Rýmingaráætlun Reykjanesbæjar

Í framhaldi af jarðhræringum á Reykjanesi hafa verið unnar rýmingaráætlanir fyrir hverja stofnun í Reykjanesbæ með áherslu á skóla og leikskóla þar sem gæti þurft að rýma fjölmennar stofnanir vegna hverskonar vár sem kann að koma upp. Samhliða þeirri vinnu höfum við unnið rýmingaráætlanir fyrir sveitarfélagið í heild með því að skilgreina flóttaleiðir úr bænum, skilgreina fjöldahjálpastöðvar og staðsetningar helstu stofnana bæjarins. Í rýmingaráætluninni má einnig finna leiðbeiningar og tilmæli til íbúa komi til neyðarástands.

Í skipulagi almannavarna er rýming hluti af mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifum hættu á samfélag og íbúa þess, áður en neyðarástand á sér stað eða á meðan neyðarástand varir. Það felur í sér að íbúar flytja á öruggari stað og síðan að þeir komist öruggir heim aftur í lok neyðarástands.

Þeir aðilar sem unnu áætlunina eru frá Umhverfissviði Reykjanesbæjar, Brunavörnum Suðurnesja, Lögregluembættinu, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnardeild Landsbjargar og Björgunarsveit Suðurnesja

Til að rýming gangi vel fyrir sig er mikilvægt að til sé áætlun um framkvæmd rýminganna. Ríkislögreglustjóri gefur fyrirmæli um brottflutning fólks af hættusvæði og hér má sjá ferlið á rýmingaráætluninni.