Nýjar tunnur komnar í dreifingu

Dreifing á nýjum tunnum til íbúa Reykjanesbæjar fer vel af stað og þökkum við fyrir frábærar móttökur. Vinnan við dreifinguna heldur áfram á næstu vikum og gerum við ráð fyrir að dreifingu verði lokið fyrir lok júlímánaðar.

Til þess að tryggja farsæla innleiðingu koma hér nokkrar ábendingar til íbúa

  • Við sérbýli bætist við ein ný tvískipt tunna.
  • Í fjölbýlum þarf í einhverjum tilfellum að skipta út þeim tunnum sem fyrir eru og koma fyrir tunnum af annarri stærð.
  • Á þeim stöðum þar sem þarf að fjarlægja tunnur má búast við að einhverjir dagar líði á milli þess sem nýju tunnurnar koma og að þær gömlu verði fjarlægðar. Reynt verður eftir fremsta megni að vinna þetta hratt og vel og biðlum við til íbúa að sýna þolinmæði. Það eru ekki sömu aðilar sem sjá um að dreifa og að fjarlægja sem leiðir til þess að þetta gerist ekki samhliða.
  • Byrjað verður að hirða samkvæmt nýju flokkunarkerfi þegar dreifingu er lokið og búið verður að tæma það sem fyrir var í tunnunum á meðan á dreifingu stóð.
  • Losanir eftir breytingar verða með þeim hætti að matarleifar og blandaður úrgangur verður hirtur á tveggja vikna fresti á meðan endurvinnsluefnin (pappi / pappír og plastumbúðir) verða hirt á fjögurra vikna fresti. Unnið er að útgáfu nýs dagatals þannig að íbúar geti fylgst með hvenær tunnurnar verða tæmdar.
  • Mikilvægt er að íbúar hugi vel að varanlegum staðsetningum fyrir sínar tunnur þannig að þær haldist örugglega á sínum stað og séu aðgengilegar.

Verkefni þetta er umfangsmikið og tekur árangurinn mið af framlagi allra þeirra sem að því koma. Það er því mikilvægt að íbúar Reykjanesbæjar taki þátt í þessu með okkur. Í sameiningu getum við miðlað upplýsingum áfram í okkar nærumhverfi og tekið þátt þessum breytingum og þar með innleiðingu á hringrásarhagkerfinu.

Við hvetjum íbúa til þess að kynna sér málið betur á vefnum www.flokkum.is en þar er að finna ítarlegar upplýsingar, svör við algengum spurningum ásamt leitarvél um það hvernig skuli flokka. Ef frekari upplýsinga er þörf geta íbúar haft samband við sveitarfélagið eða Kölku en við bendum jafnframt á að ekki verður tekið á móti óskum um sérlausnir á meðan á dreifingu og innleiðingu stendur.

Takk fyrir að flokka ♻️

Nánar um flokkun úrgangs og sorphirða >