598. fundur

03.11.2020 17:00

598. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 3. nóvember 2020, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Jasmina Vajzovic Crnac, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 22. og 29 október 2020 (2020010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki, og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Miðflokks:

Liður 12 í fundargerð bæjarráðs frá 29. október 2020:
„Við í minnihlutanum höfum áhyggjur af milljarða framkvæmd án þess að farið verði í greiningarvinnu og teljum að jafnt stórt verkefni eins og áfangi 2 er við Stapaskóla þá þurfi að velta öllum möguleikum á ódýrari útfærslum án þess að það komi niður á gæðum. Ég vil undirstrika að við erum hlynnt þessari framkvæmd og gerum okkur grein fyrir nauðsyn hennar en undirbúningsvinnan þarf að vera betri. Við höfum lagt fram bókun í þessu máli á fyrri stigum. Við leggjum bókunina fram aftur og óbreytta.“
Margrét Sanders (D), Baldur Guðmundsson (D) Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og Margrét Þórarinsdóttir (M).

„Bókun lögð fram á bæjarstjórnarfundi 20. október 2020
Fyrsti áfangi Stapaskóla hefur nú verið tekinn í notkun og þykir byggingin afar glæsileg enda mun dýrari en sambærilegar byggingar.
Áfangi 2 snýr að byggingu íþróttaaðstöðu og upphafleg greining tók mið af þörfum skólabarna þar sem kennslulaug og einfaldur íþróttasalur myndi duga. Á síðari stigum var viðruð sú hugmynd að íþróttasalur nýttist sem löglegur körfuknattleiksvöllur og í sumar var ræddur sá möguleiki að setja upp aðstöðu fyrir rúmlega 1.000 áhorfendur og sundlaug yrði einnig stækkuð. Á síðasta bæjarráðsfundi voru lagðar fram skissur þar sem nokkrir valkostir voru kynntir ásamt grófri kostnaðaráætlun. Einföld útfærsla mun kosta rúman milljarð en ef farið yrði alla leið þá gæti kostnaður nálgast 2 milljarða.
Við undirrituð treystum okkur ekki til að styðja auknar fjárfestingar um nærri milljarð króna án þess að frekari greiningarvinna fari fram. Í greiningunni komi fram hvernig íþróttahúsið og sundlaug muni nýtast í náinni framtíð, hvaða íþróttagreinar og félög myndu nota aðstöðuna og hvort það nýtist einnig til æfinga, hvort bílastæði séu nægjanleg þegar kappleikir standa yfir, hvort sundlaugin verði notuð til æfinga eða hvort opið verði fyrir almenning fram eftir kvöldi og fleira sem skiptir máli í þarfagreiningu. Nú þegar gróf kostnaðaráætlun hefur verið kynnt er nauðsynlegt að rýna þarfirnar áður en lengra er haldið. Við hönnunarvinnu verði leitast við að velta upp öllum möguleikum á ódýrari útfærslum án þess að það komi niður á gæðum.“
Margrét Sanders (D), Baldur Guðmundsson (D) Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D) og Margrét Þórarinsdóttir (M).

Til máls tóku Friðjón Einarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Baldur Þ. Guðmundsson.

„Bæjarstjórn vill færa öllu starfsfólki Reykjanesbæjar miklar þakkir fyrir frábært starf á Covid tímum.“

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1291. fundar bæjarráðs 22. október 2020
Fundargerð 1292. fundar bæjarráðs 29. október 2020

2. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 21. október 2020 (2020010011)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét A. Sanders og Friðjón Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 14. fundar menningar- og atvinnuráðs 21. október 2020

3. Fundargerð lýðheilsuráðs 21. október 2020 (2020010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Díana Hilmarsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 12. fundar lýðheilsuráðs 21. október 2020

4. Fundargerð framtíðarnefndar 21. október 2020 (2020010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Styrmir Gauti Fjeldsted, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 13. fundar framtíðarnefndar 21. október 2020

5. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 22. október 2020 (2020010252)

Forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:

Liður 4 í fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar frá 22. október 2020:
„Mikil óvissa er uppi í þjóðfélaginu og í heiminum öllum vegna alheimsfaraldursins COVID 19. Mörg fyrirtæki á landinu, í ferðaþjónustu sem og öðrum atvinnugreinum, eiga í miklum rekstrarerfiðleikum þar sem gjaldþrot þeirra blasir jafnvel við. Þessum erfiðleikum fylgir atvinnuleysi og er atvinnuleysi nú á Suðurnesjum með því hæsta sem þekkst hefur í Íslandssögunni. Við þessari þróun þarf að sporna með framkvæmdum sem skapa störf tímabundið og til lengri tíma.
Bygging þurrkvíar í Njarðvík
Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur hug á að efla starfsemi sína með byggingu nýrrar þurrkvíar á athafnasvæði sínu við Njarðvíkurhöfn. Sú uppbygging myndi strax skapa á annað hundrað bein og óbein störf og leiða til annarrar uppbyggingar með viðeigandi störfum. En til að þessi áform gangi eftir þarf að ráðast í verulegar hafnarframkvæmdir í Njarðvíkurhöfn.
Reykjaneshöfn sem á og rekur Njarðvíkurhöfn, hefur á undanförnum árum stefnt að endurbótum á hafnaraðstöðunni í Njarðvík, er varðar endurnýjun viðlegukanta, dýpkun og byggingu skjólgarðs. Þær framkvæmdir myndu nýtast vel til að skapa það umhverfi sem til þarf fyrir uppbyggingu Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur, auk þess að skapa möguleika á uppbyggingu á annarri hafnsækinni starfsemi á svæðinu.
Viljayfirlýsing undirrituð
Þann 19. ágúst s.l. undirrituðu Reykjanesbær, Reykjaneshöfn og Skipasmíðastöð Njarðvíkur viljayfirlýsingu um samræmt átak til að vinna framangreindum framkvæmdum brautargengi. Reykjaneshöfn og Skipasmíðastöð Njarðvíkur hafa kynnt fyrrnefnd uppbyggingaráform fyrir bæjarráðum allra sveitarfélaga á Suðurnesjum ásamt stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og hafa viðkomandi aðilar lýst yfir stuðningi við áformin sem eru atvinnueflandi fyrir íbúa Suðurnesja.
Fyrrnefndar endurbætur sem Reykjaneshöfn stefnir á í Njarðvíkurhöfn hafa í för með sér miklar framkvæmdir og eru kostnaðarsamar. Heimilt er samkvæmt Hafnalögum nr. 61/2003 að styrkja slíka framkvæmd úr ríkissjóði í gegnum samgönguáætlun, en forsenda þess að Reykjaneshöfn geti farið í þessa framkvæmd er að sá stuðningur sé til staðar. Fjárútlát Reykjaneshafnar verða þrátt fyrir það umtalsverð og mun Reykjanesbær styðja Reykjaneshöfn við þá fjármögnun.
Áskorun á ríkisstjórn og Alþingi
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar hér með á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja fjárframlög til ofangreindra hafnarframkvæmda í Njarðvíkurhöfn í samræmi við heimildir í Hafnalögum í gegnum samgönguáætlun eða aðra innviðafjárfestingu svo renna megi fleiri stoðum undir atvinnulífið á Suðurnesjum og skapa ný störf til framtíðar.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (M), Styrmir Gauti Fjeldsted (S) og Jasmina Vajzovic Crnac (Á).

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét A. Sanders og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 245. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar 22.10.20

6. Fundargerð fræðsluráðs 23. október 2020 (2020010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð fræðsluráðs frá 23. október 2020:
„Það er sorglegt að Reykjanesbær skuli sækja styrk til Hróa Hattar vegna skólamáltíða í stað þess að sveitarfélagið standi undir þeim kostnaði. Enn og aftur er þessi umræða í sveitarfélaginu okkar varðandi skólamáltíðir.
Það hefur færst í vöxt að bæjarfélög bjóði gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Rökstuðningur fyrir því að afnema gjaldtöku á skólamáltíðum er sá að ekki eigi að mismuna börnum á grundvelli efnahagslegrar stöðu foreldra þeirra, auk þess að létta undir meðan barnafjölskyldum á þessum erfiðum tímum þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum. Þann 25. júní 2020 var gerður samstarfssamningur um verkefnið Barnvæn sveitarfélög og skuldbatt Reykjanesbær sig til að hefja vinnu við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru nákvæmlega í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Margrét Þórarinsdóttir (M).

Til máls tóku Friðjón Einarsson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Kjartan Már Kjartansson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 337. fundar fræðsluráðs 23. október 2020

7. Fundargerð barnaverndarnefndar 26. október 2020 (2020010004)

Fundargerðin lögð fram.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 3 í fundargerð barnaverndarnefndar frá 26. október 2020:
„Enn og aftur sjáum við aukningu á milli mánaða.
Í september 2020 bárust 56 tilkynningar vegna 45 barna og fjöldi nýrra mála í könnun voru 25 mál en á sama tíma í fyrra voru tilkynningarnar 45 vegna 44 barna og fjöldi nýrra mála í könnun voru 11.
Þetta eru sláandi tölur og veldur mér hugarangri en á þessum tölum sjáum við að ný mál voru 25 miðað við 11 mál á sama tíma í fyrra. Eins og ég hef bent á áður þá eru barnaverndarmál þau erfiðustu mál innan félagsþjónustunnar og oft á tíðum er álagið mikið. Miðað við þessar tölur þá verður að fjölga stöðugildum á félagsráðgjöfum í Barnavernd enda sýndi það sig þegar álagsmæling var gerð á sviðinu að vinnuálag er mikið og því alltaf hætta á að fólk fari í kulnun. Ég hvet því enn og aftur meirihlutann að huga vandlega að auka stöðugildi í Barnavernd fyrir næstu fjárhagsáætlun.“

Margrét Þórarinsdóttir (M).

Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fylgigögn:

Fundargerð 274. fundar barnaverndarnefndar 26. október 2020

8. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 27. október 2020 (2020010205)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Jasmina Vajzovic Crnac og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 143. fundar ÍT 27. október 2020

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:20