Styrkir til nýsköpunar í leik- og grunnskólum

Skrifstofa menntasviðs auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar úr nýsköpunar- og þróunarsjóði fyrir leik- og grunnskóla.

Skrifstofa menntasviðs auglýsir eftir umsóknum vegna úthlutunar úr nýsköpunar- og þróunarsjóði fyrir leik- og grunnskóla. Markmið með sjóðnum er að stuðla að nýsköpun, framþróun og öflugu innra starfi leik- og grunnskóla í Reykjanesbæ. Skólastjórar, kennarar og aðrir fagaðilar í leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar geta sótt um í sjóðinn. Einnig er hægt að sækja um í sjóðinn fyrir samstarfsverkefni milli skóla eða skólastiga.

Til úthlutunar fyrir skólaárið 2023 - 2024 eru 10 milljónir.

 

Áhersluþættir Nýsköpunar- og þróunarsjóðs fyrir skólaárið 2023-2024:

    • Mér líður vel: Vellíðan er grundvöllur þess að börnum farnist vel, þau séu virk, tileinki sér nám og öðlist hæfni sjálfum sér og öðrum til heilla. Að þekkja tilfinningar sínar og innri hvata er mikilvægt hverjum einstaklingi og á þeirri vegferð þarf að vera svigrúm fyrir bæði mistök og sigra. Umhverfi sem einkennist af jákvæðri athygli, virkri hlustun og hvatningu skapar jarðveg fyrir börn og ungmenni að blómstra sem einstaklingar og hugrekki til að vera þau sjálf. Sterk sjálfsmynd hefur ekki aðeins áhrif á vellíðan heldur er hún ein sterkasta forvörnin gegn áhættuhegðun. Heilbrigðir lífshættir stuðla jafnframt að vellíðan barna. Heilsueflandi áherslur sem ná yfir holla næringu, hreyfingu og hvíld eru mikilvægar ásamt öðrum þáttum sem styðja við líkamlega, andlega og félagslega heilsu.  Gleðin þarf að vera ríkjandi í umhverfi barna svo upplifun þeirra verði í senn gefandi og skemmtileg. Að læra í gegnum leik er grunnur að þroskaferli sérhvers barns en leikurinn færir jafnframt ótal tækifæri til að upplifa gleði og efla um leið sköpunarhæfni og stuðla að vellíðan. 

    • Allir með: Mannleg tengsl og samskipti við ólíka aðila fylgja okkur alla ævi. Ánægjuleg og árangursrík samskipti efla jákvæð tengsl og veita okkur gleði. Félagsfærni er mikilvæg undirstaða góðra samskipta, vináttu og skilnings á öðrum. Hún hjálpar börnum og ungmennum að tjá skoðanir sínar, setja sig í spor annarra og koma fram af virðingu. Góð félagsfærni eykur aðlögunarhæfni og er forvörn gegn þáttum eins og einmannaleika og vanlíðan. Félagsfærni þroskast í samskiptum við aðra og eflist í aðstæðum sem einkennast af lýðræðislegri þátttöku, vinsemd og skilningi. Samvinna í minni eða stærri hópum þar sem allir hafa hlutverk og bera ábyrgð á sínu framlagi eflir jafnframt félagslegan þroska. Þjálfun í að vinna með öðrum að sameiginlegu markmiði styrkir eiginleikann að taka tillit til annarra, skiptast á skoðunum og taka sameiginlegar ákvarðanir. 

    • Opnum hugann: Læsi er samheiti yfir marga færniþætti og endurspeglar hæfni til að skynja og skilja samfélagið og umhverfið á gagnrýninn hátt. Læsi er grundvöllur þess að afla sér þekkingar sem eykur víðsýni og þroskar gagnrýna hugsun, ýtir undir valdeflingu, virkni og lýðræðislega þátttöku.  Fjölbreytt miðlun efnis þroskar sjálfsstætt gildismat barna og hæfnina til að setja ólík sjónarhorn í samhengi. Gagnrýnin hugsun reiðir sig ekki einungis á bein rök né alhæfingar heldur sameinar skoðanir, skilning og tilfinningar með heilbrigðum hætti. Mikilvægt er að börn og ungmenni fái tækifæri til að vinna með ólík tjáningarform við miðlun og frelsi til að beita orðum eða hvers konar táknum í sína þágu og samfélagsins alls. Sá sem hefur tækifæri til tjáningar með fjölbreyttum leiðum eykur möguleika sína á að hugsa lengra og stærra. 

    • Sköpunargleði: Sköpun er meðfæddur eiginleiki sem á rætur í eðlislægri forvitni og athafnaþrá. Til að sá eiginleiki fái notið sín þarf að búa börnum og ungmennum umhverfi sem ýtir undir það að þau nýti og njóti sköpunarhæfni sinnar.  Sköpun á að vera órjúfanlegur þáttur í öllu starfi með börnum og ungmennum og birtast í fjölbreyttu samhengi, skipulagi og starfsháttum allra sem sinna menntun og uppeldi. Í skapandi og nærandi jarðvegi blómstrar nýsköpun, frumkvæði og frjó hugsun.  Með því að veita börnum tækifæri til sköpunar sem byggir á forvitni, ímyndunarafli, áhuga, leit og leik öðlast þau aukna sjálfsþekkingu, hæfni og áræðni til að hafa áhrif á heiminn í kringum sig.   

    • Við og jörðin: Formleg og óformleg menntun til sjálfbærni með áherslu á mannréttindi, frelsi og jöfnuð eykur þekkingu og færni til að bregðast við áskorunum nútímans og framtíðarinnar á valdeflandi og skapandi hátt. Mikilvægt er að stuðla að aukinni meðvitund um þá staðreynd að við eigum aðeins eina jörð og með aðgerðum í nærumhverfinu höfum við áhrif á lífskjör og aðstæður fólks annars staðar á jörðinni. Með því að veita börnum tækifæri til að velta fyrir sér eigin gildum og viðhorfum og skoða á gagnrýninn hátt samspil náttúru og mannlífs munu þau finna nýjar leiðir sem leiða til aukinnar farsældar og sjálfbærs samfélags.

Tekið verður á móti umsóknum frá kl. 8:00 þriðjudaginn 7. febrúar til kl. 16:00 þriðjudaginn 28. febrúar 2023 og verður þeim svarað fyrir 1. apríl.

Frekari upplýsingar veita:

Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, haraldur.a.einarsson@reykjanesbaer.is
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi, ingibjorg.b.hilmarsdottir@reykjanesbaer.is

Eyðublað:

Umsókn um styrk úr nýsköpunar- og þróunarsjóði skrifstofu menntasviðs 2023-24.

Sæktu um hér