Frá sólarupprás í Reykjanesbæ. Útilistaverkið lengst til vinstri er verk Erlings Jónssonar Hvorki f…
Frá sólarupprás í Reykjanesbæ. Útilistaverkið lengst til vinstri er verk Erlings Jónssonar Hvorki fugl né fiskur.

Nokkuð fjörugar umræður urðu á bæjarstjórnarfundi í gær. Meðal mála sem voru til umræðu var  fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2020-2023, fyrri umræða. Meirihlutinn lagði fram bókun þar sem koma fram helstu áhersluatriði í nýrri fjárhagsáætlun. Tveir bæjarfulltrúar úr minnihluta lögðu einnig fram bókanir sem tengust fjárhagsáætlun en bókuðust undir málum í fundargerðum bæjarráðs frá 7. og 14. nóvember sl. Fjárhagsáætlun 2020-2030 var í fundarlok vísað til síðari umræðu 3. desember nk. og það samþykkt af öllum bæjarfulltrúum.

Í máli Guðbrands Einarssonar sem lagði fram bókun meirihluta bæjarstjórnar, kom fram að fjárhagsáætlun væri unnin í samræmi við gildandi aðlögunaráætlun og samkomulag við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Þar kemur fram að rekstur Reykjanesbæjar þarf að skila að lágmarki 11,8% framlegð fyrir fjármagnsliði og fjárfestingar á næsta ári. (Framlegð er tekjur bæjarsjóðs að frádregnum breytilegum kostnaði.) Gert er ráð fyrir að tekjur bæjarsjóðs verði 16,7 milljarðar króna.. Gjöld verða tæpir 15 milljarðar og reiknað er með að fjármagnsliðir verði neikvæðir um tæpar 800 milljónir.

Helstu fjárfestingar árið 2020 verða:

  • Vatnaveröld, endurbætur útisvæðis, kr. 200 milljónir
  • Körfu- og sparkvöllur á Ásbrú, kr. 30 milljónir
  • Strandleið, lagfæringar, kr. 25 milljónir
  • Seltjörn, áframhaldandi uppbygging, kr. 25 milljónir
  • Njarðvíkurskógar, 25 milljónir

Þá er ráðgert að koma gervigrasvelli vestan Reykjaneshallar ef heimild fæst frá Eftirlitsnefnd. Áætlaðar fjárfestingar vegna Stapaskóla nema um 2 milljörðum.

Hvatagreiðslur verða hækkaðar úr kl. 28.000 í 35.000 og lagt er til að afreksstyrkir til ungmenna sem  komast í landslið verði hækkaðir. Þá er lagt til að gerðir verði styrktarsamningar við íþróttafélögin Keflavík og Njarðvík, 

Einnig var farið yfir Stefnumótun Reykjanesbæjar 2020-2030 og hvernig gert verði ráð fyrir að ná fram stefnumiðum, sem eru í 11 liðum. Áhugasömum er bent á fundargerð bæjarstjórnar til frekari upplýsinga. Fundargerð má nálgast hér

Bókanir minnihluta

Miðflokkurinn lagði fram bókun vegna liðs 1 í fundargerð bæjarráðs frá 14. nóvember sl. en hann varðaði fjárhagsáætlunargerðina. Í bókun, sem Gunnar Felix Rúnarsson flutti segir: „Það sem kemur mér verulega á óvart varðandi fjárhagsáætlunina er hækkun á milli ára hjá stjórnsýslu. Árið 2019 var kostnaðurinn 45.000.000 en í fjárhagsáætluninni fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir kostnaðaraukningu en kostnaðurinn mun verða 84.915.000 kr. Hér er um að ræða kostnaðaraukningu upp á tæpar 40.000.000 kr. sem er helmings hækkun. Telur meirihlutinn það vera eðlilegt?
Ég skil vel að kostnaðurinn vegna rafrænnar stjórnsýslu sé óhjákvæmilegur. Var nauðsynlegt að stækka báknið? Ég bara spyr. Ég velti því fyrir mér hvort að þetta sé rétti tíminn til að auka kostnað stjórnsýslunnar.
Hér ríkir mikil óvissa á svæðinu og aukið atvinnuleysi. Almennt er talið að við séum að fara í gegnum niðursveiflu. Er þá eðlilegt að auka álögur á bæjarbúa vegna stjórnsýslunnar, væri ekki skynsamlegra að lækka álögur á bæjarbúa?“

Þá lagði Sjálfstæðisflokkur fram bókun vegna liðs 2 í fundargerð bæjarráðs frá 7. nóvember sl. en hann varðaði gjaldskrá Reykjanesbæjar 2020. Í bókun sem Baldur Þ. Guðmundsson flutti, segir:„Í þeirri gjaldskrá sem nú er lögð fram er gert ráð fyrir að mæta hækkun fasteignamats á næsta ári með því að færa fasteignaskattsprósentuna í 0,32% af heildarfasteignamati. Með þeirri lækkun mun innheimtur fasteignaskattur samt hækka á milli ára.
Minnihlutinn harmar að bættur hagur bæjarsjóðs sé ekki nýttur til að svara ákalli bæjarbúa um hóflega innheimtu fasteignaskatta. ASÍ og Byggðastofnun hafa nýlega tekið saman skýrslur þar sem á það er bent að Reykjanesbær innheimtir hæstu fasteignaskatta af öllum bæjarfélögum landsins. Langþráðu lögbundnu skuldaviðmiði hefur verið náð og ORK sjóðurinn skilaði rúmum fjórum milljörðum til bæjarsjóðs þannig að óþarft er að nýta þennan tekjulið fram úr hófi.“

Í bókun meirihluta, sem áður var fjallað um, kemur fram að gjaldskrá muni ekki hækka umfram þau 2,5% sem gefin voru fyrirheit um í gildandi kjarasamningum á almennum vinnumarkaði.