sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
- Grindavík hefur dregið sig úr sameiginlegum verkefnum sveitarfélaganna á Suðurnesjum og greiðir Reykjanesbær þar af leiðandi yfir 80% í sameiginlegum kostnaði sveitarfélaganna í verkefnum eins og viðbyggingu FS, í úrræðum eins og Hæfingastöðinni, Björginni o.s.frv.
- Vinnumálastofnun hefur sagt upp samningum við sveitarfélagið sem myndar halla á árinu fyrir 15-20 milljónir. Á þessari aðgerð var þriggja mánaða fyrirvari.
- Mikið álag hefur verið vegna viðhalds og nýframkvæmda og uppsafnaður þrýstingur í kerfinu.
- Samningur við Skólamat reyndist dýrari en áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem nær öll börn sækja sér þessa þjónustu, sem er vel.
Til að sýna fjárhagslega ábyrgð erum við að bregðast við þungum ytri aðstæðum líkt og tekið er fram hér að ofan. Auk þess erum við að klára miklar og stórar framkvæmdir á árinu og því er lántaka eðlileg.
Reykjanesbær er frábær bær og honum er vel stýrt. Við erum að grípa til aðgerða vegna ýmissa þátta sem hafa verið reifaðir hér. Meirihlutinn er að bregðast við breyttum rekstraraðstæðum með ábyrga fjármálastjórn að leiðarljósi.“
Guðný Birna Guðmundsdóttir Samfylkingu, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Bjarni Páll Tryggvason Framsókn.
Samþykkt 5-0 að lækka laun bæjarstjóra og sviðsstjóra um 10% með þriggja mánaða uppsagnarfresti og að aftengja hækkanir við vísitölu. Auk þess að kjörnir fulltrúar fái ekki lögbundna hækkun út frá hækkun þingfararkaups fyrir árin 2024 og 2025.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.05.