290. fundur

18.03.2022 08:15

290. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 18. mars 2022 kl. 08:15

Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson formaður, Baldur Þ. Guðmundsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Gunnar Felix Rúnarsson og Róbert J. Guðmundsson.

Ríkharður Ibsen boðaði forföll og Baldur Þ. Guðmundsson varamaður sat fundinn.

Að auki sátu fundinn Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi, Gunnar Ellert Geirsson deildarstjóri umhverfissviðs, Maríanna Hvanndal Einarsdóttir sérfræðingur og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Afgreiðslu- og samráðsfundur byggingafulltrúa nr. 324 (2022010016)

Lögð fram til kynningar fundargerð afgreiðslu- og samráðsfundar byggingarfulltrúa nr. 324, dags. 14. mars 2022 í 6 liðum með fullnaðarafgreiðslum erinda.

Fylgigögn:

Fundargerð afgreiðslu- og samráðsfundar byggingarfulltrúa nr. 324

2. Iðjustígur 1 - tillaga að deiliskipulagi (2022030448)

JeES arkitektar ehf. kynna fyrir hönd lóðarhafa frumdrög að deiliskipulagstillögu fyrir Iðjustíg. Tillagan er af 5 hæða húsi með 60 íbúðum og 700 m2 rými fyrir verslun og þjónustu. Nýtingarhlutfall ofanjarðar verði 1,6.

Samþykkt er heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagsbreytingu í samvinnu við skipulagsfulltrúa. Skipulagssvæði þarf að fylgja lóðamörkum og ná yfir heild. Skipulagið nái yfir Iðjustíg 1, Hafnargötu 91 og Pósthússtræti 5, 7 og 9.

Erindi frestað. Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.

3. Hjólreiðaáætlun Reykjanesbæjar (2022030450)

Formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar leggur fram tillögu um skipun stýrihóps sem vinni tillögu að Hjólreiðaáætlun Reykjanesbæjar 2022-2026 og leggi fyrir umhverfis- og skipulagsráð.

Hjólreiðaáætlunin verði hluti af heildarsýn á samgöngur, þróun byggðar og lífsgæði í fjölbreyttu sveitarfélagi í takt við svæðisskipulag Suðurnesja, aðalskipulag Reykjanesbæjar og umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar.

Meginmarkmið hjólreiðaáætlunarinnar verði að efla hjólreiðar í Reykjanesbæ með því að þétta og bæta hjólanetið í bænum og bæta tengingar við nágrannasveitarfélög. Í áætluninni verði staðan greind og sett fram framtíðarsýn fyrir hjólreiðauppbyggingu í Reykjanesbæ með mælanlegum markmiðum til ársins 2026 auk þeirra framkvæmda og aðgerða sem stefnt er að á tímabilinu.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir tillöguna og skipar Eystein Eyjólfsson og Róbert J. Guðmundsson í stýrihópinn.

4. Fitjar 1 - breyting á deiliskipulagi (2022030211)

Skeljungur hf. sækir um byggingarleyfi fyrir bílaþvottastöð sbr. aðaluppdrátt Dap arkitekta dags. 7. mars 2022. Í gildandi deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir mannvirki á þessum stað.

Erindi Skeljungs samræmist gildandi skipulagi. Erindi samþykkt.

Fylgigögn:

Deiliskipulag - vestur Fitjar

Fitjar 1

5. Grænás - fyrirspurn um lóð (2022030449)

Þórukot ehf. óskar eftir því við umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar að félaginu verði veittur þróunar- og forleiguréttur á hluta skipulagssvæðisins sem nefnt er ÍB10 í aðalskipulagi Reykjanesbæjar, sjá meðfylgjandi fylgiskjal, merkt fylgiskjal #1 frá Glóru ehf. dags. 25. febrúar 2022.

Erindi frestað.

6. Suðurnesjalína 2 (2019050744)

Bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga á 350. fundi bæjarráðs 2. mars 2022:

„Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hvetur sveitarfélög landsins og Samband íslenskra sveitarfélaga til að veita umsögn og taka afstöðu til frumvarps til laga um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi til lagningar Suðurnesjalínu 2 í lofti í sveitarfélaginu. Með frumvarpi þessu er gengið gegn grundvallaratriði stjórnskipunar um að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum. Verði þetta frumvarp að lögum mun það verða fordæmisgefandi og ógna sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga um ókomna tíð. Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga skorar á önnur sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga að standa vörð um lögvarið skipulagsvald sveitarfélaga.

Það skal skýrt tekið fram að Sveitarfélagið Vogar er ekki andvígt lagningu Suðurnesjalínu 2 og telur mikilvægt að auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu. Sveitarfélagið Vogar leggur áherslu á það sé að fara eftir þeirri umgjörð sem valkostagreiningin bauð upp á og vill að línan verði lögð í jörðu.“

Lagt fram.

Fylgigögn:

Bókun bæjarráðs Sveitarfélagsins Voga

7. Grjótás 10 - umsókn um lóð (2022021226)

Þórður Bragason og Malín Brand sækja um lóðina Grjótás 10.

Lóðarúthlutun samþykkt.

Fylgigögn:

Umsókn um lóð

8. Hólmbergsbraut 13 - umsókn um lóð (2022030083)

Trönudalur ehf. sækir um lóðina Hólmbergsbraut 13

Lóðarúthlutun samþykkt.

Fylgigögn:

Umsókn um lóð

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 09:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 5. apríl 2022.