289. fundur

04.03.2022 08:15

289. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 4. mars 2022 kl. 08:15

Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Hannes Friðriksson, Gunnar Felix Rúnarsson, Ríkharður Ibsen, Róbert J. Guðmundsson.

Helga María Finnbjörnsdóttir boðaði forföll og sat Hannes Friðriksson fundinn í hennar stað. Ríkharður Ibsen sat fundinn í gegnum fjarfundabúnað.

Að auki sátu fundinn Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi, Maríanna Hvanndal Einarsdóttir sérfræðingur og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir að umsókn um viðbyggingu við Iðavelli 1 verði tekin á dagskrá og er fjallað um málið í fundarlið 6. Færast því öll mál þar á eftir aftur um einn lið.

1. Afgreiðslu- og samráðsfundur byggingafulltrúa nr. 323 (2022010016)

Lögð fram til kynningar fundargerð afgreiðslu- og samráðsfundar byggingarfulltrúa nr. 323, dags. 3. mars 2022 í 7 liðum með fullnaðarafgreiðslum erinda.

Fylgigögn:

Fundargerð 323. fundar afgreiðslu- og samráðsfundar byggingarfulltrúa 3. mars 2022

2. Dalshverfi III - lóðaumsóknir (2019050472)

Undirbúningur úthlutunar suðurhluta Dalshverfis, III áfanga.

Lagt fram.

3. Kalmanstjörn - umsögn um umhverfismatsskýrslu (2022021161)

Skipulagsstofnun óskar eftir umsögn um umhverfismatsskýrslu um stækkun fiskeldis Benchmark Genetics Iceland að Kalmanstjörn á Reykjanesi skv. 22. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Benchmark Genetics Iceland hefur leyfi til framleiðslu á allt að 190 tonnum af laxi á ári í eldisstöðinni við Kalmanstjörn og hyggst auka framleiðsluna í 600 tonna hámarkslífmassa. Með framkvæmdinni getur fyrirtækið aukið hrognaframleiðslu í stöðinni. Áætlað er að auka þurfi vinnslu jarðsjávar á svæðinu um 700 l/s (ísalt vatn og jarðsjór) til að mæta framleiðsluaukningunni og grunnvatnsvinnsla vegna eldisins verði þá í heildina allt að 1.500 l/s meðalrennsli á ári. Áhrif aukinnar framleiðslu á laxi í eldinu við Kalmanstjörn og aukinnar vinnslu á grunnvatni þar eru metin óveruleg fyrir grunnvatn, jarðmyndanir og fornleifar. Áhrif á lífríki í fjörunni eru metin óveruleg til nokkuð neikvæð ef fráveitan verður áfram með núverandi fyrirkomulagi (kostur A) og áhrifin eru metin óveruleg ef fráveitan verður hreinsuð áður en eldisvatni er veitt í fjöruna (kostur B). Verði frárennsli hreinsað eru áhrif á fuglalíf metin óveruleg (kostur B) en óveruleg til nokkuð jákvæð verði fyrirkomulag fráveitunnar óbreytt frá því sem nú er (kostur A).

Reykjanesbær gerir ekki athugasemd við umhverfismatsskýrsluna og telur að nægjanlega sé skýrt hvernig unnið verði að umhverfismati framkvæmdarinnar. Framkvæmdin er byggingarleyfisskyld.

Fylgigögn:

Stækkun fiskeldis við Kalmanstjörn - umhverfismatsskýrsla og umsagnarbeiðni

4. Deiliskipulag Kalmanstjörn - Nesvegur 50 (2020080234)

Stofnfiskur leggur fram deiliskipulag fyrir svæðið sem er 32 ha og afmarkast af lóðarmörkum Nesvegs 50 samkvæmt uppdráttum Tækniþjónustu SÁ ehf. dags 7. maí og greinargerð dags. í apríl 2020. Vegna tafa á afgreiðslu sveitarfélagsins var tillagan auglýst aftur óbreytt. Engar athugasemdir bárust.

Samþykkt að senda til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu.

Fylgigögn:

Kalmanstjörn - Nesvegur 50 - deiliskipulagstillaga

5. Tjarnabraut og Svölutjörn - lóðarstækkun (2021120003)

Breyting á deiliskipulagi Tjarnahverfis. Upprunalegt deiliskipulag gerði ráð fyrir fjölbýlishúsum við Tjarnabraut, en 2008 var því breytt þannig að í staðinn var gert ráð fyrir tvíbýlishúsum á tveimur hæðum. Breytingin snýst nú um að meðfram Tjarnabraut verði einbýlishús á einni hæð eins og annars staðar á skipulagsreitnum og að lóðamörk til norðurs færist í upprunalegt horf sbr. uppdrátt Kanon arkitekta dags. 17. janúar 2022. Öll hús við Svölutjörn og húsið við Urðarbraut hafa þegar verið reist og er breytingatillagan í samræmi við það. Erindið var samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda skv. 44. grein skipulagslaga, málsgrein 2.

Lagt fram.

Fylgigögn:

Tjarnahverfi - Tjarnabraut 26-40 og Svölutjörn 65-71 - deiliskipulagsuppdráttur og skilmálar

6. Iðavellir 1 – stækkun (2022010098)

Skólamatur ehf. óskar eftir auknum byggingarheimildum í samræmi við uppdrátt Riss verkfræðistofu dags. 30. desember 2021. Óskað er heimildar til að byggja tveggja hæða húsnæði austur af núverandi húsi. Gert verði ráð fyrir vinnslurými á neðri hæð en skrifstofu- og starfsmannarými á efri hæð. Á 284. fundi umhverfis- og skipulagsráðs var samþykkt að senda erindið í grenndarkynningu skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 2. Grenndarkynningu er lokið. Engar athugasemdir bárust.

Erindi samþykkt.

Fylgigögn:

Iðavellir 1 - umsókn um viðbyggingu

7. Umferðarhraði við Vesturbraut (2022030066)

Íbúar við Vesturbraut leggja fram undirritaða áskorun til Reykjanesbæjar um viðbrögð við aksturslagi ökumanna og þungaumferð um Vesturbraut. Lagðar eru fram tillögur til úrbóta: Komið verði fyrir 2-3 hraðahindrunum í samráði við íbúa. Hámarkshraði verði lækkaður í 30 km/klst. Gangbraut verði gerð milli hringtorgs og blikksmiðju og merktar gangbrautir verði við hringtorg. Þungatakmörkun við 7,5 t og þungaumferð beint um höfnina frá Helguvík.

Umhverfis- og skipulagsráð þakkar fyrir erindið og tekur undir með íbúum. Starfsmönnum umhverfissviðs er falið að gera umferðarmælingar og koma með tillögur að úrbótum.

Fylgigögn:

Áskorun frá íbúum við Vesturbraut

8. Vefurinn www.visitreykjanesbaer.is (2021110285)

Kynning á heimasíðu og viðburðadagatali vefsins visitreykjanesbaer.is.

Lagt fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða vefinn visitreykjanesbaer.is

9. Umsókn um lóð - Fuglavík 35 (2022021011)

ÁÁ verktakar ehf. sækja um lóðina Fuglavík 35.

ÁÁ verktökum ehf. er úthlutað lóðinni Fuglavík 35.

Fylgigögn:

Fuglavík 35 - umsókn um lóð

10. Umsókn um lóð - Fuglavík 41 (2022021012)

ÁÁ verktakar ehf. sækja um lóðina Fuglavík 41.

ÁÁ verktökum ehf er úthlutað lóðinni Fuglavík 41.

Fylgigögn:

Fuglavík 41 - umsókn um lóð

11. Umsókn um lóð - Grjótás 10 (2022021163)

Sigríður Guðbrandsdóttir sækir um lóðina Grjótás 10.

Sigríði Guðbrandsdóttur er úthlutað lóðinni Grjótási 10.

Fylgigögn:

Grjótás 10 - umsókn um lóð


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 09:46. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. mars 2022.