- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Reykjanesbær vinnur nú að því að stóru og metnaðarfullu verkefni, að byggja upp nýtt og lifandi miðsvæði á Akademíureit austan við Reykjaneshöllina á horni Þjóðbrautar og Krossmóa. Þar mun rísa fjölbreytt og falleg byggð með samkomutorgi, skemmtilegum gönguás og fjölmörgum tækifærum til samveru, útivistar og afþreyingar.
Í maí var gerð könnun þar sem íbúar sýndu skýran áhuga á hlýlegu samkomutorgi, góðum leiksvæðum og fjölbreyttri þjónustu. Framtíðarsýnin byggir á þessum áherslum og var kynnt nánar á opnu húsi þar sem bæjarbúar komu með ábendingar og hugmyndir 9. nóvember síðast liðinn.
Markmiðið er skýrt, að skapa nýjan samkomustað fyrir bæjarbúa á öllum aldri og gera Reykjanesbæ enn meira aðlaðandi, líflegri og þéttari bæ.

Torgið - hlýlegt og lifandi samkomusvæði
Í hjarta skipulagstillögunnar er nýtt samkomutorg sem mun verða ný samveru- og viðburðamiðja bæjarins. Þar geta íbúar og gestir hist, notið útiveru og upplifað menningu og mannlíf allt árið.
Á torginu verða:
- Veitingastaðir og kaffihús með útisvæðum
- Fjölbreyttir viðburðir yfir árið, allt frá tónleikum til jólamarkaða
- Listaverk og lýsing sem skapar persónulegt yfirbragð
- Hlýtt skjól og gróður sem gera rýmið notalegt og aðgengilegt
Torgið mun vera svokallað “Ljósatorgˮ sem talar til Ljósanætur og verður með einkennandi ljósahönnun. Á torginu verði listaverk þar sem unnið er með lýsingu á skemmtilegan hátt og verður að sérkenni torgsins.


Gönguásinn sem tengir byggðina betur saman
Gönguásinn verður eins konar rauður þráður í gegnum alla uppbygginguna, falleg, græn og örugg leið fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Hann mun tengja Reykjaneshöll, Akademíuna, samkomutorgið, samgöngumiðstöðina og áfram út að Stekkjahamri.
Gestir geta gengið eða hjólað eftir ásnum, notið umhverfis, setist niður eða gripið sér kaffibolla í litlu kaffihúsi við stíginn. Ásinn mun verða upplifun í sjálfu sér, með lágstemmdu ljósi, listrænum innsetningum og góðu aðgengi fyrir alla.
Reykjanesbær er íþróttabær
Akademíureiturinn stendur í hjarta þess svæðis þar sem íþróttalíf og fjölskyldulíf Reykjanesbæjar mætast á hverjum degi. Í nágrenninu eru leikskólar, grunnskóli, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Blue-höllin, Nettóvöllurinn, sundmiðstöð Reykjanesbæjar, Rafholtsvöllur, Reykjaneshöllin og íþróttaakademían.
Uppbyggingin styrkir íþróttamenningu bæjarins:
- Lagt er til að nýtt anddyri verði byggt framan við Reykjaneshöllina þar sem nú eru bílastæði sem skapar betra aðgengi og rými fyrir börn og fjölskyldur
- öruggar göngu- og hjólaleiðir tengja svæðið við hverfin
- nýtt leiksvæði bætir aðgengi barna og ungmenna
- fjölbreytt þjónusta bætir daglegt líf þeirra sem sækja svæðið

Samgöngumiðstöð sem veitir gott aðgengi að almenningssamgöngum
Miðstöðin stendur við gönguásinn og veitir mjög gott aðgengi með almenningssamgöngum að Akademíureit, íþróttamannvirkjum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og verslun og þjónustu við Krossmóa.
Íbúðarbyggð meðfram gönguásnum
Á suðurhluta reitsins mun rísa fjölbreytt íbúðabyggð, falleg, mishá og með mikið uppbrot og fjölbreytt útlit, lita- og efnisval. Lögð er áhersla á litlar og meðalstórar íbúðir sem henta vel ungu fólki, einstaklingum og pörum. Lóðir verða gróðursælar og tengingin við gönguásinn góð. Íbúðarbyggð liggur meðfram gönguásnum og myndar skjólgóða og sólríka inngarða til suðurs.
Uppbygging sem eflir bæjarímynd
Þegar Akademíureitur tekur á sig endanlega mynd verður til nýtt “akkeri” í Reykjanesbæ, staður sem sameinar íþróttir, menningu, útivist og daglegt mannlíf. Verkefni sem bætir aðgengi, tengingar, þjónustu og lífsgæði. Og umfram allt: þetta er verkefni fyrir bæjarbúana sjálfa!
Kynntu þér verkefnið nánar!
Reykjanesbær hvetur alla bæjarbúa til að kynna sér verkefnið nánar. Á kynningarsíðu um Akademíureit má finna frekari upplýsingar um skipulagið, mögulegar áfangaskiptingar, bílastæðamál, samgöngur, framtíðarsýn fyrir almenningsrými og fleiri þætti sem ekki er tæpt á í þessari frétt. Þar má einnig sjá teikningar, skýringarmyndir og efni frá opnu húsi verkefnisins.
Við hlökkum til áframhaldandi samtals við íbúa og erum spennt að skapa nýtt og öflugt hjarta í miðju Reykjanesbæjar!
Kl. 09:00 – 15:00 virka daga (mán.-fös.)