Bæjarráð fékk í dag kynningu á fyrstu sjálfbærniskýrslu Reykjanesbæjar fyrir árið 2021. Í skýrslunni er farið yfir þau málefni sem snerta umhverfis- og loftslagsmál sveitarfélagsins ásamt þeim verkefnum sem fram undan eru.

Vægi málaflokksins hefur aukist jafnt og þétt hjá okkur síðastliðin ár og hafa t.a.m. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun verið hluti af heildarstefnu sveitarfélagsins frá 2019 og ný sjálfstæð umhverfis- og loftslagsstefna samþykkt í bæjarstjórn á vormánuðum 2021. Þá var sjálfbærnifulltrúi ráðinn til að taka betur utan um þau verkefni sem þegar voru í gangi en jafnframt þau sem mikilvægt er að ráðast í á komandi árum.

Í skýrslunni gefst lesendum kostur á að skoða kolefnisspor sveitarfélagsins og bera það saman við losun fyrri ára. Notast er við svokölluð UFS viðmið (Umhverfi, Félagslegir þættir og Stjórnarhættir) sem gefin eru út af Nasdaq í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands og fleiri aðila í íslensku viðskiptalífi. UFS viðmið eru leiðbeiningar fyrir þá sem vilja efla sjálfbærni í sínum rekstri. Þátttaka sveitarfélaganna í landinu skiptir höfuð máli þegar horft er til þeirra markmiða sem Ísland hefur sett sér að ná á næstu árum er varðar sjálfbærni og ekki síst í umhverfis- og loftslagsmálum.

Losun Reykjanesbæjar jókst árið 2021 miðað við árið 2020 en gaman er að segja frá því að notkun jarðefnaeldsneytis dróst saman og einnig náðist betri árangur í flokkun úrgangs.

 

Fram undan eru miklar breytingar í úrgangsstjórnun og því til rík ástæða til þess að leggja aukna áherslu á flokkun til þess að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið.

Mikil áhersla hefur verið lögð í að tengja saman hverfi Reykjanesbæjar með stígum fyrir íbúa. Í dag eru heilsustígar í sveitarfélaginu 25,8 km og aðrir stígar 52 km. Áfram verður unnið að þessum málaflokki og eru íbúar hvattir til þess að nýta sér þessa stíga í sínum heilsubótargöngum sem og samgöngum. Alla þessa stíga má finna á kortavef Reykjanesbæjar, https://www.map.is/reykjanesbaer/

Á síðasta ári voru gróðursett tæplega 11 þúsund tré og verður þeirri vinnu einnig haldið áfram á þessu ári til þess að auka við græn svæði og einnig skapa skjól. Þessi tré telja til kolefnisjöfnunar Reykjanesbæjar en með þeim voru bundin 1.082 tCO2í.

Mikil vinna hefur farið í greiningu og uppbyggingu á innviðum fyrir orkuskiptin sem fram undan eru. Mikil vöntun hefur t.a.m. verið á hleðslustöðvum fyrir rafbíla en áætlanir gera ráð fyrir að hér muni rísa 20 hleðslustöðvar á þessu ári og því ber svo sannarlega að fagna.

Markmiðin eru skýr og til þess að bregðast við öllum þeim breytingum sem fram undan eru er mikilvægt að bæjarbúar allir taki þátt í þessari vegferð. Við erum stolt af þeirri vegferð sem við erum á. Við viljum gera vel og leggja okkar lóð á vogaskálarnar svo samfélagið okkar nái að blómstra á sjálfbæran hátt.

Sjálfbærniskýrsla Reykjanesbæjar 2021 má nálgast hér