Skipulag almannavarna á Suðurnesjum

Mynd fengin af vf.is
Mynd fengin af vf.is

Um almannavarnir á Íslandi gilda sérstök lög sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2008. Í 9. grein þessara laga er fjallað um hvernig haga skuli almannavörnum í héraði, eins og það er kallað. Hér á Suðurnesjum, sem telst eitt slíkt hérað, eru starfræktar 2 almannavarnanefndir. Annars vegar Almannavarnanefnd Grindavíkur, sem eins og nafnið bendir til starfar innan sveitarfélagamarka Grindavíkur og hins vegar „Almannavarnanefnd Suðurnesja utan Grindavíkur“ sem starfar sameiginlega innan marka hinna sveitarfélaganna þ.e. Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga.

Í báðum nefndum sitja fulltrúar sveitarfélaganna, lögreglu, slökkviðliðs, björgunarsveita, Heilbrigðisstofunnar, Rauða krossins o.fl. aðila.

Almannavarnanefndir móta stefnu og skipuleggja almannavarnir á sínu svæði í samræmi við ákvæði laganna. Almannavarnanefndir vinna að gerð hættumats og viðbragðsáætlana og framkvæma prófanir og æfingar á viðbragðsáætlunum í samvinnu við ríkislögreglustjóra.

Aðgerðastjórn

Ef vá er yfirvofandi eða alvarlegt slys ber að höndum geta Almannavarnir lýst yfir viðbúnaðarstigi. Stigin er mismunandi eftir alvarleika 1. Óvissustig 2. Hættustig 3. Neyðarstig. Ef til þess kemur er Aðgerðarstjórn kölluð saman. Í henni sitja fulltrúar viðbragðsaðila og stýrir lögreglustjóri aðgerðum.

Viðbragðsáætlanir eru æfðar reglulega og virkjaðar ef og þegar þörf gerist. Frá síðustu áramótum hefur það meðal annars verið gert þegar veður hafa verið válynd, lendingar á Keflavíkurflugvelli tvísýnar, jarðhræringar miklar og nú síðast þegar heimsfaraldur eins og Covid19 geisar. Allir hlutaðeigandi eru í viðbragðsstöðu, þekkja sín hlutverk og eru tilbúnir til að bregðast við.

Neyðarstjórnir sveitarfélaga

Mörg sveitarfélög starfrækja neyðarstjórnir. Þeirra hlutverk er að vinna að undirbúningi og framkvæmd viðbragða þegar atburðir eru ekki það stórir eða alvarlegir að ástæða sé til þess að lýsa yfir viðbúnaðarstigi Almannavarna. Neyðarstjórnir eiga einnig gott samstarf við Almannavarnanefnd þegar og ef viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir og horfir þá þrengra á málið þ.e. fyrst og fremst á „sitt“ sveitarfélag. Neyðarstjórn er starfandi í Reykjanesbæ og fundar hún þrisvar í viku á meðan samfélagið er að glíma við Covid19 veiruna.

Það er mikilvægt fyrir íbúana að vita hvernig kerfið virkar og að geta treyst að því sé sinnt. Þannig er það hér hjá okkur á Suðurnesjum; Almannavarnanefndir, aðgerðarstjórnir og neyðarstjórnir eru vel mannaðar og virkar.

 Kjartan Már Kjartansson,

formaður Almannavarnarnefndar Suðurnesja, utan Grindavíkur