Jólakofinn 2019

Félagasamtökum og einstaklingum stendur nú til boða að fá afnot af jólakofa á aðventu til að selja …
Félagasamtökum og einstaklingum stendur nú til boða að fá afnot af jólakofa á aðventu til að selja varning.

Reykjanesbær og Betri bær, samtök verslana og fyrirtækja í miðbæ Reykjanesbæjar, hafa tekið höndum saman um að vinna að skemmtilegri jólastemningu í miðbænum í desember. Liður í því er Jólakofinn 2019. Skreyttum kofa verður komið fyrir á gangstéttinni á milli Hafnargötu 26 – 28. Þar gefst áhugasömum kostur á að selja eða bjóða upp á ýmislegt skemmtilegt tengt jólum svo sem handverk, smákökur, kerti, heitt súkkulaði, laufabrauð eða ýmislegt annað sem fólki dettur í hug. Jólakofinn gæti þannig verið tilvalinn fyrir félög sem vilja fjárafla og einstaklinga sem vilja selja eitthvað skemmtilegt á aðventunni.

Jólakofinn stendur áhugasömum til boða endurgjaldslaust á fyrirfram skilgreindum tímum. Boðið verður upp á aðgengi að rafmagni í kofanum. Sú krafa er gerð til þátttakenda að þeir séu í jólaskapi og hafi til sölu gæðavöru á sanngjörnu verði, gangi vel um kofann og skili honum í því ástandi sem þeir taka við honum í. Auk þess er það á ábyrgð söluaðila að uppfylla þau lög og reglur sem gilda um þá söluvöru sem þeir eru með á boðstólum.

Verkefnisstjórn Jólakofans hagar vali á umsóknum m.a. eftir vöruflokkum, algengi vöru í jólakofanum, starfsemi umsækjanda auk sérstakra aðstæðna annarra. Verkefnisstjórn áskilur sér einnig rétt til að bjóða tveimur söluaðilum að samnýta jólakofann ef söluvarningur og aðstæður bjóða upp á það.

Áhugasamir þurfa að sækja um aðgang að Jólakofanum og mun niðurstaða birt í síðasta lagi 30.nóvember.  Með því að smella hér opnast umsóknareyðublað

Frekari fyrirspurnir skulu sendar á netfangið  sulan@reykjanesbaer.is