27. fundur

17.11.2021 08:30

27. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 17. nóvember 2021, kl. 08:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Erindi frestað.

2. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Hlutfallslegt atvinnuleysi stóð í stað á milli september og október mánaða eða 9,8%. Þannig voru 1.102 á skrá í lok október mánaðar samanborið við 1.109 mánuðinn áður. Örlítil aukning varð í atvinnuleysi á meðal karla, úr 610 í 618 einstaklinga. Á meðan tala kvenna á skrá VMST lækkaði úr 499 í 484. Athygli vekur að skammtíma atvinnuleysi (0-6 mánaða) heldur áfram að aukast, fer úr 292 í 365 á milli mánaða.

3. Atvinnuþróunarstefna (2020010477)

Stefnumótun í fullum gangi. Málstofa um sjávartengd tækifæri var haldinn á mánudag í Hljómahöll, þar sem Halldór Karl Hermannsson, Lúðvík Börkur Gunnarsson og Ingvar Eyfjörð voru með framsögu um tækifæri og ógnanir í sveitarfélaginu.

4. Þróunarreitir (2021090502)

Reykjanesbær hefur á undanförnum árum verið eitt helsta vaxtarsvæði landsins.

Samhliða þeim vexti hefur bærinn þurft að þróast í takt við hin miklu umsvif sem fylgja þessari grósku, hvort heldur er vegna umsvifa á Keflavíkurflugvelli eða öðrum tækifærum í öflugu efnahagslífi. Þessum vexti hefur að miklu leyti verið mætt með nýjum íbúða og atvinnusvæðum.

Í grónari hverfum bæjarins eru mikil tækifæri til þróunar reita sem hafa verið bundnir við önnur not í sögulegu samhengi. Gott dæmi um þetta er reiturinn sem nú er auglýstur, Grófin 2. Þar var á sínum tíma dráttarbraut og svæði tengt fiskverkun og sjávarútvegi. Í fyllingu tímans hefur umhverfið svo þróast í aðrar áttir, léttur iðnaður í Grófinni og Duushúsin orðin menningarhús. Ef vel tekst til getur þessi reitur orðið lykill að breyttri ásýnd svæðisins og verið hluti af því að tengja Bergið og smábátahöfnina betur við Hafnargötu og Duus torfuna.

Menningar- og atvinnuráð leggur áherslu á að þróun þessara reita verði gerð að sérstökum verkefnum, þar sem áhersla verði lögð á áhrif þeirra á mannlíf, menningu og verslun.

5. Markaðsstefna (2021110284)

Gunnar Víðir Þrastarson verkefnastjóri markaðsmála mætti á fundinn.

Reykjanesbær hefur ákveðið að hrinda af stað vinnu við heildstæða markaðsstefnumótun, framtíðarsýn og aðgerðaáætlun fyrir Reykjanesbæ til næstu fimm ára. Tilgangur verkefnis er að framkvæma markaðsgreiningu og markaðslega stefnumótun fyrir Reykjanesbæ í náinni samvinnu við Súluna verkefnastofu, stjórnendur og aðra helstu hagsmunaaðila Reykjanesbæjar. Að undangegnu útboðs- og matsferli var ákveðið að ganga í samstarf við Brandr vörumerkjastofu sem hefur mikla reynslu af stefnumiðaðri vörumerkjastjórnun og vörumerkjarýni. Þessi vinna mun skila af sér tillögur að markaðsaðgerðum til að bæta ímynd Reykjanesbæjar og kynna bæinn sem öflugan valkost fyrir fólk og fyrirtæki til búsetu, atvinnu og afþreyingar. Þetta er mikilvægt verkefni sem mun hafa mikil áhrif á alla markaðstengda vinnu sem verður framkvæmd fyrir Reykjanesbæ á næstu árum.

Menningar- og atvinnuráð ítrekar nauðsyn þess að aukið fjármagn sé sett í markaðsmál svæðisins og líta beri á það sem fjárfestingu til framtíðar í atvinnuþróun. Mikilvægt er að styðja við innleiðingu á þeim stefnum sem eru í vinnslu fyrir, atvinnuþróun og markaðsstefnu.

6. Vefurinn visitreykjanesbaer.is (2021110285)

Lagt fram. Óskað var eftir athugasemdum frá ráðinu.

7. Heimsókn til Akureyrar (2021110291)

Erindi frestað.

8. Jóladagskrá 2021 (2021110286)

Dagana 22.-27. nóvember mun Bókasafn Reykjanesbæjar bjóða upp á viðburði sem miða að því að gera jólin umhverfisvænni:

Jólaskiptimarkaður þar sem allir geta mætt með notuð (en vel með farin og hrein) leikföng, spariföt og tekið sér nýja/notaða hluti heim í staðinn.

Spila og púslmarkaður. Komdu með púslin sem þú hefur púslað og spilin sem þú ert hættur að spila og skiptu á einhverju nýju og spennandi. Athugið að einungis er tekið við vel með förnum og heilum spilum og púslum.

Föstudaginn 26. nóvember opnar innpökkunarstöð í Bókasafninu. Gestir geta pakkað inn gjöfum á endurnýtanlegan hátt fyrir jólin. Allt efni verður á staðnum.

Þriðjudagur 23. nóvember kl. 18:00 : Bókasafn

Bókakonfekt barnanna – upplestur fyrir börn. Bergrún Íris Sævarsdóttir les upp úr Kennaranum sem kveikti í og Þorgrímur Þráinsson upp úr Tunglið, tunglið taktu mig. Tónlistaratriði með strengjasveit ungra nemenda frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Ráðhúskaffi býður upp á heitt súkkulaði og piparkökur. Vegna samkomutakmarkana er skráning nauðsynleg. Streymt verður frá viðburðinum á Facebook síðu Bókasafnsins. Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Fimmtudagur 25. nóvember kl. 20:00 : Bókasafn

Bókakonfekt – upplestrarkvöld fyrir fullorðna. Karl Ágúst Úlfsson, Eva Björg Ægisdóttir, Fritz Már Jörgensson og Amanda Líf Fritzdóttir lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. Tónlistaratriði með jólaívafi frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Vegna samkomutakmarkana er skráning nauðsynleg. Streymt verður frá viðburðinum á Facebook síðu Bókasafnsins. Dagskráin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Laugardagur 27. nóvember kl. 13:30 : Bókasafn

Hið árlega jólaföndur Bókasafnsins verður milli klukkan 13:30 og 16:30. Þá bjóðum við öllum áhugasömum upp á ýmiskonar pappírsföndur eins og kramarhús og jólahjörtu úr gömlum og afskrifuðum bókum. Allt efni verður á staðnum.

Aðventugarðurinn - Alla laugardaga og sunnudaga í desember og á Þorláksmessu.

Ráðhústorg og hluti skrúðgarðsins verða skreytt og boðið verður upp á óvæntar uppákomur til að gleðja gesti og gangandi. Þar verða einnig sölukofar þar sem íbúar og aðrir geta selt varning tengdan jólum. Nýtt skautasvell verður sett upp í tengslum við Aðventugarðinn ef það berst í tæka tíð til landsins.

Jólasveinaratleikur og óskalistar til jólasveinanna í desember kl. 12:00-17:00 : Duus safnahús.

Í desember stendur fjölskyldum til boða að fara í ratleik í Duus safnahúsum og leita að gömlu jólasveinunum sem hafa falið sig hér og þar um húsið. Þá er hægt að biðja Skessuna í hellinum um að koma óskalista til jólasveinanna.

Jólastofa Duus Safnahúsa í desember.

Í desember verður Bíósalnum breytt í gamaldags jólastofu og sögunni um jólatrésskemmtanir Duusverslunar fyrir um 100 árum gerð skil. Upplagt að koma með börnin og segja þeim jólasögu frá því í gamla daga og taka myndir í fallegu jólastofunni.

Fimmtudagur 2. desember : Bókasafn

Fimmtudaginn 2. desember eru Heimskonur með námskeið í sápugerð með jólaívafi. Skráning nauðsynleg og allt efni á staðnum. Notanleg jólastund með kakó og smákökum.

Skreytum saman Jólastofu, sunnudaginn 5.desember kl. 13-15:00: Duus safnahús.

Fjölskyldur búa til kramarhús, músastiga og jólahjörtu til að skreyta Jólastofuna í anda jólatrésskemmtana Duus fjölskyldunnar í upphafi 20. aldar. í lok föndurstundar er dansað í kringum jólatréð og sveinki kemur í heimsókn. Notaleg jólaföndurstund fyrir fjölskyldur. Með fyrirvara um samkomutakmarkanir.

Fimmtudagur 9. desember - Hljómsveitin Vök á tónleikum í Bergi.

Fimmtudagur 9. desember : Bókasafn

Jólaföndur fyrir fullorðna kl. 19:30. Búnir verða til gjafapokar úr endurnýtanlegu efni. Allt efni á staðnum og skráning nauðsynleg.

Á aðventunni læðist lítill álfur um Bókasafnið í skjóli nætur. Fylgist með Álfinum á samfélagsmiðlum Bókasafnsins. Hann verður á stjá frá 1.–27. desember.

Sýningin Smá-brot; Tónlist og útgáfa á Suðurnesjum verður færð í jólabúning og spiluð verður jólatónlist sem gefin er út á Suðurnesjum. Jólasýningin stendur yfir frá 22. nóvember til 6. janúar. Hluti af jólaskreytingu safnsins í ár er lítið jólaþorp sem er sett upp í lágu sýningarborði svo litla fólkið hafi góða yfirsýn yfir verkið.

Bókasafnið er opið frá kl. 9:00–18:00 alla virka daga og 11:00–17:00 á laugardögum. Allir viðburðir eru ókeypis, á einhverja er skráning nauðsynleg en öll eruð þið hjartanlega velkomin í Bókasafnið.

Jólasveinn dagsins, 12.-24. desember.

Stekkjastaur kemur til byggða þann 12. desember og bræður hans einn af öðrum á hverjum degi til jóla. Þeir munu koma við í Duus safnahúsum daglega til jóla og bregða á leik. Hægt verður að fylgjast með uppátækjum þeirra á Facebook síðu Duus safnahúsa á hverjum degi.

16. desember - Ari Eldjárn með uppistandssýninguna Áramótaskop. Uppselt er á fyrri sýningu og búið er að bæta við aukasýningu.

Þrettándagleði fimmtudaginn 6. janúar: Hátíðarsvæði við Hafnargötu 12.

Þrumandi þrettándagleði. Blysför frá Myllubakkaskóla, gengið að hátíðarsvæði við Hafnargötu í fylgd álfa og púka þar sem Grýla gamla tekur á móti gestum. Brenna og flugeldasýning og heitt kakó og piparkökur til að halda hita á mannskapnum.

9. Aðventugarðurinn (2021090523)

Undirbúningi fyrir Aðventugarðinn miðar vel og hefur vel á fjórða tug umsókna borist um þátttöku í verkefninu sem er afar ánægjulegt.

Menningarfulltrúi hefur gengið frá kaupum á tilbúnu skautasvelli fyrir tilstuðlan fjárveitingar sem fékkst úr verkefninu Betri Reykjanesbær. Skautasvellið verður hluti af Aðventugarðinum og liður í þróun hans og ætlað að skapa íbúum og gestum ævintýralega og skemmtilega upplifun tengda aðventu og jólum. Flutningur á skautasvellinu til landsins er nú í vinnslu en fyrirséðar tafir eru á því ferli sökum þess ástands sem nú ríkir í gámaflutningum á alþjóðavísu. Því er nauðsynlegt að setja ákveðinn fyrirvara á að hægt verði að setja skautasvellið upp fyrir þessi jól en jákvætt að margt gott er í vændum í Aðventugarðinum.

10. List án landamæra 2021 (2021110288)

Ráðið óskar Jönu Birtu Björnsdóttur til hamingju með fyrstu einkasýningu sína, Meira en þúsund orð, sem er liður í listahátíðinni List án landamæra. Sýningin er haldin í Bíósal Duus Safnahúsa og er samstarfsverkefni Listasafns Reykjanesbæjar og menningarfulltrúa. List Jönu Birtu hefur pólitíska og félagslega skírskotun í samtímann. Hún gerir málefni fatlaðs fólks að umfjöllunarefni og túlkar á myndrænan hátt hugmyndir, tilfinningar og baráttumál feminískrar fötlunarhreyfingar sem nefnist Tabú. Hreyfingin vinnur að félagslegu réttlæti gegn margþættri mismunum gagnvart fötluðu fólki og hefur Jana Birta verið meðlimur samtakanna um nokkurt skeið. Sýningin stendur til 21. nóvember og hvetur ráðið alla til að sjá hana og þau mikilvægu skilaboð sem hún felur í sér.

11. Menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2021 (2021090213)

Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, verður afhent við hátíðlega athöfn í Duus Safnahúsum laugardaginn 20. nóvember kl. 14:00. Ráðið hvetur alla velunnara menningarlífs í Reykjanesbæ til að vera viðstadda. Víkurfréttir munu einnig sjá um að streyma frá athöfninni og því ættu allir áhugasamir að geta fylgst með þegar hulunni verður svipt af næsta menningarverðlaunahafa. Víkurfréttir vinna nú einnig í samstarfi við menningarfulltrúa að ítarlegri umfjöllun um Súluhafann sem sýnt verður í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta þann 24. nóvember.

12. Menningarsjóður 2021 (2021010178)

Í mars sl. var úthlutað úr menningarsjóði til ákveðinna menningarverkefna sem til stóð að framkvæma á árinu. Vegna Covid er ljóst að ekki tókst að ljúka öllum verkefnum sem styrkir voru veittir til. Menningarfulltrúi óskar eftir að fá að nýta fjármuni vegna styrkja sem annars falla niður, til að greiða fyrir viðburði eða önnur menningartengd verkefni í tengslum við Aðventugarðinn.

Menningar- og atvinnuráð tekur undir ósk menningarfulltrúa um að nýta fjármuni vegna styrkja sem annars falla niður. Erindi vísað til bæjarráðs.

13. Menningarviðburðir (2021110297)

Leikfélag Keflavíkur

Ráðið óskar Leikfélagi Keflavíkur til hamingju með einstaklega metnaðarfulla starfsemi og frumsýningu á leikritinu Fyrsti kossinn sem er skrifað af Brynju Ýr Júlíusdóttur og Guðlaugi Ómari Guðmundssyni til heiðurs Rúnari Júlíussyni í leikstjórn Karls Ágústs Úlfssonar. Ráðið hvetur íbúa til að fjölmenna á sýningu leikfélagsins.

Kvennakór Suðurnesja

Ráðið óskar Kvennakór Suðurnesja til hamingju með virkilega vel heppnaða Bíótónleika í Bíósal Duus Safnahúsa í september.

Alexandra Chernyshova

Ráðið óskar menningarverðlaunahafa Reykjanesbæjar 2020, Alexöndru Chernyshovu, innilega til hamingju með frumflutning á óperu sinni Góðan daginn frú forseti í október sl. Um var að ræða frumsamda óperu í þremur þáttum um ævi og störf fyrsta kvenforseta í heimi, frú Vigdísi Finnbogadóttur.

14. Bókasafn Reykjanesbæjar (2021010359)

Dagana 28. - 30. október var boðið upp á Hrikalega uppvakningaleit í geymslu á neðri hæð bókasafnsins. Þar var hughraustum boðið að leita uppvakninga með vasaljós að vopni. Upplestur Ævars Þórs vísindamanns úr sögunni Skólaslit var látinn hljóma ásamt smá kryddi af hrollvekjandi hljóðum sem starfsfólk safnsins settu saman. Um 600 börn og fullorðnir fóru í gegnum leitina og 300 svör bárust um fjölda uppvakninga, en hægt var að skrá á miða og taka þátt í lukkupotti þar sem einn þátttakandi hlaut verðlaun. Sá heppni var Adam Bjarki í 7. KI í Myllubakkaskóla og fékk hann í verðlaun nýjustu bók Ævars vísindamanns, Þín eigin ráðgáta. Dagskrágerðarfólk frá RÚV komu í heimsókn og tók upp innslag fyrir þáttinn Landann. Þátturinn var sýndur sunnudaginn 7. nóvember á RÚV.

15. Pólsk menningarhátíð 2021

Reykjanesbær hefur haldið Pólska menningarhátíð í byrjun nóvember frá árinu 2018 en þjóðhátíðardagur Pólverja er 11. nóvember. Í ár stóð til að halda stóran viðburð í Andrews leikhúsinu á Ásbrú en á síðustu stundu þurfti að fella hann niður vegna stöðunnar á Covid faraldrinum. Brugðist var við þessu með því að minnast hátíðarinnar með öðrum hætti vikuna 8.-12. nóvember. Fjörheimar stóðu m.a. fyrir metnaðarfullri dagskrá fyrir ungmenni sem tengdist pólskum matvælum, sælgæti, menningu og listum. Bókasafn Reykjanesbæjar kom fyrir pólskum og íslenskum ljóðum meðfram strandleiðinni vegfarendum til yndisauka. Loks tók Tónlistarskóli Reykjanesbæjar þátt í dagskránni með útgáfu tónlistarmyndbands þar sem fram kom Jass-Combo tónlistarskólans sem flutti m.a. Pod Papugami eftir Czeslaw Niemen sem er þekkt pólskt jazz dægurlag. Combóið skipuðu þau Alexander Fryderyk Grybos, Rozalia Maria Mietus, Karl Snorri Einarsson, Jón Böðvarsson, Magnús Már Newman og Sigurður Baldvin Ólafsson. Kennari þeirra er Aron Örn Óskarsson. Markmiðið með Pólskri menningarhátíð er annars vegar að styrkja samfélagsheildina og félagslega þátttöku íbúa óháð uppruna og hins vegar að stuðla að jákvæðum viðhorfum í garð pólskrar menningar og íbúa af pólskum uppruna. Við erum stolt af þeim fjölbreytileika sem ríkir í samfélagi Reykjanesbæjar og tökum honum fagnandi. Verkefnisstjóri fjölmenningar er verkefnisstjóri hátíðarinnar sem unnin er í samstarfi við menningarfulltrúa.

16. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerð neyðarstjórnar lögð fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða fundargerð neyðarstjórnar

17. Mælaborð Súlunnar (2021030231)

Mælaborð Súlunnar lagt fram.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. desember 2021.