445. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 14. ágúst 2025 kl. 13:00
Viðstaddir: Birna Ósk Óskarsdóttir varaformaður, Andri Fannar Freysson, Ásta Kristín Guðmundsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll og sat Guðný Birna Guðmundsdóttir fundinn í hennar stað.
1. Samstarfsvettvangurinn EXIT - leið út úr afbrotum (2025080134)
Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá Ríkislögreglustjóra, Guðmundur Ingi Þóroddsson, Sigríður Ella Jónsdóttir og Ingvi Kristinn Skjaldarson, fulltrúar undirbúningsteymis verkefnisins mættu á fundinn og kynntu EXIT – leið út úr afbrotum, sem er samstarfsverkefni milli lögreglu, fangelsisyfirvalda, sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Vinnumálastofnunar, endurhæfingaraðila, menntastofnana og félagasamtaka. Markmið EXIT er að draga út ítrekunartíðni brota með samhæfðum úrræðum og stuðningi við einstaklinga sem hafa framið afbrot.
Velferðarráð þakkar fyrir kynninguna. Ráðið tekur jákvætt í erindið og felur sviðsstjóra velferðarsviðs og teymisstjóra virkni- og ráðgjafarteymis að afla upplýsinga í samræmi við umræður á fundinum.
2. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd (2024100122)
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis fór yfir stöðu á verkefnaskilum og uppgjöri vegna uppsagnar Vinnumálastofnunar á samningi við Reykjanesbæ um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem tók gildi 1. ágúst 2025.
3. Smáhúsaverkefnið við Hákotstanga - lokaskýrsla 2025 (2023070008)
Lokaskýrsla starfshóps um undirbúning og framkvæmd við uppbyggingu fyrsta áfanga smáhúsa hjá Reykjanesbæ lögð fram. Verkefni starfshóps voru meðal annars að finna staðsetningu fyrir smáhúsin, skoða stærð og tegund húsa, greina haghafa og eiga samtal við þá, gera greiningu á nauðsynlegri stuðningsþjónustu við íbúa og framkvæmd þjónustunnar.
Velferðarráð þakkar starfshópnum fyrir vel unnin störf.
Fylgigögn:
4. Reglur um notendasamninga - drög (2024030016)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks, mætti á fundinn og lagði fram drög að reglum Reykjanesbæjar um beingreiðslusamninga við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Velferðarráð felur verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks að vinna málið áfram.
5. Ábending Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um styrki (2024030016)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks, mætti á fundinn og lagði fram drög að reglum Reykjanesbæjar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir.
Velferðarráð felur verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks að vinna málið áfram.
6. Ársskýrsla umdæmisráðs barnaverndar 2024 (2021120037)
Ársskýrsla umdæmisráðs barnaverndar fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum, Árborg og félagsþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu fyrir árið 2024 lögð fram.
Fylgigögn:
7. Ársskýrsla Suðurhlíðar 2024-2025 (2025080136)
Ársskýrsla Suðurhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, fyrir starfsárið 2024-2025 lögð fram. Miðstöðin er afrakstur víðtæks samstarfs ellefu aðila á Suðurnesjum sem sameinuðust um að efla stuðning og úrræði fyrir þolendur ofbeldis og annarra afbrota.
Fylgigögn:
8. Umsagnarmál í samráðsgátt stjórnvalda (2025010342)
a. Áform um frumvarp til laga um brottfararstöð
Minnisblað til upplýsingar um áform dómsmálaráðuneytisins um frumvarp til laga um brottfararstöð lagt fram.
b. Áform um frumvarp til laga um málefni innflytjenda
Umsögn sviðsstjóra velferðarsviðs um áform um frumvarp til laga um málefni innflytjenda rædd. Velferðarráð felur sviðsstjóra að senda inn umsögn í samræmi við umræður á fundinum.
c. Áform um frumvarp til laga um öryggisráðstafanir samkvæmt dómsúrlausn
Lagt fram.
9. Fjárhagsaðstoð og sérstakur húsnæðisstuðningur - tölulegar upplýsingar (2025020181)
Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í júní og júlí 2025 lagðar fram.
Fjárhagsaðstoð
Í júní 2025 fengu 128 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ.
Alls voru greiddar 22.477.552 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali um 175.606 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 37.
Í júlí 2025 fengu 115 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ.
Alls voru greiddar 16.066.148 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali 139.706 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 49.
Í júní og júlí 2024 fengu 329 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 66.373.019 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali hvorn mánuð 33.186.509 kr. sem svarar um 201.742 kr. á hvern einstaklinga. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð var 101.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í júní 2025 fengu 277 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.568.645 kr.
Í sama mánuði 2024 fengu 278 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 10.547.708 kr.*
Í júlí 2025 fengu 278 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.568.645 kr.
Í sama mánuði 2024 fengu 276 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 10.475.697 kr.*
*Þann 17. maí 2024 samþykkti Alþingi breytingar á lögum um húsnæðisbætur nr. 75/2016 til að styðja við nýgerða kjarasamninga til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði og hækkaði almennar húsnæðisbætur til að auka ráðstöfunartekjur þeirra heimila og draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda. Reykjanesbær samþykkti að gera breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins með það að markmiði að framangreindur stuðningur skilaði sér til efnaminni leigjenda og hækkaði viðmiðunarmörk sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélagsins til samræmis við hækkun almennra húsnæðisbóta en auk þess tók breytingin tillit til stærri heimila og bættust við tveir flokkar. Í júní og júlí er verið að gera leiðréttingar til leigjenda vegna þessara breytinga sem skýrir hærri upphæðir sérstaks húsnæðisstuðnings í júní og júlí 2024.
Áfrýjunarnefnd
Í júní 2025 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 9 erindi lögð fyrir nefndina. 6 erindi voru samþykkt, 1 erindi frestað og 2 erindum var synjað.
Í júlí 2025 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 12 erindi lögð fyrir nefndina. 8 erindi voru samþykkt, 1 erindi frestað og 3 erindum var synjað.
10. Skjólið - þjónusta við upphaf skólagöngu 2025 (2025010187)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir stöðuna í húsnæðismálum og þjónustu við upphaf skólagöngu 2025 hjá Skjólinu, frístundaúrræði fyrir börn og ungmenni með langvarandi stuðningsþarfir í 5.-10. bekk og framhaldsskóla.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:55. Fundargerðin fer til samþykktar bæjarstjórnar 19. ágúst 2025.