Fyrsti fundur ungmennaráðs á þessum vetri

Hermann Nökkvi Gunnarsson fulltrúi Njarðvíkurskóla kom nýr inn í ungmennaráð á þessu hausti.
Hermann Nökkvi Gunnarsson fulltrúi Njarðvíkurskóla kom nýr inn í ungmennaráð á þessu hausti.

Ungmennaráð átti sinn fyrsta fund með bæjarstjórn Reykjanesbæjar sl. þriðjudag en ráðið fundar að hausti og vori með bæjarstjórn ár hvert. Að venju komu fram fullt af góðum hugmyndum en bæjarstjórn barst ekki síður fullt af hrósum á þessum fyrsta fundi vetrarins.

Þau eru ýmis hagsmunamálin sem meðlimir ungmennaráðs vilja berjast fyrir og ýmsu hafa þau fengið framgengt á þeim tæpum fimm árum sem ráðið hefur verið starfandi. Endurnýjun húsgagna í mörgum grunnskólum bæjarins, opnun bókhalds Reykjanesbæjar, aukið umferðaröryggi með gerð hringtorga og nýtt strætóskýli var meðal verkefna sem bæjarstjórnin fékk hrós fyrir. Hins vegar finnst ungmennaráði að klára ætti endurnýjun húsgagna í öllum skólum, að bæta þurfi lýsing á stöku stað, á göngustígum og sparkvelli í Ytri-Njarðvík, fjölga  ætti ruslatunnum, gera ætti átak í endurvinnslu, að taka ætti upp fyrra fyrirkomulag í Frístundaskóla og keyra börnum sem þar eru í eina tómstund, bjóða upp á tómstundarútu á kvöldið svo börn í öllum hverfum bæjarins komist heim  úr tómstundum áður en útivistartíma lýkur, endurskoða opnunartíma Bókasafns Reykjanesbæjar og gjaldtöku í sund fyrir börn og berjast fyrir framtíð barna og ungmenna með minni áherslu á stóriðju. Berglín Sólbrá Bergsdóttir formaður ungmennaráðs lagði til að bærinn yrði frekar þekktur sem tónlistarbær eða íþróttabær en iðnaðarbær.

Bæjarstjórn þakkaði unga fólkinu góðar hugmyndir, sagði þær mjög mikilvægar fyrir stjórnina. Jafnframt að haldið yrði áfram að hlusta á sjónarmið þeirra, jafnvel bjóða þeim meiri aðkomu að bæjarmálunum en nú er. 

Hér má nálgast meiri upplýsingar um ungmennaráð.