37. fundur

18.04.2023 14:00

37. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar, haldinn að Tjarnargötu 12, 18. apríl 2023, kl. 14:00

Viðstaddir: Bjarney Rut Jensdóttir formaður, Anna Lydía Helgadóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Karítas Lára Rafnkelsdóttir og Magnús Einþór Áskelsson.

Að auki sátu fundinn Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi, Daníel Örn Gunnarsson fulltrúi ungmennaráðs og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Háaleitisskóli Ásbrú - snjallsímalaus skóli (2023030312)

Friðþjófur Helgi Karlsson skólastjóri Háaleitisskóla mætti á fundinn og sagði frá jákvæðri reynslu af snjallsímalausum grunnskóla.

Lýðheilsuráð þakkar Friðþjófi Helga fyrir góða kynningu.

Lýðheilsuráð vill minna á mikilvægi þess að börn og ungmenni fái frí frá þeim áhrifum sem notkun snjallsíma hefur á andlega og líkamlega heilsu þeirra, svo sem neikvæð áhrif á sjálfsmynd, kvíða, svefnvandamál, þunglyndi og depurð. Þetta ásamt mörgu áhugaverðu kom einnig fram í erindi sem Skúli Bragi Geirdal frá fjölmiðlanefnd flutti í Akademíunni fyrir skemmstu.

Fylgigögn: 

Með því að smella hér má skoða samvinnuverkefni Fjörheima og FFGÍR

2. Hinsegin Plútó - kynning á starfsemi (2023040188)

Guðrún María Þorgeirsdóttir forsvarskona Hinsegin Plútó mætti á fundinn og kynnti starfsemi félagsins.

Lýðheilsuráð þakkar fyrir góða kynningu.

Fylgigögn:

Hinsegin Plútó

3. Hjólað í vinnuna - áskorun frá lýðheilsuráði um þátttöku (2023040190)

Lýðheilsuráð skorar á íbúa Reykjanesbæjar að taka þátt í verkefninu Hjólað í vinnuna 3. – 23. maí nk.

Fyrirtæki og stofnanir um allt land geta nú farið að huga að því að skrá vinnustaðinn til leiks og hvetja þannig allt starfsfólk til að vera með. Það er alltaf mikilvægt fyrir vinnustaði landsins að huga að starfsandanum og er verkefnið Hjólað í vinnuna góð leið til þess að hressa upp á stemninguna og þjappa hópnum saman.

Fylgigögn:

Hjólað í vinnuna

4. Einstakur apríl (2023030328)

Lýðheilsuráð minnir á að Blár apríl verður Einstakur apríl.

Þennan vetur verða miklar breytingar á félaginu. Blái liturinn verður lagður á hilluna og tekið verður upp nafnið Einstakur apríl. Nýja merkið er í öllum regnbogans litum og undirstrikar áhersluna á fjölbreytileika einhverfunnar.

Tilgangurinn er enn þá að stuðla að velgengni barna á einhverfurófi, fyrst og fremst með fræðslu fyrir foreldra og fullorðna sem starfa með börnum. En nú taka við nýjar áherslur í útgefnu efni og skilaboðum til almennings. Einhverfir sjálfir eiga alltaf að hafa sæti við borðið og verður útbúið fræðsluefni sem byggir á raunverulegri reynslu þeirra sem eitt sinn voru börn á einhverfurófi.

24. apríl nk. verður í boði fyrirlesturinn Hvernig get ég hjálpað barninu mínu? frá Aðalheiði Sigurðardóttur á bókasafni Reykjanesbæjar frá kl. 19:30-21:30. Öll velkomin.

Fylgigögn:

Einstakur apríl

5. Sumar í Reykjanesbæ 2023 (2023040037)

Unnið verður að því í apríl að taka niður þær auglýsingar sem hafa verið í vetur inni á vefsíðunni fristundir.is, þ.a.l. óskum við eftir sumarefni frá íþrótta- og tómstundahreyfingunni sem og öðrum sem vilja kynna sitt íþrótta-, tómstunda- og leikjanámskeið fyrir bæjarbúum.

Ef þitt félag/klúbbur áformar að bjóða börnum, ungmennum og/eða öðrum íbúum í Reykjanesbæ upp á tómstunda- og/eða leikjanámskeið eða aðra afþreyingu í sumar.

Óskað er eftir að upplýsingar verði sendar til íþrótta- og tómstundafulltrúa á netfangið: sumar@reykjanesbaer.is fyrir 1. maí nk.

Upplýsingarnar verða birtar á vefnum fristundir.is

Fylgigögn:

Sumar í Reykjanesbæ

6. Útivistartími barna og ungmenna sumarið 2023 (2023040193)

Nokkur heilræði frá lýðheilsuráði Reykjanesbæjar fyrir sumarið 2023.

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar minnir á útivistartíma barna og ungmenna í sumar. 12 ára og yngri mega ekki vera úti eftir kl. 22.00 og 13-16 ára börn mega ekki vera úti eftir miðnætti. Foreldrar/forráðamenn hafa fullan rétt til að stytta þessa tíma. Útivistareglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum og mega börn ekki vera á almannafæri utan ofangreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum þegar börn 13 til 16 ára eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.

Að auki minnir lýðheilsuráð Reykjanesbæjar á notkun hjálma á reiðhjólum, vespum, rafhlaupahjólum og þess háttar farartækjum og biður öll að fara varlega.

Fylgigögn:

Útivistartími barna og ungmenna


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:55. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 2. maí 2023.