16.10.2020 08:15

258. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn þann 16. október 2020 kl. 08:15

Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Gunnar Felix Rúnarsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Ríkharður Ibsen, Róbert Jóhann Guðmundsson, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson deildarstjóri byggingar- og skipulagsmála, Maríanna Hvanndal Einarsdóttir sérfræðingur umhverfisviðs, Sigmundur Eyþórsson tæknifræðingur og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

1. Kynning: Umferðar- og samgönguáætlun Reykjanesbæ (2019120216)

Efla verkfræðistofa hefur framkvæmt umferðartalningu og unnið greiningu á gönguleiðum skólabarna. Berglind Hallgrímsdóttir og Elín Ríta Sveinbjörnsdóttir frá Eflu verkfræðistofu kynntu verkefnið.

2. Afgreiðslu- og samráðsfundur byggingafulltrúa nr. 292 og 293 (2020010081)

Lagðar fram til kynningar fundargerð nr. 292, dagsett 2. október 2020 í 1 lið og fundargerð nr. 293, dagsett 12. október 2020 í 4 liðum með fullnaðarafgreiðslum erinda.

Fylgigögn: 

Afgreiðslu- og samráðsfundur byggingafulltrúa nr. 292
Afgreiðslu- og samráðsfundur byggingafulltrúa nr. 293

3. Njarðvíkurhöfn – skipulagsmál (2020100160)

Stefnt er að uppbyggingu við Njarðvíkurhöfn og nærsvæði með stækkun skipasmíðastöðvar, nýjum viðlegukanti og þjónustubyggingum. Áform um stækkun hafa verið á döfinni í nokkurn tíma en komið hefur fram leið til að hefja uppbygginguna hraðar og hagkvæmar en áður var talið en mikilvægur hluti þess er að ferlið tefjist sem minnst.

Óskað er heimildar fyrir breytingar á aðalskipulagi fyrir þetta svæði og að gert verði nýtt deiliskipulag, ásamt matsskyldu fyrirspurn, með sömu afmörkun og kemur fram í áætlun Kanon arkitekta og VSÓ ráðgjafar dagsett í október 2020. Jafnframt verði veitt heimild til að unnið verði rammaskipulag sem tæki til alls hafnarsvæðisins (H4) og athafnasvæðis (AT9).

Einnig er unnið að heildarendurskoðun aðalskipulags þar sem hafnarsvæðið er skilgreint nánar og sú breyting sem unnin er núna verði felld þar undir þegar endurskoðun er lokið.

Erindi samþykkt.

Fylgigögn:

Áætlun Njarðvíkurhöfn, skipulag og matsskylda
Skipaþjónustuklasi á Norðurslóðum

4. Íshússtígur 6 - Fyrirspurn um byggingu á lóð (2020100162)

Gunnar Már Másson óskar heimildar til að reisa íbúðarhús á lóð sinni Íshússtíg 6 samkvæmt tillögu Davíðs Hildibergs arkitekts dagsett í október 2020.

Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 2.

Fylgigögn:

Íshússtígur 6 fyrirspurn

5. Kirkjugarður og safnaðarheimili í Njarðvík - breytt deiliskipulag (2019090660)

Njarðvíkurkirkja og safnaðarnefnd leggja fram deiliskipulagstillögu Landslags ehf. dags. 12.10.2020 fyrir Kirkjugarð Njarðvíkur, sem gerir ráð fyrir stækkun kirkjugarðsins, nýju þjónustuhúsi og stækkun safnaðarheimilis.

Ráðið veitir heimild til að auglýsa deiliskipulagstillöguna og haldinn verði íbúafundur á auglýsingatíma.

Fylgigögn: 

Deiliskipulag

6. Dalsbraut 32-36 - ósk um fækkun bílastæða (2019120016)

Miðbæjareignir ehf. óska eftir að bílastæðakrafa verði lækkuð úr 1,8 í 1,6 stæði á íbúð í samræmi við uppdrátt dags 8. júní 2020, lýsingu á aðstæðum og yfirlit um bílastæðanýtingu dagana 5.-13. október 2020.

Málinu frestað.

Fylgigögn:

Dalsbraut 32-36 - bílastæðamál

7. Þrastartjörn 38-48 - Fyrirspurn um fjölgun íbúða (2020100163)

Ás - smíði byggingafélag ehf. óskar eftir heimild til að breyta deiliskipulagi þ.a. stakstæðir bílskúrar falli út en verði sjálfstæðar íbúðir í samræmi við tillögur dags 12. desember 2019. Sé tekið vel í erindið verður það þróað lengra.

Málinu frestað.

Fylgigögn:

Þrastartjörn 38-48 tillaga 1 og 2

8. Faxabraut 27 – Fyrirspurn (2020100164)

Slökkvitæki ehf. óska heimildar til að breyta verslunarrými við Faxabraut 27 í fjórar íbúðir, allar með sér inngang og bílastæði sem verða við Hringbraut í samræmi við uppdrátt Tækniþjónustu SÁ dags 7. október 2020.

Samþykkt að senda í grenndarkynningu skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 2 og að meðeigendasamþykki liggi fyrir skv. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Fylgigögn:

Faxabraut 27

9. Hafnargata 31 – Skábraut (2020100165)

Lögmenn Garðar og Vilhjálmur sf. óska eftir heimild til að koma fyrir skábraut við húsnæði sitt og breytingum á bílastæðafyrirkomulagi við Hafnargötu 31 í samræmi við tillögu Riss ehf. dags 28. september 2020.

Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 2.

Fylgigögn:

Hafnargata 31 - Skábraut A190-3

10. Tjaldsvæði í Reykjanesbæ (2020100171)

Lagt er fram minnisblað verkefnastjóra ferðamála dags. 8. október sl. um tjaldsvæði í Reykjanesbæ þar sem óskað er umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs.

Gunnari K. Ottóssyni skipulagsfulltrúa er falið að taka saman minnisblað um mögulega staðsetningu fyrir nýtt tjaldsvæði í Reykjanesbæ og leggja mat á mögulega staði.

Gunnar Felix Rúnarsson leggur fram eftirfarandi bókun:

„Miðflokkurinn fagnar þessum frábæru tillögum og er í raun óskiljanlegt að það skuli ekki vera nú þegar til aðstaða fyrir þennan markhóp.

Það er grundvallarþjónusta að hvert bæjarfélag reki tjaldsvæði. Slíkt eflir og frjóvgar hvert samfélag, eykur þjónustu og listalíf. Það er öllum til hagsbóta að þessi hugmynd verði að veruleika fyrir næsta sumar“.

11. Fundargerðir neyðarstjórnar (2020030192)

Lagðar fram fundargerðir neyðarstjórnar Reykjanesbæjar.

Með því að smella hér opnast fundargerðir neyðarstjórnar   


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. október 2020.