59. fundur

16.06.2025 14:00

59. fundur lýðheilsuráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 16. júní 2025, kl. 14:00

Viðstödd: Bjarney Rut Jensdóttir formaður, Anna Lydía Helgadóttir, Karítas Lára Rafnkelsdóttir, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir og Sveindís Valdimarsdóttir.

Að auki sat fundinn Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi og Íris Eysteinsdóttir ritari.

Magnús Einþór Áskelsson boðaði forföll og Sveindís Valdimarsdóttir sat fundinn í hans stað.

1. Tómstundastefna Reykjanesbæjar (2023050566)

Lýðheilsuráð hefur yfirfarið tómstundastefnu Reykjanesbæjar 2025–2028 og fagnar þeirri framtíðarsýn og markmiðum sem þar koma fram. Ráðið lítur svo á að stefnan stuðli að aukinni þátttöku, virkni og vellíðan íbúa, sérstaklega barna og ungmenna, sem hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu.

Lýðheilsuráð óskar þeim sem unnu að gerð stefnunnar til hamingju með vandaða og metnaðarfulla vinnu og felur formanni ráðsins að koma athugasemdum ráðsins áfram.

2. Verum klár í sumar - heilræði til foreldra (2025050459)

Verum klár í sumar – skilaboð til foreldra í Reykjanesbæ.
Framundan eru ævintýri sumarsins og með því breytt dagskipulag barna og ungmenna. Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar minnir á að foreldraábyrgðin tekur ekki sumarfrí – við höfum öll hlutverki að gegna í að tryggja öryggi, vellíðan og heilbrigt uppeldi barna.

Ráðið tekur undir forvarnarátak Reykjavíkur „Verum klár“ og hvetur foreldra í Reykjanesbæ til að:

• Vera meðvituð um hvar börn þeirra eru og með hverjum.
• Sýna áhuga og setja skýr mörk.
• Virða aldurstakmarkanir og takmarka eftirlitslausa samverustaði.
• Ræða við börnin um heilbrigð sambönd, mörk og snjalltækjanotkun.

Saman getum við skapað öruggt og uppbyggilegt sumar fyrir börnin okkar – verum öll klár!

Fylgigögn:

Verum klár - forvarnarmolar til foreldra fyrir sumarið 2025

3. Hreyfing alla ævi (2025050461)

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar hvetur íbúa 60 ára og eldri til að kynna sér nýtt upplýsinga- og fræðslusvæði á vef island.is. Þar má finna yfirlit yfir hreyfingu og tómstundir fyrir eldri borgara víðs vegar um landið, þar á meðal í Reykjanesbæ.

Markmið verkefnisins er að stuðla að virkni, vellíðan og samfélagslegri þátttöku með því að veita aðgengilegar upplýsingar á einum stað. Hreyfing skiptir máli alla ævi. Verum virk saman.

4. Góða skemmtun í sumar (2025060012)

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar minnir á að bæjarhátíðin okkar, Ljósanótt, fer fram fyrstu helgina í september. Við hvetjum öll til að njóta sumarsins og hátíða þess með gleði, virðingu og öryggi að leiðarljósi.
Vitundarvakningin Góða skemmtun, á vegum lögreglunnar og Neyðarlínunnar með stuðningi dómsmálaráðuneytisins, leggur áherslu á að skemmtanir séu ofbeldislausar og öruggar fyrir alla.
Góð skemmtun er þegar öll koma heil heim.
112 aðstoðar í neyð.
Lýðheilsuráð óskar íbúum Reykjanesbæjar og gestum gleðilegs sumars og góða skemmtun á Ljósanótt 2025.

5. Notkun nikótíns og tóbaks 2024 (2025060015)

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar lýsir áhyggjum af mikilli aukningu í notkun nikótínvara, sérstaklega meðal ungs fólks. Samkvæmt nýjustu gögnum embættis landlæknis eru nikótínpúðar nú algengasta neysluform nikótíns á Íslandi og um 32% karla og 21% kvenna á aldrinum 18–34 ára nota þá daglega. Einnig hefur notkun rafrettna aukist, sérstaklega meðal kvenna á aldrinum 35–54 ára.

Þessi þróun kallar á samstillt átak í forvörnum, fræðslu og eftirliti með sölu og markaðssetningu nikótínvara, sérstaklega gagnvart börnum og ungmennum.
Lýðheilsuráð hvetur til aukinnar vitundar meðal foreldra, skóla og samfélagsins alls um skaðsemi nikótíns og mikilvægi þess að virða aldurstakmarkanir og takmarka aðgengi ungs fólks að þessum vörum.

Fylgigögn:

Fréttabréf landlæknis - notkun tóbaks og nikótíns árið 2024

6. Fundargerð Samtakahópsins (2025020056)

Fundargerð Samtakahópsins frá 27. maí 2025 lögð fram.

7. Flotinn - flakkandi félagsmiðstöð sumarið 2025 (20250601063)

Logi Þór Ágústsson og Betsý Ásta Stefánsdóttir umsjónarmenn Flotans mættu á fundinn og kynntu starf Flotans – flakkandi félagsmiðstöðvar.

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar fagnar áframhaldandi starfi Flotans – flakkandi félagsmiðstöðvar, sem er mikilvægt verkefni í vettvangsstarfi með ungmennum í bæjarfélaginu.

Flotinn gegnir lykilhlutverki í lýðheilsu- og forvarnarstarfi með því að skapa öruggt umhverfi fyrir ungmenni á kvöldin og við sérstaka viðburði, veita stuðning og beina tengingu við fagfólk á vettvangi, draga úr áhættuhegðun og styrkja félagslega stöðu ungs fólks.

Lýðheilsuráð leggur áherslu á mikilvægi þessa starfs og hvetur til áframhaldandi fræðslu, samstarfs og stuðnings við Flotann sem öflugt tæki til forvarna og félagslegrar virkni ungs fólks í Reykjanesbæ.

Fylgigögn:

Fjörflotinn


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:22. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarráðs 26. júní 2025.