368. fundur

15.12.2023 08:15

368. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 15. desember 2023 kl. 08:15

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Ásgerður Þorgeirsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Brynja Aðalbergsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna D. Hermannsdóttir fulltrúi leikskólakennara, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Sigurbjörg Róbertsdóttir grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Jóhanna Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara boðaði forföll og sat Anna D. Hermannsdóttir fundinn í hennar stað.

Anita Engley Guðbergsdóttir boðaði forföll.

Velferðarráð samþykkti samhljóða að taka á dagskrá málið Leikskólar og dagforeldrar (2023040132). Fjallað er um málið undir dagskrárlið 7.

1. Frístundaakstur (2023100180)

Forstöðufólk frístundaheimila Reykjanesbæjar, þau Laufey Ragnarsdóttir, Íris Guðnadóttir, Arna Lind Kristinsdóttir og Arnar Freyr Smárason mættu á fundinn og kynntu stöðu mála varðandi frístundaakstur.

Menntaráð þakkar forstöðufólki frístundaheimila Reykjanesbæjar fyrir komuna og erindið. Hópurinn hafði áður hitt íþrótta- og tómstundaráð þann 14. nóvember síðastliðinn þar sem málinu var frestað og beðið um nánari upplýsingar. Menntaráð tekur undir áhyggjur forstöðumanna er lúta að öryggi barna. Menntaráð mun leitast eftir að funda sameiginlega með íþrótta- og tómstundaráði til nánari skoðunar á málinu sem allra fyrst.

2. Starfsáætlanir leikskóla 2023 - 2024 (2023120014)

Starfsáætlanir leikskóla Reykjanesbæjar fyrir starfsárið 2023-2024 lagðar fram til kynningar.

Menntaráð þakkar leikskólum Reykjanesbæjar fyrir metnaðarfullar starfsáætlanir. Gott er að sjá heildaryfirlit yfir það mikilvæga og faglega starf sem unnið er í leikskólum bæjarins. Auk þess er mjög upplýsandi að sjá töluleg gögn hvers leikskóla líkt og fjölda erlendra barna, fjölda barna með stuðningsþarfir og nánari greiningu á menntun starfsfólks.

Fylgigögn:

Starfsáætlun Akurs 2023-2024
Starfsáætlun Garðasels 2023-2024
Starfsáætlun Gimli 2023-2024
Starfsáætlun Heiðarsels 2023-2024
Starfsáætlun Hjallatúns 2023-2024
Starfsáætlun Holts 2023-2024
Starfsáætlun Skógaráss 2023-2024
Starfsáætlun Tjarnarsels 2023-2024
Starfsáætlun Vesturbergs 2023-2024
Starfsáætlun Vallar 2023-2024

3. Leikgleði með sögum og söng - skólaþróunarverkefni (2023050558)

Ólöf Kristín Guðmundsdóttir kennsluráðgjafi kynnti skólaþróunarverkefnið Leikgleði með sögum og söng sem er samstarfsverkefni allra leikskóla í Reykjanesbæ og Bókasafns Reykjanesbæjar. Markmið verkefnisins er að styrkja hugtakaskilning, orðaforða, hlustunarskilning og frásagnarhæfni leikskólabarna með málörvandi aðferðum sem byggja á leik, söng og virkni.

Menntaráð þakkar Ólöfu fyrir kynningu á verðugu og spennandi verkefni. Fróðlegt verður að fylgjast með framgangi verkefnisins og fagnar menntaráð því góða samstarfi sem einkennir leikskóla Reykjanesbæjar auk samstarfs við bókasafnið okkar.

Fylgigögn:

Leikgleði með sögum og söng - kynning

4. Leyfi fyrir daggæslu barna í heimahúsi (2023090693)

Lögð fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Sigurbjörgu Ástu Halldórsdóttur.

Starfsleyfið er veitt.

5. Uppbygging leikskóla (2023020148)

Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður menntaráðs kynnti stöðuna varðandi uppbyggingu leikskóla í sveitarfélaginu.

6. PISA 2022 (2023120192)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir niðurstöður PISA 2022. Könnunin mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði.

Menntaráð þakkar sviðsstjóra góða yfirferð um PISA könnunina frá 2022.

PISA könnunin mælir læsi nemenda við lok skólaskyldu, er framkvæmd í alls 81 landi en OECD stendur fyrir könnuninni. Til að hægt sé að átta sig nánar á stöðunni telur menntaráð mikilvægt að niðurstöður PISA könnunarinnar verði rýndar til gagns af sviðsstjóra menntasviðs og skólastjórnendum Reykjanesbæjar. Telur menntaráð það mikilvægt til að hægt sé að átta sig betur á núverandi útkomu könnunarinnar en aðallega til að hægt sé að rýna hvað betur megi fara og þá með hvaða úrræðum.

Með því að smella hér má skoða niðurstöður PISA 2022 á vef Menntamálastofnunar

7. Leikskólar og dagforeldrar (2023040132)

Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður menntaráðs lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta vegna fyrirspurnar fulltrúa D-lista á fundi ráðsins 10. nóvember 2023:

Á síðasta fundi menntaráðs lagði fulltrúi Sjálfstæðisflokksins fram eftirfarandi bókun:

„Með opnun tveggja 120 barna leikskóla þarf að huga að starfsfólki og ég velti fyrir mér hvort það sé byrjað að meta hver starfsmannaþörfin er á faglærðu og ófaglærðu starfsfólki og hvenær og hvernig verður farið í þær aðgerðir. Hefur það verið metið hver fjölgun leikskólaplássa í Reykjanesbæ verður á næstu 2 árum í ljósi lokana og viðhalds á núverandi leikskólum og er raunhæft að meðalaldur barna sem fær leikskólapláss í bænum fari lækkandi með opnun leikskólanna næsta haust?“

Þessi umrædda bókun var rædd í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 21. nóvember síðastliðinn þar sem bætt var við eftirfarandi:

„Samkvæmt tölum Hagstofunnar sést glöggt að aldur barna, sem komast inn á leikskóla, er hærri hjá Reykjanesbæ en á öðrum stöðum á landinu. Sjálfstæðisflokkurinn leggur því áherslu á að stigið sé fast til jarðar í þessum málum og viðurkennt að við erum eftirbátar annarra sveitarfélaga í leikskólamálum“.

Meirihluti bæjarstjórnar svaraði með eftirfarandi bókun:

„Vegna bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vill meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar árétta eftirfarandi. Unnið hefur verið hörðum höndum að því að styrkja stöðu leikskólakerfisins í bæjarfélaginu á undanförnum misserum. Haustið 2024 er ráðgert að heildarleikskólapláss í sveitarfélaginu verði 1.191 og áætlaður fjöldi barna 18 mánaða og eldri á leikskólaaldri út frá Íbúasýn eru 1.164 í lok ágúst 2024. Það er því ljóst að meðalaldur barnanna mun fljótt fara lækkandi. Markmið meirihluta bæjarstjórnar er að ná inn 18 mánaða börnum inn á leikskóla á þessu kjörtímabili og miðað við fyrirliggjandi gögn mun það markmið nást haustið 2024. Haustið 2024 munu tveir leikskólar opna, annars vegar leikskólinn í Drekadal sem og leikskólinn í Hlíðarhverfi. Þessir tveir leikskólar fjölga leikskólaplássum um 150.“

Meirihluti menntaráðs vill svara þessu erindi hér formlega þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í menntaráði bar bókunina upp hér. Ljóst er að bókuninni var svarað þegar hún var borin upp í bæjarstjórn en auk þess viljum við bæta formlega við svarið hér.

Þegar hefur verið auglýst staða leikskólastjóra við leikskólann í Drekadal sem mun opna í ágúst 2024. Áætlað er að ráða frá 1. febrúar 2024. Viðkomandi leikskólastjóri mun halda utan um ráðningar starfsfólks í samstarfi við leikskólafulltrúa. Hvað varðar fjölda faglærðra verður lögð áhersla á að manna sem flestar stöður með leikskólakennurum eða öðru uppeldismenntuðu starfsfólki.

Leikskólinn í Hlíðarhverfi mun að mestu leyti verða mannaður af starfsfólki frá Garðaseli. Við flutninginn munu bætast við um það bil 5-6 stöðugildi.

Taka skal fram að Reykjanesbær hefur boðið ófaglærðu starfsfólki í leikskólum sem fer í leikskólakennaranám að gera námssamning. Samningurinn gefur starfsfólki kost á að halda óskertum launum þegar það er frá vinnu vegna náms s.s í námslotum, vettvangsnámi og prófum. Í september 2023 voru 28 starfsmenn í leikskólum bæjarins í leikskólakennaranámi með starfi, þar af 12 nýnemar, og er mjög ánægjulegt hversu mikill áhugi er fyrir náminu meðal starfsfólks. Einnig má nefna að þessi samningur er í boði fyrir þau sem stunda nám í þroskaþjálfun og uppeldis- og menntunarfræðum í HÍ.

Það er þó gott að hafa í huga að ýmsar breytur hafa þarna áhrif, t.d. fólksflutningar til bæjarins og fjölgun barna frá Grindavík, en þaðan eru komin 32 börn sem eru viðbót við þann barnafjölda sem þegar var inni í leikskólunum.

Að lokum ber að nefna að fjárhags- og fjárfestingaráætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2024 var samþykkt í vikunni en þar var samþykkt fjármagn til að breyta Skólavegi 1 í leikskólaútibú frá Tjarnarseli sem rúmar um 25 börn. Gert er ráð fyrir að Skólavegur 1 muni opna á árinu 2024 líkt og leikskólinn við Drekadal og leikskólinn við Hlíðarhverfi. Auk þess er gert ráð fyrir niðurrifi Garðasels á næsta ári og er stjórn Eignasjóðs þegar komin með erindi sem snýr að hönnun á nýjum leikskóla í Keflavík.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar er að stíga fast til jarðar við það að fjölga leikskólaplássum í sveitarfélaginu okkar á sama tíma og við erum að fara langt í viðleitni okkar við að fjölga faglærðu starfsfólki og styðja þau til frekara náms. Meirihluti bæjarstjórnar stofnaði stýrihóp í uppbyggingarmálum leik- og grunnskóla þar sem farið er reglulega yfir stöðu uppbyggingar mannvirkja og næstu skref. Minnihlutanum hefur verið boðin þátttaka í þeim fundum. Meirihlutinn hefur sett sér það markmið að leikskólar Reykjanesbæjar muni taka við allt að 18 mánaða gömlum börnum á kjörtímabilinu sem lýkur árið 2026 eða eftir tvö og hálft ár og teljum við að þeim markmiðum verði náð og munum gera allt í okkar valdi til að svo verði.

Guðný Birna Guðmundsdóttir, Sighvatur Jónsson og Halldór Rósmundur Guðjónsson.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:22. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 9. janúar 2024.