708. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 2. desember 2025, kl. 17:00
Viðstaddir: Alexander Ragnarsson, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga María Finnbjörnsdóttir, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon. Í forsæti var Bjarni Páll Tryggvason.
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Guðný Birna Guðmundsdóttir boðaði forföll, Hjörtur Magnús Guðbjartsson sat fyrir hana.
1. Fundargerðir bæjarráðs 20. og 27. nóvember 2025 (2025010003)
Forseti las upp eftirfarandi bókanir:
„Landsbyggðarstrætó – breytingar á leiðarkerfi.
Þegar kemur að leið 55 sem ekur á milli höfuðborgarsvæðisins, sveitarfélaganna á Suðurnesjum og Keflavíkurflugvallar, vill bæjarráð koma enn og aftur á framfæri vonbrigðum sínum með breytingu Vegagerðarinnar á leiðakerfum landsbyggðastrætósins 55.
Í svari Vegagerðarinnar kemur fram að markmið með breytingum á leiðakerfi hafi verið að aðlaga kerfið að breyttum þörfum notenda og að aðkallandi hafi verið að undirbúa leiðakerfið fyrir orkuskipti. Vísað er til stefnu stjórnvalda um almenningssamgöngur þar sem kemur fram að „Almenningssamgöngur innan einstakra sveitarfélaga eru á forræði þeirra.“ Miðað við þá stefnu telst akstur leiðar 55 innan Reykjanesbæjar sem innanbæjarakstur og því ákveðið að fækka stoppistöðvum úr átta í tvær en auk þess mun fjöldi ferða með BSÍ á endastöð fækka úr átta ferðum niður í fimm á virkum dögum, frá og með 1. janúar 2026.
Með breytingunum geta íbúar Reykjanesbæjar illa nýtt strætóinn til og frá höfuðborginni snemma á morgnana og seint á kvöldin. Strætó 55 fækkar stoppistöðvum úr átta í tvær og hættir að stoppa í Ásbrú sem er 5.000 íbúa hverfi. Kostnaður fyrir Reykjanesbæ við að bæta við morgunakstri frá kl. 06 -07 er 15 milljónir árlega en horfast þarf í augu við það að tekjur Reykjanesbæjar eru 13% lægri en meðaltal sjö stærstu sveitarfélaganna. Hér er um að ræða skort á mikilvægri þjónustu fyrir fjórða stærsta sveitarfélag Íslands og vísað í stefnu stjórnvalda um áreiðanlegri samgöngur.
Þetta skýtur skökku við þegar framlög til almenningssamgangna hækkuðu um 2,3 milljarða milli 2024 og 2025 en helstu breytingarnar snéru að aukinni þjónustu í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins með styttri ferðatíma og lengri þjónustutíma. Áherslur á landsbyggðina og samfélögin þar mæta hér afgangi og við í Reykjanesbæ hörmum þessa ákvörðun Vegagerðarinnar.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur heilshugar undir bókun bæjarráðs.“
Alexander Ragnarsson (D), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Guðbergur Reynisson (D), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Helga María Finnbjörnsdóttir (Y), Hjörtur Magnús Guðbjartsson (S), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (U), Sigurrós Antonsdóttir (S) og Sverrir Bergmann Magnússon (S).
„Frumvarp um brottfararstöð.
Almenn sjónarmið
S.S.S. vekur athygli á að frumvarpið gerir ráð fyrir staðsetningu brottfararstöðvar á Suðurnesjum, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í greinargerð er jafnframt gert ráð fyrir flutningi móttökumiðstöðvar umsækjenda um alþjóðlega vernd til svæðisins án þess að útfærsla úrræðisins liggi fyrir. Á aðalfundi S.S.S. var samþykkt ályktun þar sem mótmælt var skorti á samráði við sveitarfélögin áður en ákvörðun var kynnt. Ljóst er að brottfararstöðin verður staðsett nærri stærstu landamærastöð landsins. Fyrir liggur að staðsetning ráðist af framboði húsnæðis, útboðum og öðrum aðstæðum. Að mati S.S.S. hefði verið eðlilegt að haft væri samráð við sveitarfélögin á Suðurnesjum áður en ákvörðun var tekin og frumvarpið lagt fram.
Skortur á samráði við sveitarfélög
Í 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um hlutverk ríkisins við rekstur brottfararstöðvar en hvergi er kveðið á um skyldu til samráðs við sveitarfélög sem hýsa starfsemina. S.S.S. ítrekar að slíkt samráð hefur ekki farið fram og telst það ekki samræmast vönduðum stjórnsýsluháttum. Á bls. 26 kemur fram að sveitarfélögum verði boðið til samráðs um „mótun og uppbyggingu" miðstöðvarinnar. Að mati S.S.S. er það óásættanlegt að hefja samráð eftir að ákvörðun um staðsetningu hefur verið tekin, enda útilokar slíkt að sveitarfélög geti haft raunveruleg áhrif á grundvallarforsendur málsins.
Óljós útfærsla móttökumiðstöðva
Í greinargerð með 4. gr. frumvarpsins er vísað til þess að móttökumiðstöð verði flutt frá Reykjavík til Suðurnesja. Óljóst er hins vegar hvort úrræðið verði opið eða lokað, hver beri ábyrgð á daglegri þjónustu, hvort Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) verði ábyrg fyrir heilbrigðisþjónustu, hvernig dvalartími verði skilgreindur eða hvernig tryggt verði að börn fái viðeigandi þjónustu og skólagöngu. S.S.S. telur að óviðunandi sé að jafn umfangsmikil breyting á móttökukerfi útlendingamála sé hvorki útfærð í lagatexta né greinargerð.
Samþætting ólíkra úrræða - 6. gr. frumvarpsins
Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins geta einstaklingar sem hafnað hafa samvinnu við stjórnvöld og misst þjónustu verið vistaðir í sama húsnæði og brottfararstöð. Að mati S.S.S. er óskiljanlegt að vista svo ólíka hópa saman án þess að rækilega sé fjallað um öryggismál, þjónustu, ábyrgð og aðbúnað.
Vistun, börn og hlutverk barnaverndar - 8. gr. frumvarpsins
Í 8. gr. frumvarpsins er heimild til að vista einstaklinga og fjölskyldur með börn í sömu brottfararstöð, þó í aðskildum einingum. Þá segir einnig að vistmaður skuli hafa rétt til útiveru, tómstunda, líkamsræktar, fjölmiðla og að umgangast aðra vistmenn. S.S.S. telur mikilvægt að skýrt sé hvar slík útivera, tómstundir og líkamsrækt eigi sér stað og hvort slíkt rými verði innan brottfararstöðvar eða á vegum sveitarfélagsins. Slíkt hefur bein áhrif á skipulag, innviði og öryggi. Í kafla um sérstakar reglur um vistun barna kemur fram að lögregla skuli tilkynna barnaverndarþjónustu um vistun barns í brottfararstöð og bera ákvörðunina undir dómstóla. S.S.S. bendir á eftirfarandi að óljóst er til hvaða aðgerða barnaverndarþjónusta getur gripið, ekki er heldur séð hvernig þetta samræmist barnaverndarlögum. Mikilvægt er að benda á að með ákvæðinu er lagt nýtt verkefni á barnaverndarþjónustu viðkomandi sveitarfélags en slíkt kallar á aukið vinnuframlag og kostnað.
Áhrif á þjónustu HSS og lögreglu - 5. og 6. gr. frumvarpsins
Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir fangavörðum í hópi starfsfólks. S.S.S. telur að þörf sé á breiðari faglegri þekkingu þar sem brottfararstöð er ekki fangelsi og mun vista fólk og fjölskyldur með fjölbreyttar þjónustuþarfir. Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins skal heilbrigðisstarfsmaður skoða einstakling við komu. Af orðalagi frumvarpsins má ráða að heilbrigðisstarfsmaður sé starfsmaður heilbrigðisstofnunar og ekki hluti af starfsliði brottfararstöðvarinnar. S.S.S. leggur áherslu á að verði HSS fengið þetta verkefni verði stofnunin að fá ríflega fjármögnun svo þjónusta við brottfararstöð komi ekki niður á þjónustu við íbúa á Suðurnesjum.
Lögheimili og réttindi vistmanna
Frumvarpið tekur ekki afstöðu til þess hvort vistmenn verði lögheimilisskráðir í sveitarfélaginu. Þetta er grundvallaratriði þar sem lögheimilisskráning felur í sér réttindi og skyldur sveitarfélaga, m.a. í félagsþjónustu, barnavernd og skólamálum.
Skipulagsmál - 20. gr. frumvarpsins
Samkvæmt 20. gr. frumvarpsins setur lögreglustjórinn á Suðurnesjum reglur um brottfararstöð og óheimilt er að birta reglur um öryggi opinberlega. S.S.S. bendir á að brottfararstöð hefur veruleg áhrif á nærumhverfi sitt. Sveitarfélag hefur lögbundið hlutverk samkvæmt skipulagslögum við gerð skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfa og því verður að teljast óeðlilegt er að sveitarfélagið hafi ekkert um staðsetningu að segja.
Skortur á heildstæðu áhrifamati
Í greinargerð með 10. gr. frumvarpsins er fullyrt að frumvarpið hafi ekki í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélög. S.S.S. bendir á að ekkert heildstætt áhrifamat liggur fyrir um áhrif á t.d. • félagsþjónustu, • barnavernd, • skólaþjónustu, • heilbrigðisþjónustu, • löggæslu, • skipulags- og húsnæðismál.
Niðurstaða
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum telur að frumvarpið sé ófullmótað og byggi á óljósum forsendum. Ekki hefur farið fram nauðsynlegt samráð við sveitarfélög á svæðinu og skortir heildstætt mat á áhrifum starfseminnar. Greinargerð frumvarpsins bendir ítrekað til þess að frumvarpið fjalli einnig um móttökumiðstöð, þrátt fyrir að lagatexti taki einungis til brottfararstöðvar. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum telur eðlilegra að móttökumiðstöð verði tekin fyrir í sérlögum þar sem um sé að ræða annað hlutverk og aðra þjónustu. S.S.S. leggur áherslu á að áður en frumvarpið verði afgreitt þurfi að fara fram heildstætt mat á áhrifum lagasetningarinnar á samfélag og innviði á Suðurnesjum. Það þarf að hefja raunverulegt og opið samráð við sveitarfélög svæðisins. Skýra þarf hvernig móttökumiðstöð og brottfararstöð verði útfærð og fjármögnuð. Verði þetta frumvarp að veruleika þarf að tryggja fulla fjármögnun til sveitarfélaga, HSS og embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum vegna nýrra verkefna sem og að taka afstöðu til lögheimilisskráningar vistmanna og réttinda þeirra.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur heilshugar undir umsögn SSS.“
Alexander Ragnarsson (D), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Guðbergur Reynisson (D), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Helga María Finnbjörnsdóttir (Y), Hjörtur Magnús Guðbjartsson (S), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (U), Sigurrós Antonsdóttir (S) og Sverrir Bergmann Magnússon (S).
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Margrét A. Sanders.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.
Fylgigögn:
2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 21. nóvember 2025 (2025010011)
Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi mál fundargerðarinnar frá 21. nóvember til sérstakrar samþykktar:
Sjötta mál fundargerðarinnar Sporthúsið - stækkun (2025080471) samþykkt 11-0 án umræðu.
Sjöunda mál fundargerðarinnar Kirkjubraut 10 - viðbygging (2025050105) samþykkt 11-0 án umræðu.
Áttunda mál fundargerðarinnar Hafnarbraut 12E - fyrirspurn (2025110095) samþykkt 11-0 án umræðu.
Níunda mál fundargerðarinnar Flugvellir 1-3 - beiðni um deiliskipulagsbreytingu (2025110116) samþykkt 11-0 án umræðu.
Tíunda mál fundargerðarinnar Keilisbraut 753 (2025080161) samþykkt 11-0 án umræðu.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:
Mál 1 frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 21. nóvember 2025, Uppbygging við Víkingaheima – aðalskipulagsbreyting (2019060056)
„Umbót telur mikilvægt að staldra við þá stefnu sem blasir við í skipulagsvinnu sveitarfélagsins þar sem ítrekað er horft til þess að breyta grænum svæðum í Reykjanesbæ í byggingarland þrátt fyrir að bærinn búi yfir nægjanlegu óbyggðu landi sem auðveldlega væri hægt að nýta til framtíðaruppbyggingar. Það er eðlileg krafa íbúa að græn svæði séu fyrst vernduð, styrkt og gerð nýtanleg áður en tekin er ákvörðun um að þrengja þau eða loka fyrir aðgengi að þeim. Slík svæði eru ekki afgangsland, þau eru hluti af lögbundnu skipulagi sveitarfélaga og hafa bein áhrif á lífsgæði og heilsu íbúa.
Við fögnum því að í þessu tilviki sé fyrirhuguð breyting sett í ferli sem felur í sér íbúasamráð. Jafnframt er mikilvægt að minna á að svæðið við Víkingaheima er aðeins eitt af þremur svæðum í Dalshverfi sem verið er að skoða til breytingar úr grænum svæðum í íbúabyggð sem gerir heildstæða stefnumörkun enn brýnni. Umbót ítrekar fyrri bókanir sínar um málið þar sem áhyggjur af ferlinu, jafnræði og mögulegum áhrifum á græn svæði hafa þegar verið settar fram, án þess að meirihlutinn hafi brugðist við.
Ferli meirihlutans, Samfylkingarinnar, Framsóknar og Beinnar leiðar í þessu máli hefur ekki verið í samræmi við þau stjórnsýsluviðmið sem gera má kröfu um í skipulagsmálum. Kynning frá einum aðila, Funabergi fasteignafélagi ehf. var tekin áfram áður en sveitarfélagið hafði tekið faglega afstöðu til þess hvort eða hvernig ætti yfirhöfuð að breyta landnotkun svæðisins. Ferlið var hvorki opnað fyrir fleiri aðilum né tryggt að samkeppni, jafnræði eða gagnsæi væri tryggt áður en hugmyndirnar voru færðar í næsta skref. Málinu var svo vísað áfram í skipulagsvinnu án þess að íbúum hefði verið kynnt hvaða framtíðarsýn eða markmið sveitarfélagið hefði fyrir svæðið. Þrátt fyrir áherslur um íbúasamráð nú, hefði slíkt samráð átt að hefjast áður en tekin var ákvörðun um að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi.
Það liggur ekki fyrir hvers vegna byrjað er á grænum svæðum þegar nægt byggingarland er til staðar annars staðar í sveitarfélaginu. Að mati Umbótar þarf ferlið að hefjast á ný með skýrri framtíðarsýn um vernd og nýtingu grænna svæða og í nánu, raunverulegu samráði við íbúa. Ákvörðun um að breyta grænu svæði í byggingarreit verður að byggja á almannahagsmunum og faglegum forsendum, ekki á óskum einstakra aðila áður en grunnstefna liggur fyrir.
Umbót ítrekar því að sveitarfélagið eigi að meta græn svæði sem samfélagslega auðlind, efla þau og tryggja að þau nýtist íbúum, áður en tekin eru skref í átt að breytingu á landnotkun eða mögulegri uppbyggingu á þessum svæðum.
Ég óska að þetta verði bókað, jafnframt mun ég sitja hjá í þessum lið.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Helga María Finnbjörnsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi andsvar:
Mál 1 frá fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 21. nóvember 2025, Uppbygging við Víkingaheima – aðalskipulagsbreyting (2019060056)
„Umbót vill árétta að gagnrýni okkar snýr fyrst og fremst að ferlinu sem meirihlutinn hefur viðhaft í málinu. Það er rétt að hér sé um hugmynd að ræða, en um leið og hugmynd eins aðila er tekin áfram í skipulagsvinnu án þess að ferlið sé opið og öllum aðilum aðgengilegt, er verið að taka stefnumarkandi ákvörðun. Slíkar ákvarðanir eiga að byggja á heildarsýn um notkun lands og skýru samhengi við aðalskipulag, ekki á kynningu frá einum aðila áður en faglegt mat liggur fyrir.
Við fögnum því að boðað sé til íbúasamráðs, en íbúasamráð á að vera fyrsta skref, ekki það skref sem kemur eftir að ákvörðun hefur þegar verið tekin um að setja grænt svæði inn í ferli sem miðar að því að skoða það sem mögulegt byggingarland. Það er ekki hlutverk sveitarfélagsins að skapa væntingar um uppbyggingu á grænum svæðum áður en íbúar hafa fengið að taka afstöðu og áður en sett hefur verið fram skýr framtíðarsýn um hlutverk slíkra svæða í bæjarheildinni.
Það hefur einnig komið fram að ekkert hafi verið ákveðið og enginn aðili hafi fengið neina úthlutun. En einmitt þess vegna er mikilvægt að enginn fái einhliða aðkomu að þróun á slíku svæði. Ef „engin hefur fengið forgang“, þá á líka enginn að vera í þeirri stöðu að koma með þróunartillögu inn í lokað ferli. Jafnræðisreglan krefst þess að ferlið sé opið, gagnsætt og öllum framkvæmdaaðilum jafnt aðgengilegt áður en hugmyndir eru teknar áfram.
Þá hefur meirihlutinn haldið því fram að þörf sé á íbúðum og að því sé eðlilegt að skoða nýja byggingarreiti. Við teljum að þörf sé á íbúðum, en það réttlætir ekki að byrja á grænum svæðum þegar Reykjanesbær býr yfir fjölmörgum reitum sem þegar eru skilgreindir sem byggingarland. Byggingarland er endurnýjanlegt – græn svæði eru það ekki. Það liggur ekki fyrir hvers vegna byrjað er á grænum svæðum þegar önnur svæði standa til boða.
Að lokum viljum við minna á að svæðið við Víkingaheima er aðeins eitt af þremur svæðum í Dalshverfi sem verið er að skoða til breytingar úr grænum svæðum í íbúabyggð. Það kallar á heildstætt mat og faglega forgangsröðun. Við teljum því að ferlið þurfi að hefjast á ný, með skýrri stefnu um vernd og hlutverk grænna svæða, íbúasamráði frá fyrsta degi og ferli sem byggir á gagnsæi, jafnræði og almannahagsmunum.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót
Til máls tóku Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir og Helga María Finnbjörnsdóttir.
Margrét Þórarinsdóttir (U) situr hjá við afgreiðslu á máli 1 frá fundargerðinni 21. nóvember 2025. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
3. Fundargerð lýðheilsuráðs 17. nóvember 2025 (2025010006)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.
Fylgigögn:
4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 19. nóvember 2025 (2025010005)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina
Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.
Fylgigögn:
5. Fundargerð atvinnu- og hafnarráðs 20. nóvember 2025 (2025010004)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Hjörtur Magnús Guðbjartsson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
6. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 25. nóvember 2025 (2025010010)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.
Fylgigögn:
7. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 28. nóvember 2025 (2025010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Margrét A. Sanders.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
8. Fræðslustefna innri fræðslu og endurmenntunar starfsfólks 2025-2028 – síðari umræða (2025030588)
Forseti fór yfir helstu atriði fræðslustefnunnar. Enginn fundarmanna tók til máls.
Fræðslustefna innri fræðslu og endurmenntunar starfsfólks 2025-2028 samþykkt 11-0.
9. Gjaldskrá Reykjanesbæjar 2026 (2025060320)
Forseti fór yfir helstu atriði framlagðrar gjaldskrár Reykjanesbæjar fyrir árið 2026.
Forseti gaf orðið laust. Enginn fundarmanna tók til máls.
Gjaldskrá Reykjanesbæjar 2026 samþykkt 11-0.
10. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – síðari umræða (2025060320)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir sem fylgdi áætluninni úr hlaði og fór yfir breytingar frá fyrri umræðu 18. nóvember 2025.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Umbótar:
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – síðari umræða (2025060320)
„Hærri skattar, litlar fjárfestingar, vanáætlaður rekstur
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2026 liggur nú fyrir til samþykktar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Umbótar samþykkja hana ekki í heild sinni, en sitja hjá þar sem hún inniheldur nokkur atriði sem við styðjum og höfum lagt sérstaka áherslu á.
Við styðjum m.a. eftirfarandi atriði:
• Í júní 2025 var gerður samningur við sviðsstjóra og bæjarstjóra um 10% lækkun launa sem tekur í heild gildi rekstrarárið 2026. Laun stjórnenda munu framvegis fylgja hækkunum kjarasamninga fagstétta í stað vísitölutengingar, en vísitölutenging hefur þegar skilað 26,8% hækkun á þessu kjörtímabili—langt umfram þróun á almennum vinnumarkaði.
• Gert er ráð fyrir að leikskólinn Drekadalur verði loks tekinn í fulla notkun árið 2026. Það er jákvætt, þótt Samfylkingin hafi lofað opnun vorið 2023 fyrir síðustu kosningar.
• Félagsmiðstöðvar í hverfum Reykjanesbæjar, sem flest framboð lofuðu, eru orðnar að veruleika að hluta.
• Fasteignaprósenta á íbúðarhúsnæði lækkar um 0,02 prósentustig, sem þýðir 4,1% hækkun fasteignaskatts. Þetta er ekki í samræmi við okkar markmið, en fellur innan spár um verðbólgu.
• Framkvæmdir við gangbrautir og innviði tengda Ásahverfi.
• Búnaðarkaup til fimleikadeildarinnar verða 5 milljónir 2026.
Við getum ekki samþykkt eftirfarandi:
• Tekjur af fasteignasköttum til fyrirtækja hækka um 15,41% sem dregur úr samkeppnishæfni og fjárfestingargetu atvinnulífsins.
• Raunlækkun á stuðningi við íþróttafélögin vegna launa og rekstrarsamninga við knattspyrnuvelli Keflavíkur og Njarðvíkur.
• Launakostnaður Bókasafns Reykjanesbæjar hækkar um 37% (rúmlega 30 milljónir) á milli áætlana ´25 og ´26, þrátt fyrir að flutningur safnsins í Hljómahöll hafi átt að skila sparnaði vegna samlegðaráhrifa.
• Ekki verður lokið við framkvæmdir í Myllubakkaskóla og Holtaskóla árið 2026 þar sem kostnaður hefur farið langt fram úr áætlun, með hliðsjón af byggingarvísitölu.
• Of litlu fjármagni er varið í að bæta aðstöðu á knattspyrnuvöllum Keflavíkur og Njarðvíkur. Óvíst er hvort Keflavík fái heimild til að spila í Bestu deild karla, Njarðvík leikur í Bestu deild kvenna, og þar þarf að bæta aðstöðuna verulega. Í september 2025 bókaði öll bæjarstjórnin mikilvægi þess að ráðast strax í þessa uppbyggingu.
• Ekki er gert ráð fyrir bakvarðasveit í leikskólum til að koma í veg fyrir lokanir vegna veikinda og manneklu þrátt fyrir samþykkt bæjarstjórnar þar um.
• Tekjur, laun og annar rekstrarkostnaður hafa um árabil farið langt umfram áætlanir og ekkert bendir til að þetta breytist 2026. Fjölmargir málaflokkar eru vanáætlaðir, eins og sjá má af kynningum sviðsstjóra og fjárfestingaáætlunum.
Forsendur og áhyggjur
Framlög frá Jöfnunarsjóði verða um 300 milljónum hærri 2026 en 2025.
Launakostnaður sveitarfélagsins er áætlaður að hækka um 8,6%.
Annar rekstrarkostnaður lækkar samkvæmt áætlun um 1,1 milljarð, fyrst og fremst vegna hjúkrunarheimilis. Sjálfstæðisflokkurinn og Umbót telja almennan rekstrarkostnað verulega vanáætlaðan.
Vinnan við fjárhagsáætlun hófst seint á þessu ári og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Umbótar voru einungis boðaðir á einn fund. Á fyrra ári voru fundir fjölmargir. Ábyrgð á þessari fjárhagsáætlun liggur því alfarið hjá meirihluta Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar.
Við vonum að sá meirihluti sem tekur við eftir sveitarstjórnarkosningar vorið 2026 tryggi vandaðri, gagnsærri og faglegri vinnu við fjárhagsáætlanir bæjarins.“
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson Sjálfstæðisflokki og Margrét Þórarinsdóttir Umbót.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar:
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – síðari umræða (2025060320)
„Meirihluti bæjarstjórnar lýsir yfir ánægju með fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árin 2026–2029 sem lögð er fram hér í dag. Áætlunin er afrakstur umfangsmikillar og markvissrar vinnu sem byggir á ábyrgri fjármálastjórn, skýrri forgangsröðun og traustum rekstri. Hún tekur jafnt tillit til þeirra áskorana sem sveitarfélagið stendur frammi fyrir og þeirra fjölmörgu tækifæra sem skapast við áframhaldandi fjölgun íbúa, vöxt og innviðauppbyggingu, bæði til hagsbóta fyrir íbúa og til að tryggja öflugt, fjölbreytt atvinnulíf.
Heilbrigður rekstur staðfestur í 9 mánaða uppgjöri
Árshlutareikningur fyrstu níu mánaða ársins staðfestir sterkan og stöðugan rekstur, þrátt fyrir að tekjur séu ekki háar miðað við hraða íbúafjölgun og umfang framkvæmda. Jákvæð rekstrarniðurstaða, framlegð yfir settu viðmiði og veltufé frá rekstri sem gerir kleift að ráðast í fjárfestingar styðja það skýrt. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir 314 milljóna króna jákvæðri niðurstöðu á tímabilinu en hún er 883 milljónir. Á sama tíma höfum við fjárfest fyrir um 4,5 milljarða króna.
Þetta staðfestir að við höfum sýnt aðhald í rekstri um leið og við fjárfestum af krafti í innviðum til framtíðar.
Jákvæð staða og stöðugur grunnur
Fjárhagsáætlun ársins 2026 gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta upp á um 209 m.kr. og um 1.710 m.kr. í samstæðunni. Tekjur samstæðunnar eru áætlaðar 43,9 milljarðar kr. og framlegðin áfram stöðug og góð. Rétt eins og undanfarin ár er meginmarkmið að tryggja að gjöld fari ekki fram úr tekjum, þrátt fyrir auknar skyldur sveitarfélaga, aukna þjónustu, viðhald fasteigna og innviðauppbyggingu.
Lögð er sérstök áhersla á að mæta hækkun fasteignamats án þess að skerða grunnþjónustu með því að halda áfram að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,25% í 0,23%, samhliða því að auka þjónustu við íbúa og halda rekstrarlegum stöðugleika. Á undanförnum níu árum hefur þessi meirihluti lækkað álagningarhlutfall A-skatts úr 0,36 í 0,23%. Einnig höfum við lækkað C-skatt atvinnuhúsnæðis úr 1,65% í 1,45%.
Fjárfestingaáætlun fyrir ört vaxandi bæ
Reykjanesbær er áfram meðal þeirra sveitarfélaga sem vaxa hvað hraðast, og fjölgar um nær 1.000 íbúa á ári. Slíkur vöxtur krefst skýrrar stefnu, öflugrar fjárfestingaáætlunar og markvissrar forgangsröðunar sem styrkir grunnþjónustu og hefur jákvæð áhrif á daglegt líf íbúa. Verkefni og fjárfestingar á árinu 2026 endurspegla forgangsröðun meirihlutans og stefnu Reykjanesbæjar.
Á árinu 2026 verður m.a. unnið að eftirfarandi:
• ljúka við byggingu leikskólans Drekadals fyrir 120 börn á fyrri hluta árs
• halda áfram endurbyggingu og stækkun Myllubakkaskóla og Holtaskóla og koma skólastarfi inn í byggingarnar á næsta skólaári
• vinna áfram að endurbótum í leikskólunum Velli og Heiðarseli
• hefja vinnu við þriðja áfanga Stapaskóla
• hefja vinnu við stækkun leikskólans Skógaráss
• rífa Garðasel og hefja undirbúning að endurbyggingu nýs leikskóla í Heiðarhverfi
• sinna viðhaldsverkefnum í fasteignum sveitarfélagsins fyrir hátt í hálfan milljarð króna
• hanna ný mannvirki, þar á meðal mennta- og íþróttamannvirki, auk breytinga vegna sameiningar dagdvala á Nesvöllum
• opna nýtt 80 rýma hjúkrunarheimili við Nesvelli í upphafi árs
• efla félagsþjónustu og sérhæfð stuðningsúrræði með sérstakri áherslu á þjónustu við börn og barnafjölskyldur
• vinna áfram að þriggja ára átaksverkefni sem fækkar börnum á biðlista eftir athugun sálfræðinga
• innleiða nálgun Heillaspora í grunnskólana til að styðja við farsæld nemenda
• fjárfesta áfram í okkar öfluga menningar-, íþrótta- og tómstundastarfi
• styrkja viðburði og hátíðir bæjarins
• hækka frístundastyrki og þjálfarasamninga og vinna áfram með íþróttahreyfingunni að því að styrkja rekstrargrundvöll þeirra
• vinna áfram að uppbyggingu framtíðarverkefna á borð við Akademíureitinn og Afreksbrautina
• bæta umferðaröryggi og flæði með nýjum hringtorgum á Njarðarbraut við Grænás og við Bergás
• bæta við akstri strætó á sunnudögum
• fjölga kjörstöðum úr einum í þrjá fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar
Áherslan er skýr: að halda áfram að byggja upp öflugt, fjölskylduvænt samfélag þar sem börn, velferð íbúa og aðgengi að þjónustu eru í forgrunni.
Ábyrg og framsækin fjármálastjórn
Frá upphafi kjörtímabilsins hefur meirihlutinn lagt áherslu á aga í rekstri, langtímasýn og skýra forgangsröðun. Fjárhagsáætlunin endurspeglar þessi gildi og tryggir áfram stöðugleika á sama tíma og byggt er upp af miklum krafti fyrir ört stækkandi samfélag.
Meirihlutinn er stoltur af þeirri vinnu sem hefur verið lögð í áætlunina og þakkar bæjarstjóra, fjármálastjóra, sviðsstjórum og starfsfólki fyrir vandaða vinnu.
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026–2029 ber vott um trausta fjármálastjórn, framsækna uppbyggingu og sameiginlega framtíðarsýn. Með samþykkt hennar tryggjum við áframhaldandi góðan rekstur, öfluga innviði og þjónustu sem mætir þörfum íbúa í dag og til framtíðar.
Meirihluti Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar samþykkir fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026–2029 með stolti.“
Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Helga María Finnbjörnsdóttir (Y), Hjörtur Magnús Guðbjartsson (S), Sigurrós Antonsdóttir (S) og Sverrir Bergmann Magnússon (S).
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Alexander Ragnarsson og Helga María Finnbjörnsdóttir.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2026-2029 – síðari umræða (2025060320)
„Umbót vill leggja áherslu á að velferðarmál í Reykjanesbæ standi höllum fæti, þar sem einungis um 14% skatttekna renna til þessa málaflokks. Þetta er verulega lægra hlutfall en hjá sambærilegum sveitarfélögum og endurspeglast nú í auknum biðlistum, manneklu og áskorunum í þjónustu við börn og fjölskyldur.
Á fundi með velferðarsviði kom fram að sviðið óskaði eftir fjárveitingum til að mæta raunverulegri þörf í þjónustu — þar á meðal fjármagni til málstjóra í barna- og fjölskylduteymi, aukins framlags í aðkeypta sérfræðiþjónustu, innleiðingar á Vináttuþjálfun og uppbyggingar úrræðis fyrir skammtímavistun fatlaðra barna.
Þessar óskir komu frá sérfræðingum sem bera ábyrgð á þjónustunni og byggðu á skýrum gögnum um eftirspurn, biðtíma og aukna þarfagreiningu. Þrátt fyrir það voru engar þessara fjárveitinga teknar inn í drög að fjárhagsáætlun 2026–2029.
Umbót telur að það sé áhyggjuefni að sveitarfélagið fjármagni ekki þær aðgerðir sem sérfræðingar telja nauðsynlegar til að koma í veg fyrir frekari uppsöfnun vandamála. Það er rétt að velta fyrir sér hvaða kostnað það mun valda sveitarfélaginu til lengri tíma að fjárfesta ekki í snemmtækri þjónustu, forvörnum og styrkingu barna- og fjölskylduþjónustu.
Við ítrekum mikilvægi þess að fjárveitingar til velferðarmála verði endurskoðaðar með þarfir íbúa að leiðarljósi og að sveitarfélagið móti áætlun sem stendur undir þeirri þjónustu sem lög og samfélagslegar kröfur gera ráð fyrir.“
Margrét Þórarinsdóttir (U)
Til máls tóku Margrét A. Sanders, Sigurrós Antonsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Díana Hilmarsdóttir og Margrét Þórarinsdóttir.
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2026-2029 er samþykkt 7-0 með atkvæðum bæjarfulltrúa meirihlutans Bjarna Páls Tryggvasonar (B), Díönu Hilmarsdóttur (B), Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur (B), Helgu Maríu Finnbjörnsdóttur (Y), Hjartar Magnúsar Guðbjartssonar (S), Sigurrósar Antonsdóttur (S) og Sverris Bergmanns Magnússonar (S).
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Alexander Ragnarsson og Margrét Þórarinsdóttir Umbót sitja hjá.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00.