442. fundur

10.04.2025 13:00

442. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 10. apríl 2025 kl. 13:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Ásta Kristín Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason og Eyjólfur Gíslason.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, Frosti Kjartan Rúnarsson fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Birna Ósk Óskarsdóttir boðaði forföll og sat Bjarni Páll Tryggvason fundinn í hennar stað. Katrín Alda Ingadóttir boðaði forföll og sat Frosti Kjartan Rúnarsson fundinn í hennar stað.

1. Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna (2023050248)

Eydís Rós Ármannsdóttir verkefnastjóri mætti á fundinn og kynnti stöðu innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna hjá Reykjanesbæ.

Velferðarráð þakkar fyrir góða kynningu á þessu mikilvæga málefni. Ráðið leggur áherslu á mikilvægi þess að allir hagaðilar taki virkan þátt í verkefninu og vinni saman að því að tryggja farsæld barna í Reykjanesbæ. Jafnframt hvetur ráðið til þess að reglulegar mælingar á árangri og ávinningi verkefnisins fari fram, þannig að unnt sé að fylgjast með þróuninni og bera saman árangur milli ára.

2. Skjólið - húsnæðismál (2025010187)

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis og Lára Hanna Halldórsdóttir deildarstjóri mættu á fundinn. Lögð fram beiðni um að starfsemi Skjólsins, eftirskólaúrræðis fyrir börn og ungmenni með stuðningsþarfir, verði færð í þann hluta húsnæðisins að Grænásbraut 910 sem leikskólinn Drekadalur er nú starfræktur í, þegar leikskólinn flytur í nýtt húsnæði. Skjólið hefur nú aðstöðu í 88 húsinu en það húsnæði hentar illa fyrir starfsemina.

Velferðarráð telur mikilvægt að Skjólið fái viðunandi aðstöðu sem hentar starfseminni og óskar jafnframt eftir að orðið verði við beiðni velferðarsviðs þar til varanleg lausn finnst á húsnæðismálum Skjólsins.

3. Ævintýrasmiðjur - sumarstarf Skjólsins (2025040137)

Lára Hanna Halldórsdóttir deildarstjóri og Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, mættu á fundinn og kynntu breytingu á þjónustutíma Ævintýrasmiðju, sumarstarfs fyrir börn með auknar stuðningsþarfir. Skipulögð starfsemi Ævintýrasmiðjunnar verður frá 13. júní til 31. júlí í sumar og opnunartími verður frá 8-16 mánudaga til fimmtudaga og 8-12 á föstudögum.

4. Faxabraut 13 - þjónustumiðstöð fyrir börn og vistheimili barna (2024040173)

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskyldudeildar, Lára Hanna Halldórsdóttir deildarstjóri og Henný Úlfarsdóttir teymisstjóri barnaverndarþjónustu mættu á fundinn. Velferðarsvið óskar eftir heimild velferðarráðs til að fá eignaumsýslu Reykjanesbæjar til að forhanna húsnæðið að Faxabraut 13, þar sem nú er starfandi hjúkrunarheimilið Hlévangur, vegna beiðni um notkun húsnæðisins fyrir lögbundna þjónustu við börn. Faxabraut 13 myndi nýtast annars vegar sem þjónustumiðstöð fatlaðra barna og hins vegar sem vistheimili barna. Verkefnið hefur fengið vinnuheitið Fjölskylduhús.

Velferðarráð styður beiðni velferðarsviðs um að fá eignaumsýslu Reykjanesbæjar til að forhanna húsnæðið að Faxabraut 13. Ráðið telur að notkun á húsnæðinu sé raunhæfur og góður kostur og henti vel fyrir fyrirhugaða starfsemi.

5. Dagdvalir aldraðra (2024050055)

Margrét Arnbjörg Valsdóttir, teymisstjóri öldrunar- og stuðningsþjónustu og Kristín M. Hreinsdóttir deildarstjóri dagdvala mættu á fundinn og kynntu tillögu að hönnun dagdvalar á jarðhæð þjónustumiðstöðvarinnar á Nesvöllum. Farið yfir kosti og galla við sameiningu dagdvala.

6. Erindisbréf fyrir samráðshóp um málefni fatlaðra (2019120096)

Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra, mætti á fundinn og kynnti erindisbréf samráðshóps um málefni fatlaðra.

Velferðarráð samþykkir erindisbréfið fyrir sitt leyti.

7. Fundargerð Samtakahópsins 2. apríl 2025 (2025020056)

Fundargerð Samtakahópsins lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 2. apríl 2025

8. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 7. apríl 2025 (2025020033)

Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 22. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar 7. apríl 2025

9. Fjárhagsaðstoð og sérstakur húsnæðisstuðningur - tölulegar upplýsingar (2025020181)

Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í mars 2025 lagðar fram.

Fjárhagsaðstoð

Í mars 2025 fengu 134 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 21.918.875 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali um 163.573 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð voru 41.

Í sama mánuði 2024 fékk 271 einstaklingur greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 53.930.589 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali 199.006 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð voru 97.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í mars 2025 fengu 264 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.689.664 kr.

Í sama mánuði 2024 fengu 318 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.853.998 kr.

Áfrýjunarnefnd

Í mars 2025 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 12 erindi lögð fyrir nefndina. 10 erindi voru samþykkt, 1 erindi frestað og 1 erindi var synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:52. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. apríl 2025.